Saga class í strætó og matarkyns morðtilræði

Dýrheimar kaffihúsÖrstutt Reykjavíkurferð mín orsakaði ekki eldgos, eins og ég var búin að spá, svo gleymið því bara, ég er komin heim aftur. Við stráksi fórum og heimsóttum Hildu okkar í morgun og skutluðumst með henni um víðan völl, reyndar ekki í Sorpu, ótrúlegt en satt ... hehehe. Bílleysi mitt er sennilega einna ömurlegast þegar kemur að því að þurfa að henda einhverju - eða gefa í Búkollu og Rauða krossinn. Alveg takmörk fyrir því hvað hægt er að misota góðvild og skutlgleði vina og vandamanna í grennd, vill samviska mín meina. Minnugir bloggvinir vita að stundum komu sérlega velviljuð ættmenni úr borginni til að fara með dót fyrir mig á markaði í bænum, eða henda, þegar himnaríki var gert upp.

 

Frændhundar mínir fríðu, Herkúles og Golíat, voru með í för og okkur fannst svolítið snjallt að kíkja á kaffihús þar sem hundar væru velkomnir. Ég var send inn í Dýrheima, Víkurhvarfi 5 í Kópavogi, þar sem er laugardagskaffihús og hundar sérlega velkomnir með. Kettir eflaust líka nema þeir nenna ekki slíkri upplyftingu. Tvö ungmenni, tveir hundar og ein systir biðu úti í bíl á meðan ég njósnaði. Það gat nú varla verið almennilegt kaffi á boðstólum í verslun sem seldi hunda- og kattamat, eða hvað? Hreinskilni er best svo ég vatt mér að ungum manni sem stóð við afgreiðsluborðið. „Hvaða kaffi eruð þið með í boði hér? Frá hvaða fyrirtæki sem sagt?“ 

Ungi maðurinn brosti, sýndi mér pakka með espressókaffi frá Te og kaffi. Ég þakkaði pent, hringdi út í bíl og sagði liðinu að koma inn. Frændhundarnir geltu á fallegu kínversku dýrðardúllurnar (mjög fallegir hundar) sem voru þarna fyrir með eigendum sínum en annars fór allt fram með friði og spekt. Veitingarnar voru fyrsta flokks svo við förum pottþétt þangað aftur - bara á laugardegi.

 

Stráksi keypti sér mjög fínan sófa í litlu íbúðina sína, nettan og þægilegan Ikea-sófa sem kom allur á Skagann nema áklæðið á vinstri arminn. Það kom í dag og við nýttum ferðina og sóttum það. Þarna mátti finna fjölda landsmanna í svipuðum erindagjörðum, að sækja sér vörur. Mikið verður sófinn fínn þegar áklæðið er allt komið, stráksi var þrælspenntur. Við fórum á bílasölu líka (Toyota) og í Kost (gott tannkrem og geggjaðir þurrkaraklútar).

 

Opið hús kl. 17Við fengum uppfærslu á Saga Class í strætó í morgun og ég hefði auðveldlega getað verið með tíu sentimetrum lengri læri en samt haft ágætt fótapláss. En sú dýrð. Sat sæti aftar á heimleiðinni með ferðinni kl. 20 frá Mjódd en þá með fæturna yfir öðru framdekkinu, upphækkun sem sagt. Mæli síður með en lifði af. Naumlega. Allt er samt betra en fótaplássið í innanbæjarstrætó - börnin eru þó ánægð. 

 

Við fasteignos ætlum að hafa opið hús í himnaríki núna á miðvikudaginn - kl. 17 - í hálftíma. Svo má auðvitað hringja í fasteignasalann og biðja um að fá að skoða á öðrum tímum. Skrýtið hvað umhverfið hefur breyst á einum mánuði ... allt orðið svo fallega grænt og sumarlegt núna en á myndunum sem voru teknar fyrir ekki svo löngu er ekki einu sinni byrjað að grænka!

 

Bókin sem ég er að hlusta á kemur sífellt á óvart. Eftir kvalir mínar í gær og fyrradag við að lesa um gamaldags íslenskan mat sem var hafður í hávegum á ónefndu dvalarheimili kom í ljós að "góði" maturinn var í rauninni morðtilræði við íbúana. Gamla fólkið hrökk næstum upp af vegna m.a. kjötsúpueitrunar, sætsúpubyrlunar eða sviðaofnæmisviðbragða - og einn lögreglumaðurinn sem var sannur matgæðingur náði að leysa málið af því hann borðaði bara eðlilegan nútímamat. Þáði ekki einu sinni kleinur með kaffinu. Hann fann ýmsar sannanir um sekt á fb-síðunni Gamaldags íslenskur matur og ég stórefast um að sumir sem þar birta hryllingsmyndir sleppi nokkurn tímann úr steininum. Kokkurinn var auðvitað rekinn með skömm en því miður tókst ekki að sanna morðtilræði upp á hann. „Ég bjó til hafragraut að vanda - en svo hefur einhver annar komið og hrært súru skyri út í hann, viðbjóður alveg,“ laug hann. Skæðustu sóttina fékk nefnilega vesalings fólkið sem þurfti að þola hræringinn. Þessi bók er eiginlega of erfið fyrir mig að hlusta á, mér er flökurt og misboðið til skiptis. Það hlýtur að fara að koma út blóðug glæpasaga svo ég geti farið að hlusta á eitthvað með viti.

 

Jörgen KloppAnnars þarf ekki hryllingsbækur hér til að rústa tilveruna, það nægði að lofa stráksa að mæta með honum í Frystihúsið kl. 15 á morgun og hitta Jón Gnarr (sem við elskum bæði) - og átta mig svo á því að nákvæmlega klukkan þrjú þann sama dag hefst Liverpool-leikur (gegn Wolves) - sá síðasti sem Jurgen Klopp stýrir. Ég fæ far með grannkonu (sem fær ís fyrir skutlið). Vonandi tekst að ná mynd af stráksa og Gnarr saman, þá er myndasafnið hans fullkomið. Hann á mynd af sér með Áslaugu Örnu, Páli Óskari, jólasveininum, Hr. Hnetusmjöri og fleiri snillingum en sárvantar eina með Jóni.

 

Grasbletturinn græni sem ég stökk léttfætt eins og hind á út úr strætó við Garðabraut kl. 20.50 í kvöld, var skrambi þúfóttur svo ég reif upp nokkuð sæmilegan bata undanfarinna daga á hásin minni. Hvernig býr maður sér til kalda bakstra án þess að deyja úr kulda annars staðar en á hægri hásin? Þvottapoki, ísmolar, plastpoki? Dæs! Ég komst varla heim - en þessi dagur hefur samt gefið mér næstum 3.500 skref sem er meira en helmingi meira en meðalfjöldi skrefa sem ég tek yfirleitt. En þau síðustu í dag, Garðabraut-Himnaríki, voru ansi hreint minna glæsileg en þau fyrri. Það verður að viðurkennast.      

- - - - - - - - - - 

 

Facebook

Fræg manneskja með gott orðspor? spurði God á Facebook. Þessi voru oftast nefnd:

Keanu Reeves

Dolly Parton 

Tom Hanks


Bloggfærslur 18. maí 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 25
  • Sl. sólarhring: 79
  • Sl. viku: 721
  • Frá upphafi: 1517301

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 582
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Rafmagn
  • Skýjahöllin
  • stoppistöð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband