Klístrað óhapp og útgöngulagið loks fundið

Á kjörstaðVaknaði fyrir allar aldir í morgun um níuleytið. Nú skyldi gengið til kosninga, ekki þó gengið, heldur farið á hvítri drossíu, Teslu ... Reyndar ekki með riddaranum á hvíta, heldur dásamlegri vinafjölskyldu. Þau komu stundvíslega kl. 10.35 eins og samið hafði verið um, svo ég kaus í fyrsta sinn á ævinni fyrir hádegi. Nýr kjörstaður að þessu sinni, kosið í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Yfirleitt hefur það verið gamli skólinn minn, Brekkubæjarskóli, en síðast reyndar, eða í alþingiskosningunum, var íþróttahúsið hér á hlaði himnaríkis notað.

 

Kjördeild 2 var vingjarnleg - og setti ekki út á að í vegabréfi mínu stóð bara Guðríður Haraldsdóttir, ekki millinafnið Hrefna en svo stutt er síðan ég fékk millinafnið að kjörgögn eru sennilega enn með gamla nafnið mitt, sjúkk. Til öryggis var ég reiðubúin að heimta að tala við kjörstjórn og sýna henni bréfið frá Þjóðskrá um nýja millinafnið. Fagmannlega fólkið sem gætti þess að allt færi rétt fram, leit á ófalsað vegabréf mitt, leit svo upp og horfði á fegurðina sem hafði lítt dvínað frá því vegabréfsmyndin var tekin - en eina „fölsunin“ var að ég hafði skellt farða í andlit mitt - svo ég leit ekki út fyrir að vera deginum eldri en svona 45 ára, fannst mér svipur fólksins segja. Ég var auðvitað búin að ákveða mig og setti X-ið á þann stað sem mér fannst réttur. Ekkert taktískt en ég vona að minn frambjóðandi hljóti góða kosningu sem hann á skilið. Það verður svo sirka óhætt að fara á feisbúkk á þriðjudag, miðvikudag - og þá getum við farið að tala um ketti, kaffi og annað skemmtilegt.

 

Myndin: Það á ekki að bakka á myndum, heldur eins og taka skref áfram, beina sér fram á við, ekki aftur á bak, sagði eitt sinn klár atvinnuljósmyndari sem var að mynda viðmælanda minn (Katrínu Fjeldsted lækni) fyrir nokkrum árum. Þessi mynd er framávið-mynd - sem var betri en þær fyrri og þarna var ég að reyna að stilla mig um að hlaupa ekki til sætu hundanna hægra megin, uppstillt eins og fyrirsæta. Samt í fk. Cartman-jakkanum sem er 10-15 cm of stuttur ... 

 

Bakarí„Ættum við ekki að kíkja í Kallabakarí og halda aðeins upp á þetta,“ spurði vinkona mín, maður hennar og sonur kinkuðu kolli og ég auðvitað líka. Hafði lagt svo mikið upp úr fegurðinni að ég borðaði bara mína súrmjólk, kornfleks og púðursykur, og gleymdi kaffibollanum. Lagði þó bara í kakóbolla í bakarínu þótt kaffið þar sé ekkert vont. Það átti eftir að reynast örlagaríkt. Ég er ekki vön því að hella niður eða detta og fá á mig gat (á 40 ára fresti) og slíkt, en á meðan við vorum að tala um hótelið sem kemur kannski við hliðina á himnaríki, og ég var að tala um andstöðu margra Skagamanna við það, þegar ég rak mig í kakóbollann sem skvettist yfir mig, töskuna mína í stæinu við hliðina og bjó til stóran kakópoll á gólfið. Kaffi hefði aldrei gert þetta óhapp svona klístrað því ég nota aldrei sykur eða bragðsíróp ... en elskuleg stúlka kom og bjargaði mér, þreif allt mjög vel. Við drifum okkur út áður en hún skellti mér í bað ... „Þetta gerði einhver hóteldraugur,“ sagði ég spámannslega, „þetta var fyrir því að annaðhvort komi hótel þarna eða ekki,“ bætti ég greindarlega við.

- - - - - - - - 

Facebook er full af kosningaáróðri núna en Halldór fjandi skrifaði áðan: „Ætli fólk sem skrifar kostningar stundi samtfarir?“

 

Ég kveð frábæra forsetann okkar, Guðna Th., með miklu þakklæti (hann dýrkar og dáir Skálmöld) og óska nýjum forseta alls hins besta frá og með morgundeginum. 

- - - - - - - 

Eftir að hafa sest á rökstóla, aðallega með sjálfri mér, ákvað ég að halda áfram að reyna að selja himnaríki og sóttist eftir aðstoð fasteignasala úr bænum sem þarf þá að finna íbúð við hæfi handa mér í staðinn. Hún ætlar að kíkja á mig í næstu viku og henni finnst himnaríki gjörsamlega geggjað! Ekkert rosalegar kröfur sem ég geri um nýtt himnaríki í bænum, ég vil vera þar sem er líf og fjör, góð en "ódýr" íbúð, stutt í allt og sem minnst af gróðri í kring. Við erum nokkur sem teljum lífshamingju okkar ekki ógnað með steinsteypu.

 

Einstaklega falleg tónlist hljómar undir auglýsingu frá RÚV um menningarþátt ... og ég hef ekki munað eftir eða kannski ekki kunnað við að opinbera vanþekkingu mína en lengi langað til að vita hvaða tónlist þetta er. Var í tónlistarskóla í þrjú ár, þá sjö, átta og níu ára, og ætti að vita eitthvað. Lærði t.d. að það ætti að bera Chopin fram sem Sjópeng, ekki Tjópin, eins og einn lesarinn hjá Storytel gerir. Fannst aðeins of langt gengið að hringja í RÚV og spyrja, gerði það nú samt einu sinni fyrir langalöngu, upp úr tvítugu, minnir mig, og með góðum árangri, þá var það Ófullgerða sinfónían (nr. 8) eftir Schubert, og keypti mér plötuna í kjölfarið. Nú er ég minni óhemja og vonaði bara að þessa tónlist ræki á fjörur mínar einhvern daginn. Ég var búin að vígbúast með appi í símann minn, appi sem ber kennsl á alla tónlist, þarf ekki að heyra nema smáhluta úr lagi. Svo var ég að hlusta á Krýningarmessu Mozarts, eins og maður gerir annað slagið, og leyfði svo YouTube-veitunni að velja eitthvað svipað þegar henni var lokið ... og þannig fann ég þessa dýrð. Myndbandið er mjög áhrifamikið líka. Spurning um að biðja ættingja mína um að hafa þetta frekar útgöngulagið í útför minni, í staðinn fyrir Hel með Skálmöld, eins og ég var búin að fá samþykkt. Spila Hel frekar í erfidrykkjunni ... 

 

Þetta er verk eftir Christopher Tin (f. 1976) og heitir Sogno di Volari (The Dream of Flight). Ég læt lagið fylgja með til að þíð fáið notið, elsku bloggvinir, þið sem ekki hafið nú þegar uppgötvað þessa snilld. Þetta hristir upp og hrærir í tilfinningum. Nú langar mig í kór aftur og fá að syngja þetta og fleira eftir þetta stórkostlega tónskáld. Um leið og ég hætti að reykja varð röddin svo miklu hreinni.

 


Einnar konu kosningavaka - kókosbollur og allt

FrambjóðendurÞátturinn með efstu 6 er búinn, sá síðasti fyrir kosningar og sá fyrsti sem ég hef séð. Ég nenni nánast ekki lengur inn á Facebook vegna leiðinda þar. Vá, hvað ég er fegin að þessu er að ljúka. Seinni þátturinn með hinum sexmenningunum hófst með látum, veit ekki hvort Ástþór hefði getað stillt sig um ólæti ef þau hefðu verið öll 12 saman. Annars er ég sammála honum, við eigum að vera hlutlaus þjóð - sem er kannski flókið fyrst við erum í NATO ... Viktor er sniðugur - á köflum, en hann snýr of mikið út úr og er með stæla ... dáðist að spyrlunum að láta sem ekkert væri. Seinni þátturinn var talsvert fjörugri en sá fyrri, þó gaman að hlusta á þau öll.

 

Ég er búin að redda mér fari á kjörstað á morgun. Hásinin enn stokkbólgin þrátt fyrir góða og planaða hvíld undanfarið, engar skrefatalningar. Frekar stutt að ganga þessa leið í Fjölbrautaskólann en til hvers að leggja á sig sársaukafullt ferðalag fótgangandi þegar maður getur fengið FAR MEÐ TESLU! Til öryggis hef ég gætt þess að gefa ekki upp hvern ég kýs (með hjartanu - ekki taktískt) til að styggja ekki farið mitt ... sem væri samt alveg nákvæmlega sama, er ég viss um, kýs mögulega það sama og ég. Svo annað kvöld verð ég með einnar konu kosningavöku. Búin að kaupa kókosbollur og allt. Lenti í því að klára rommkúlupokann í algjöru ógáti yfir kosningaþættinum á RÚV.

 

Rammstolin mynd af frambjóðendum, henni var meira að segja nappað frá leikskóla ...    

 

Að bjarga sérBakaraofninn er enn skellóttur en virkar fínt, þorði að prófa í kvöld, ætla að fá fagmanneskju til að aðstoða mig við að þrífa hann - ef hægt er. Ég eldaði frekar vondan mat í kvöld, kjötbollur frá ER sem ég keypti í Hagkaup um daginn, og var svo upptekin eða utan við mig eitthvað að sósan klúðraðist. Maturinn í gærkvöldi var miklu betri. Tók þrjár sneiðar af hrökkbrauði, setti góða pestóið ofan á, rifinn ost, tómata (fyrirgefðu, Hilda) og ferskan mozzarella-ost, síðan rifinn aftur og smávegis pipar ofan á og hitaði, síðan pínku pestó. Gjörsamlega dýrlegt.

Leksands surdeig-hrökkbrauð er algjör snilld í pítsugerð. Hægt að raða því í hring og þarf ekki að skera ... Þrjár voru meira en nóg í kvöldmat. Holl drög að pítsum, myndi ég segja OG rosalega gott. Þetta pestó (sést á myndinni til vinstri, líka hrökkbrauðið) frá Önnu Mörtu er engu líkt. Maturinn hét: Að bjarga sér (með ónýtan ofn, sem var svo ekki ónýtur).

Gömul æskuvinkona af Skaganum skildi eftir ofnahreinsi við dyrnar hjá mér í morgun, einhver misskilningur en örugglega vel meint og algjör óþarfi ... ég á mjög góðan ofnahreinsi sem ég keypti í Omnis og hefði betur notað hann en þetta glæra stórhættulega gums sem er sennilega ætlað fyrir iðnaðarofna. Takk samt, kærlega. Fallega hugsað en harðbannað að mæta með meira handa mér. Ég er gjörsamlega að kafna í dóti.

 

Þarf að semja við einhvern sem á kerru að fara ferð upp á hauga eftir helgi. Vantar að losna við skjöktandi kringlótta borðið sem ég hef átt í áratugi, hægt að setja það í Búkollugáminn en ég efast samt um að þau nenni að bjóða upp á svona dót sem þarf virkilega að dedúa við. Ég má eiginlega ekkert vera að þessu kosningavökudæmi fyrir grisjunarþörf sem er að hellast yfir mig. Svo á ein systir mín afmæli á sunnudaginn og það væri gaman að kíkja ... en það er ekkert til sem heitir að kíkja þegar maður er háður eigi svo tíðum strætóferðum. Ég reiknaði einu sinni út að það tæki mig sex og hálfan tíma að skreppa í brjóstaskimun í Reykjavík eftir að Krabbameinsfélagið hætti að nenna að skima á Skaganum og heilsugæslan í bænum hélt sig við þá aumu ákvörðun. Væri snjallt hjá bæjarstjórninni að beita þrýstingi til að fá þetta aftur - og þá miklu meiri mætingu í kjölfarið. Fékk einmitt greiðslubeiðni í heimabankann frá Krabbameinsfélaginu í dag og eyddi henni, að vanda. Allt í lagi að vera langrækin þegar kemur að einhverju svona.   

 

Kláraði Stephen King-bókina í dag, já, rólegur dagur og eina sem rauf spennuna þarna í bókarlok var koma Einarsbúðar með vörur, skyr, kókosbollur og slíkt. Nenni ég að horfa á Villibráð? Nei, ekkert fyrir fyllirís-, leyndarmála- og trúnó-myndir (hún mallar undir bloggskrifum), verð að fara snemma að sofa, kjörstaðarskutlaragengi mitt kemur fyrir allar aldir, eða kl. 10.30! Ég hef aldrei í lífinu kosið fyrir hádegi áður. Hef reynt að sofa lengi til að geta vakað fram á nótt en ég held ég láti bara tíufréttir á sunnudagsmorgun segja mér allt af létta. Nema auðvitað verði rímur og glíma, hagyrðingar hittast-innskot í kosningasjónvarpinu, jafnvel Sirkus Billy Smart ...    


Bloggfærslur 1. júní 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 9
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 705
  • Frá upphafi: 1517285

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 571
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Rafmagn
  • Skýjahöllin
  • stoppistöð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband