Æsandi ofsóknir, ný samsæri og fyndnar fornminjar

Daginn fyrir góðviðriðGlæsilegt útlitið lifði ekki af hárþvott og sofna með hárið rakt. Strípurnar halda sér nú samt, en ekki mikið meira en það. Ég er orðin ansi hreint krullhærð sem er bara allt í lagi, held ég. Reyndar var ég rosafín og alveg krullulaus þarna á klippingardaginn sjálfan, á gangi út úr verslunarmiðstöðinni í útjaðri Akraness þegar ungir strákar með tombólu vöktu athygli okkar vinkvennanna. Þarna mátti sjá barnabækur, tölvuleiki og eitthvað sem fínar dömur, lausar við söfnunaráráttu hefðu seint fyrirgefið sér fyrir að kaupa.

Hva, eigið þið ekki barnabörn?“ spurði annar þeirra sölumannslega en gjörsamlega laus við þá snilldarframkomu sem t.d. sölumenn trygginga og notaðra bíla, jafnvel íbúða, hafa tileinkað sér. Slíkir sölumenn hefðu spurt hvort við ættum ekki börn - eða hefðum jafnvel sjálfar aldur í svona barnadót. En það er erfitt að blekkja saklaus börn sem gætu átt mjög svo skvísulegar ömmur, við urðum ekki einu sinni móðgaðar og þótt við værum vissulega komnar á ömmualdur (minni á að það eru til tæplega fertugar ömmur), með engin barnabörn í grennd, nema kannski stolin. Við drekktum sorgum okkar í búðarápi (alveg tvær búðir), eins og fram hefur komið.

 

Myndin er af Kela að gá til veðurs fyrr í dag. Okkur hefur borist njósn af því að hryllingshiti muni ríkja um allt land á morgun. Umfangsmikla grasrækt mína má sjá vinstra megin, inni, ég á ekkert í þessari úti við Nýju blokkina. 

 

50 gráir skuggarÞað er eins gott að vera ekki lengur í barneign ... segi nú svona, því upp á síðkastið hef ég lesið nokkrar girnilegar ástarsögur sem allar fara samt út í harða erótík og gætu æst upp köldustu styttur bæjarins. Held að ástarsögur séu að breytast, fara í þessa átt, því ég gat áður hlustað á allar slíkar sögur yfir eldamennsku eða tiltekt þótt stráksi væri allt um kring. Við gátum samt flissað saman yfir rómantískum kossum, hann harðbannaði mér oft í kjölfarið að finna mér kærasta. Ef heyrnartólið dytti nú úr sambandi í æsilegustu senunum sem er vissulega vandræðalegt að hlusta á í strætó, svona á milli saklauss söguþráðar, oft spennandi, yrði ég handtekin, eða gerð útlæg frá Akranesi. Ég kalla sannarlega ekki allt ömmu mína (eins og sumir strákar með tombólu) en ég óttast í sífellu að einhver heyri hvað um er að vera í bókunum sem ég er hlusta á. Ég hef verið að hvíla mig aðeins frá hræðilegum glæpasögum en er að verða tilbúin í blóðbaðið aftur.

Það væri alveg hægt að skrifa djarfar "ástarsögur" um þessi alveg eðlilegu samskipti fólks, á miklu penni hátt svo ég gæti hlustað róleg á hárgreiðslustofunni eða strætó án ótta við að taka óvart úr sambandi heyrnartólin þannig að allt heyrist. Hvað varð um blaktandi gluggatjöld? (Það heyrast vissulega þungar stunur í mér annað slagið núna, þegar England (held með þeim) skýtur á markið en skorar ekki ... Blogga til að lifa leikinn af ... Áfram England samt! Silfur er betra en gull! 

 

Held að þetta hafi allt byrjað með Fimmtíu gráum skuggum, bókunum sem seldust í bílförmum ... ég las þær (stundum í strætó á leið heim úr vinnu, til að fjalla um þær) en man ekki eftir neinu nema því að höfundurinn gladdist mjög yfir metsölunni og gat fengið sér nýja eldhúsinnréttingu. Ég öfundaði hana af því en það liðu samt ekkert svakalega mörg ár þar til ég gat sjálf endurnýjað eigið eldhúsið, án þess að hafa þurft að skrifa dónalegar bækur. 

 

Ég kláraði eina ástar um helgina, í öllum rólegheitunum sem hafa ríkt hér í himnaríki, dúndrandi deyfð vegna dimmu? Vissulega var hellingsmikið kynlíf inn á milli misskilnings og ósagðra orða (alltaf) í bókinni en það sem stakk mig þó mest var þegar rafmagnið fór af húsinu í miklu fárviðri, konan hljóp út til að dvelja frekar í húsi kærastans sem var fjarverandi, og byrjaði á því að kveikja á kaffivélinni til að hressa sig á kaffi. Fór þá rafmagnið bara af húsinu hennar? Svona ofsjáelsi er auðvitað fúlt í skemmtilestri en getur komið sér vel í vinnunni. Svo var annað sem mér fannst svolítið skrítið ... söguhetjan sá glitta í eitthvað á bak við gamlan spegil - það reyndist vera rosalega gömul mynd ... eða fornminjar frá árinu 1991!

 

Donald-TrumpNú eru komnar nokkrar samsæriskenningar um skotárásina á Trump í gær. Ömurlegt auðvitað, svona á ekki að geta gerst. Bandarískri fb-vinkonu minni var mjög brugðið og ásakaði leyniþjónustuna um tilræðið en hún var búin að fjarlægja þau ummæli í morgun. Ég vona nú samt að þetta verði ekki til þess að Trump verði forseti ... líst heldur ekkert voða vel á hinn. Bernie Sanders hefði orðið svo flottur þarna um árið. 

Fólk segir:

- Það var venjulegur demókrati sem gerði þetta, heilaþveginn af CNN-sjónvarpsstöðinni.

- Trump setti þetta sá svið til að ná örugglega sigri. 

- Þetta var CIA, ekki spurning, þau drápu svo "morðingjann" sem þeir höfðu ráðið í verkið. 

- Biden á pottþétt sök á þessu, orðinn svo hræddur við að tapa.

 

Ég er viss um að mun flottari kenningar hafi sést þarna úti, ég kann bara ekki að leita eða veit ekki hvað réttu síðurnar heita þar sem svona lagað grasserar. Greip bara eitthvað upp af Facebook í dag. 


Bloggfærslur 14. júlí 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 83
  • Sl. viku: 696
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 563
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Rafmagn
  • Skýjahöllin
  • stoppistöð

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband