Helgarævintýri í borginni og nýtt nafn óskast

Rostik kisuguðHelgarferðin mikla yfirstaðin en mikið (brjálað) var að gera í samkvæmislífinu, fyrir utan sitt af hverju sem fasteignamógúlar þurfa að standa í. Úkraínski kattahvíslarinn hélt köttum himnaríkis selskap svo þeir rétt litu upp úr fegurðarblundi síðdegisins í dag, til að sýna „hún komin“-augnaráðið, áður en þeir steinsofnuðu aftur.

 

Hér var vaknað fyrir allar aldir á föstudaginn til að ná strætó í bæinn, síðan skrifað undir samþykki þess að lánið mitt flytjist á nýju íbúðina. Enn var ég fasteignamógúll á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi ... en upp úr klukkan þrjú var enn skrifað undir skjöl svo nú á ég bara eina íbúð. Ég er virkilega þakklát öllum þeim fasteignasölum og lögmönnum sem hafa komið að þessu. Daníel í Hákoti sem hóf ævintýrið ... Erlu Dröfn hjá Lind, Kristjáni hjá Gimli og gef þeim öllum mín allra bestu meðmæli fyrir fagmennsku og vingjarnlegheit. Það er virkilega stór ákvörðun að flytja búferlum eftir hátt í 20 ár og yfirgefa yndislegt samfélag sem Akranes er - en að sjálfsögðu mun ég viðhalda fullu stjórnmálasambandi við Skagann minn góða.

 

Myndin er af Rostyk kisuguði og var tekin ekki löngu eftir að þau mæðgin fluttu í himnaríkishúsið. Þarna sést hversu dáður og dýrkaður drengurinn var (og er). 

 

Brúðkaup mánaðarins

Aukapláss fyrir fæturBrúðkaupið á Siglufirði í ágúst sl. var stórkostlegt og líka brúðkaup septembermánaðar sem var haldið í gær. Brúðhjónin voru gefin saman við skemmtilega athöfn í frekar stórri kirkju á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu. Við borguðum fyrir aukapláss fyrir fæturna eins og sést á myndinni. Við fengum mögulega fjórfalt pláss á við aðra kirkjugesti. Mættu ýmis flugfélög taka sumar kirkjur sér til fyrirmyndar. Ég kannaðist strax við einn gestinn; stjörnulögmann sem deilir afmælisdegi með okkur Ásdísi Rán og Halldóru Geirharðsdóttur og það gaf aldeilis tóninn fyrir veisluna sem haldin var á Grand-hóteli við Sigtún. Í sama flotta salnum og brúðkaup ungu konunnar sem hefur skipulagt líf mitt á mikilvægum stundum (háskólanám 1998, íbúðaleit 2024, kannski eiginmannsleit 2025?). Þvílík fagmennska hjá starfsfólki hótelsins, hviss bang, forréttur á öll borð (ekki hlaðborð), aðalréttur og svo eftirréttur (hnetulaus). Svo var sérlega vel valið saman fólk á hvert borð. Ég fékk sjúkraþjálfara og fiðluleikara í Sinfó mér á vinstri hönd, mikið kórfólk líka, og svo systur og frænku (ömmu brúðarinnar) hægra megin, foreldra móður brúðarinnar á móti ... og þetta var víst fjörugasta og fallegasta borðið. Sú sem sat við hlið mér til vinstri var ákaflega skemmtileg og hafði eitt sinn komið í útvarpsviðtal til mín á síðustu öld vegna tónleika hjá Mótettukórnum og einhvern veginn barst svo í tal að ég byggi við sjávarsíðuna á Akranesi en væri að flytja þaðan. Í ljós kom að sonur hennar býr í sömu blokk og ég, er einn þeirra sem hefur þurft að þola heilu þungarokkstónleikana af efstu hæð án þess að kvarta. Heimurinn er svo lítill.  

 

Ég játa á mig heigulsskap og þorði ekki að smakka kaffið í veislunni. Fannst eiginlega ósmekklegt af mér að bíða eftir að liði yfir fólk af hryllingi yfir vondu kaffi svo ég horfði bara stjörf fram fyrir mig á meðan sumir fengu sér kaffi. Ótrúlegt hvað lítið er hugsað út í val á kaffi, svona almennt, og furðulegt að vilja ekki hafa kaffið fullkomið eins og allt hitt. Kannski var hið fullkomna kaffi á boðstólum á Grand hótel, það væri þá bara gott á mig að hafa ekki einu sinni lagt í að smakka en reynsla mín er frekar slæm af hótelkaffi. Maturinn var verulega góður.

 

 

HnetusmjörSitt af hverju stórmerkilegt kom fram í ræðum ... þarna voru víst alla vega tveir dómarar og fullt af löggum (brúðguminn lögga).

Okkur gestunum var ráðlagt að reyna að koma okkur vel við þetta lið, löggur og dómara, og ég lét ekki segja mér það tvisvar þótt ég vissi ekkert hvernig þeir litu út. Mér gekk nú samt mjög vel að vefja löggum um fingur mér (til að sleppa við hraðasektir) en til öryggis bræddi ég dómarana algjörlega, svo ef löggan klikkaði myndi dómstóllinn sjá um að  hlífa mér. En svo mundi ég eftir því að ég á ekki bíl og get því ekki ekið of hratt! Skrambans!

 

 

Fyndnustu og skemmtilegustu ókunnu mennirnir þarna voru þó slökkviliðsmaður og golfari, fyrstu tveir mennirnir sem ég sveif á þegar ég leitaði að löggum og dómurum. Þetta var stórkostlega dásamlega skemmtileg veisla og hver einasti gestur sem ég talaði við var ferlega skemmtilegur. Nú bíð ég spennt eftir að mér verði boðið í brúðkaup í október.  

 

Sverrir Bergmann kom, sá og sigraði, söng nokkur rómantísk og falleg lög við undirleik eins fallegasta gítarleikara landsins. Svo tók plötusnúður við. Við systur sátum frammi og spjölluðum við skemmtilegt frændfólk, farnar að huga að heimferð, þegar ég heyrði að tónlistin var orðin fáránlega skemmtileg. Og allt brjálað á dansgólfinu (ég dansa bara við lagið Luftgitar svo ég hélt mér til hlés). Haldið að einhver dýrðin og dásemdin (eiginmaðurinn?) hafi ekki komið brúðinni algjörlega á óvart og fengið Herra Hnetusmjör í veisluna. Hann fór á kostum. Vér systur stóðum til hliðar við sviðið þegar hann var búinn, hann rak augun í systur mína og réðst á hana með miklu knúsi. Hún rak sumarbúðir í denn og hann kom nokkrum sinnum þangað á barnsaldri. Ekki svo auðvelt að gleyma sumarbúðastjóranum sínum. Svo fékk ég, sem hef þekkt konuna hans frá fæðingu (hennar) og unnið með pabba hans, líka þétt faðmlag svo það verður víst ekkert farið í bað á næstunni.

 

Tunglið og taxiSvo gerðist undarlegur atburður. Upp úr kl. 22 hringdum við á leigubíl. Í kjölfarið hófst nokkur bið. Ég fór nokkrum sinnum út: „Guðríður?“ spurði ég tvívegis án þess að bílstjórarnir könnuðust við pöntun mína, en sá þriðji sagði: „Já, einmitt, Gurrí,“ eða það heyrðist okkur. Eftir að við vorum sestar inn sagði systir mín heimilisfangið í Kópavogi og bílstjórinn bætti við: „... og Akranes á eftir?“ Þetta var orðið mjög grunsamlegt og spúkí. Svo sneri hann andlitinu ögn til hliðar svo ég sá hann og þekkti: „Aha, er þetta kannski litla sæta krúttið mitt?“

Rígfullorðinn bílstjórinn kinkaði kolli ... Þegar ég var unglingur, nýflutt í borgina, passaði ég stundum á Njálsgötunni eitt fallegasta ungbarn í heimi, sem óx úr grasi og varð að fallegum leigubílstjóra sem ég var svo heppin að lenda á í gærkvöldi. Jú, jú, við erum vissulega feisbúkkvinir sem auðveldaði mér að þekkja hann aftur, og svo var hann í vinnu í Kattholti þegar ég fór í opinbera heimsókn þangað sem blaðamaður fyrir eflaust 20 árum. Frábær endir á góðu kvöldi að hitta elsku Danna.

 

Mynd: Ég reyndi að ná mynd af tunglinu sem blasti við á heimleiðinni úr leigubílnum ... það var risastórt og flott en neitaði að sýna sig almennilega á mynd. Það er fyrir miðri mynd, hvítt ... en virðist ekki vera kringlótt ...

 

Dagurinn í dag innihélt líka veislu ... en samkvæmislífið í höfuðborginni er orðið fullfjörugt fyrir utanbæjartúttuna sem ákvað þess vegna að flytja í bæinn til að auðvelda djammið. Það var sem sagt haldið fjörugt og skemmtilegt 12 ára afmælispartí í dag heima hjá góðri frænku sem svo heppilega fyrir mig á tengdaforeldra frá Akureyri sem akkúrat voru á heimleið eftir veisluna og lögðu lykkju á leið sína til að koma mér upp á Skaga. Ég var búin að ráðleggja þeim að fleygja mér út á ferð til að hjólkoppunum yrði ekki stolið en Akureyringar eru öllu vanir af utanbæjarfólki, eins og við Skagamenn, og stöðvuðu bílinn fyrir utan himnaríki án þess að blikna.

 

 

Dásamleg helgi, kvefið næstum alveg búið, þriðja og síðasta verkefnið líka, sem verður klárað áður en ég dett í niðurpökkunargírinn. Það tekur ekki mjög langan tíma að pakka eftir að ég hef flokkað, gefið og hent. Þrjár vikur til stefnu ... og ég auglýsi enn og aftur eftir nýju nafni á þetta blogg. Að vísu verð ég enn hærra uppi en hér í himnaríki ... en nafnið Sögur úr himnaríki tengist eiginlega bara íbúðinni hér við hafið, finnst mér. Það væri mjög gaman að fá tillögur af nýju nafni. Kleppur-hraðferð kemur ekki til greina þótt íbúðin sé við Kleppsveg, ég sé tryggur strætófarþegi (gömul strætóleið bar þetta nafn) og mamma hafi unnið á Kleppi sem hjúkka árum saman. Takk samt fyrir þá tillögu, ónefndur ættingi.


Bloggfærslur 15. september 2024

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 22
  • Sl. sólarhring: 511
  • Sl. viku: 1837
  • Frá upphafi: 1493241

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1491
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Mia_litla
  • Eftirlaunaaldurinn
  • Hirðrafvirkinn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband