Borðvél, kveðjuhófin og mögulegt skrímsli ...

BorðuppþvottavélÁhyggjur sumra af uppþvottavélarleysi mínu í nýja húsinu (Í efra, eða sem Vogadíva í skýjahöll, Sögur af sjöttu hæð ... og fleira gott) eru miklar á meðan öðrum er alveg sama. Mér þykir vænt um þessar áhyggjur þriggja vina en ríflega helmingurinn hefur mælt með lítilli vél sem hægt er að hafa uppi á borði og fylla með fimm lítrum af vatni í hvert skipti eða láta tengja við kranann. Tæplega helmingurinn leggur til pípara og smið sem er talsvert flóknara og dýrara.

 

Ég fékk gesti í gær, nokkrar konur á leið í sumarbústað í Borgarfirði og þurfti að taka út úr uppþvottavélinni skolaða bolla sem biðu þvottar, og tókst bara nokkuð vel til við að þvo þá upp úr sápu og sjóðandi vatni í vaskinum, svei mér þá ... Sko, ég veit um konu sem hvatti vinkonu sína mikið til að koma til sín í kaffi og fór svo að rukka hana um að borga í kaffinu - en ég hef aldrei heyrt um konu sem hvetur vini og vandamenn til að koma í kaffi til sín og segir svo öllum að þvo upp eftir sig. Maður gerir ekki slíkt ... en ég á fína gúmmíhanska, bursta og hendur, svo hafið engar áhyggjur. Kannski kaupi ég borðuppþvottavél, kannski venjulega ... kannski næ ég mér í karl. Þeir geta verið mjög gagnlegir, þessar elskur.

 

Hádegisverður með Helgu og InguTvær frábærar kveðjuveislur voru haldnar á Galito í gær og fyrradag. Í fyrradag með miklum uppáhaldskonum, Helgu og Ingu.

 

Það gerðist svolítið átakanlegur atburður þarna, eiginlega óskiljanlegur. Það koma vanalega stórir hópar af sérlega flottum körlum úr hinum ýmsu starfstéttum og borða þarna í hádeginu. Einn afar sætur var langsamlega seinastur að koma sér í mat og það var ekki pláss fyrir hann við borðið hjá samstarfsmönnum hans. Í stað þess að vísa honum hreinlega til sætis hjá okkur Ingu og Helgu, það var sorglega áberandi lausi stóllinn við fjögurra manna hringborðið hjá okkur og nánast ekkert laust í salnum, var hann látinn setjast aleinn við borð! Mér sýndist hann horfa hryggur yfir á lausa stólinn hjá okkur, annað slagið. Ég fékk ekkert sérlega skýr svör þegar ég bað um að þetta gerðist ekki aftur, heldur sagði þjónninn að það væri nú biðlisti eftir því að fá sæta menn við borðið hjá sér! Furðulegt alveg ... en þorskurinn var góður, virkilega góður. Takk fyrir mig, elsku Helga mín Olivers. Hún tók myndina af okkur Ingu. 

 

Galito í gærGærkvöldið var svo notað til að fara út að borða á Galito. Í þetta sinn með hjartkærum úkraínskum kattahvíslurum himnaríkis, Svitlönu og Rostyk (kattaguði) og svo auðvitað stráksa. Geggjað sushi á mínum diski, glaðasti þjónn í heimi fékk áfall því ég fæ mér alltaf þorskinn ... (eins gott að hann vissi ekki hvað ég fékk í hádeginu daginn áður), sá yngsti fékk pítsu en stráksi og Svitlana steikarsamlokuna góðu ... með salati í stað franskra. Nokkur ár síðan við stráksi áttuðum okkur á því hvað það var miklu betra að hafa salat en franskar. Svitlana ætlar aldeilis að hjálpa mér við flutningana og það munar um það.

 

Önnur sýrlenska fjölskyldan mín kom svo í hádeginu í dag á bíl og aðstoðaði mig við að fara með nokkra kassa í Búkollu ... meðal annars lítið sjónvarp (stráksi notaði það með PS5) og ágæta brauðrist sem ég notaði í síðasta sinn í morgun til að rista tvær frosnar vöfflur (verkefnið: klára úr frystinum) til morgunverðar (ég smurði með hvítu súkkulaðimauki, hnetu- og sykurlausu, guð, það er svo gott, frá Good Good og sneiddi banana ofan á ... Ég kaupi eiginlega aldrei brauð svo brauðristin er hreinlega ónotuð, vona að einhver geti nýtt sér hana, hún er í fínu lagi. Þarna voru líka nokkur gömul og góð kökuform, það nægir að eiga tvö fyrir bananabrauð, óþarfi að eiga fimm ... Svo fórum við með eitthvað smávegis í Frískápinn góða á móti Búkollu sem er svo frábær hugmynd, kemur í veg fyrir matarsóun. Ég hef verið sérlega ánægð með að geta gefið svöngum fuglum (mávum ofl. á sumrin, krummum ofl. á veturna) mat hérna við sjávarsíðuna. Held að við Inga séum nánast þær einu - hitt fólkið fer þá vonandi í Frískápinn með matvöru.

 

KommóðanEn að hugsa sér ... þegar ég fer fyrir alvöru að pakka niður, þarf ég engu að velta fyrir mér, get pakkað öllu niður umhugsunarlaust því ég er búin að fara yfir allt (eða flest).

 

Við fengum dásamlegar móttökur í Búkollu en ég hætti mér ekki alla leiðina þangað inn ... gerði tilraun til að láta setja bann á mig þar svo ég fái ekki að kaupa neitt (gamlar bækur, slef), en fékk bara svarið: „Kannski vantar þig eitthvað til að flytja með þér!“ Sjúr, einmitt ... ef ég sé það ekki, kaupi ég það ekki, eins og með sælgæti, ef það er ekki til í himnaríki þá borða ég það ekki ... en því miður skildu konurnar sem heimsóttu mig í gær HEIL TVÖ APPELSÍNUSÚKKULAÐISTYKKI eftir ... og ég er búin með hálft. Við erum að tala um 200 grömm, núna 150 ... Ávaxtadeildin samt alltaf góð. Bananabombur líka góðar.

 

Þessi kommóða sem stráksi þurfti ekki að taka með sér, sjónvarpið var ofan á henni og alls konar dót í skúffunum, virðist ætla að verða skrímslið í himnaríki ... það þarf tvo karlmenn til að bera hana niður ... svo er ég með tvær fínar bókahillur. Systir mín var að ráðleggja mér að auglýsa þetta á síðunni Brask og brall, sumir ættu kerru og myndu eflaust koma brunandi úr bænum eða Borgarnesi eftir góssinu ... mér þykir hún bjartsýn ... en sakar ekki að prófa.

 

Fræga fólkiðEina manneskjan sem svaraði kommóðuauglýsingunni sagðist ætla að leita að einhverjum til að aðstoða sig við að sækja hana en svo hef ég ekkert meira heyrt. Ég ætti kannski að finna fleira girnilegt til að gefa og láta það fylgja kommóðunni? Óopnuð Kalúha-bokka (á óræðum aldri samt) ... ég kann ekki listina við þetta en systir mín selur/gefur nánast hvað sem er í gegnum Brask og brall, segir hún.

 

 

Ég er líka með fullt af MJÖG girnilegum DVD-myndum til að gefa: Stella í orlofi, Kill Bill, ein Harry Potter-mynd, Mission Impossible, Paycheck, Eragon, Die Hard 4 ... svo fátt eitt sé talið, og eitthvað af hljóðbókum á CD ... Hausaveiðararnir eftir Nesbö (ein hans allra mest spennandi bók (bíómynd gerð líka) en ekki um Harry Hole), Hvernig ég kynntist fiskunum, Dalalíf ... Þetta var allt til hérna og ég samt ekki farin að hlusta á bækur þá, og núna nánast löngu hætt að horfa á sjónvarp.

 

Talandi um alls konar sellebrittís: ætla samt að horfa á Gísla Martein á eftir, þátt gærkvöldsins. Ánægð með tæknina. Er nefnilega enn í algjöru losti eftir að hafa misst af lokaþættinum af Löðri (Soap) 1982 af því að ég kunni ekki að segja nei á þeim tíma ... fór annað þótt mig langaði ekki, myndbandstæknin enn mjög ný og aðeins á færi þeirra efnameiri að eignast slíkt tæki, mér tókst það nú samt sjö árum síðar með vísa-rað. Ef einhver brask- og brallari tekur þetta ekki með kommóðunni athuga ég að fara með til Búkollu eftir viku. Þetta gætu verið bíómyndir sem sonur minn átti, og hljóðbækur sem ég fékk gefins fyrir löngu og beið of lengi með að nenna að hlusta á ... sem ég er afar hrifin af hljóðbókum núna en nota bara Storytel.

 

Jæja, farin að flokka í hirslum meyjarskemmunnar ... tvær kommóður, einn skápur, stór fataskápur ... sjúklega gaman.            


Bloggfærslur 21. september 2024

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 832
  • Frá upphafi: 1515927

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 705
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Mikið labb
  • Draumar úr snjó
  • Engin tilviljun

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband