29.9.2024 | 22:28
Elskulegheit, augnableyta og Titanic-svindlið
Mikið vorkenni ég burðarmönnunum þínum, sagði Inga og horfði á bókakassana sem eru nokkuð fyrirferðarmiklir í litla herberginu.
Þetta er ekkert, svaraði ég, líklega bara fjórðungur af því sem ég átti þegar ég flutti á Skagann.
Þeir grétu nú pínkupons þarna 10. febrúar 2006 yfir að skoppa niður af annarri hæð á Hringbraut með bévítans bókakassana og það eina sem huggaði þá var að um það bil fimm eða sex Fjölbrautaskólastrákar hér á Skaga báru bækurnar upp á fjórðu hæð. Allt í gegnum elsku Kolbein frænda. Ég skulda þeim enn pítsuveislu. Með eðlilegri verðbólgu og vöxtum ætti hún að vera orðin að utanlandsferð fyrir þá núna. Ég minntist nokkrum sinnum á það en það var einhvern veginn aldrei tími hjá strákunum svo það datt upp fyrir en þakklæti mitt er nú samt ómælt. Nú fæ ég minnst fimm sterka karla til að hoppa upp og niður stigana með kassa og mig grunar að þeir þurfi ekki að fara í ræktina í svona þrjá mánuði á eftir.
Langflestar bækur heimilisins fóru sem sagt í kassa í gær. Þetta var ótrúlegur dagur. Ég var vöknuð fyrir allar aldir upp úr níu þegar Ólöf, gamla góða samstarfskonan síðan á síðustu öld og bjargaði mér þegar ég smitaðist ekki af Covid í ræktinni en þurfti samt að fara í bæinn ... mátti ekki fá far og mátti ekki taka strætó en átti samt að mæta til Reykjavíkur. Með þetta fína sjúkrahús á Akranesi sem mátti þó ekki sjá um okkur. Jæja, hún var með hugsanlega smitaða unglingsdóttur sem átti að mæta líka í sýnatöku þennan dag, svo hún skutlaðist úr Mosó upp á Skaga, fór með mig á sýnatökustað, beið og skutlaði mér svo heim. Þess ber að geta að við höfðum ekki sést og heyrst í ansi mörg ár. Hún fór svo með dótturina seinnipartinn. Þetta var svo fúlt ástand að ef dóttirin hefði greinst jákvæð hefði það þýtt allt upp á nýtt fyrir mig, og öfugt. En hvorug okkar þurfti að súpa seyðið af gjörðum okkar. Sem sagt, Ólöf spurði hvort mig vantaði eitthvað og ég sagði að litlir kassar væru eina ögrunin - það var eins og við manninn mælt, að um leið og kötturinn hennar var búinn með fegurðarblundinn ofan á bringunni á henni, dreif hún sig af stað og færði mér nokkra litla kassa, ásamt því að setja saman nokkra afar flókna kassa af stærri gerðinni (ekki úr IKEA þó). Dásamleg!
Myndin er af tekkskrifborðinu mínu sem ég ætla að selja mjög ódýrt (10 þús. eða besta boð), fann svipað hjá Kristbjörgu í antíkskúrnum, nema hátt í helmingi minna, sem er æði því ég flyt í minni íbúð og MIKLU minna vinnuherbergi (2,10 x 1,80). Krummi tekur sig aldeilis vel út á myndinni og honum er ætlað að taka athygli frá draslinu ... bara einn sentimetri til hægri i glugganum og þá myndi sjást í pappírsdraslið sem ég ætla að flokka í kvöld.
Síðan komu óvænt skilaboð, systurdóttir og kærasti heimtuðu að fá að koma og pakka niður fyrir mig. Móðir frænkunnar á leiðinni með hunda sína svo senn yrði allt fullt af aðstoð. Inga nýbúin að vera að aðstoða mig, einnig Rahaf mín og svo ætlar Fatima líka eitthvað að koma, báðar úr sýrlensku hjálpardeildinni.
Það kom eitthvað blautt í augun á mér út af allri þessari góðmennsku, óverdós af elskulegheitum, myndu sumir kalla það, en mér þótti þetta þó verulega hallærislegt af mér þar sem ég hef gefið mig út fyrir að vera harðskeyttur ofurtöffari sem grenjaði ekki einu sinni yfir endinum á Titanic-myndinni ... bara pirraðist yfir því hve löng hún var og ég vissi auðvitað alveg að Jack yrði fórnað, þótt hann væri alls ekki útlitsgallaður á nokkurn hátt. (Í Jurassic Park var t.d. öllu þybbnu fólki með gleraugu fórnað, minnir mig).
Augun voru löngu orðin þurr og töff þegar systir mín mætti og síðan dóttir hennar og tengdasonur - það urðu fagnaðarfundir því þetta var víst ekki samsæri. Það er ekki allt samsæri alltaf sko.
Mér finnst ég enn, öllum þessum vikum seinna, vera að flokka og flokka og flokka, gleymdi t.d. skápnum hægra megin í tekkskrifborðinu mínu fagra, búin með skúffurnar vinstra megin, og þar leyndist aldeilis mikið af pappír! Mikið verður tunnan sem tekur pappa og plast ánægð með allt sem hún fær frá mér á morgun. Ég lét pakka niður sjónvarpinu og öllu tilheyrandi sem hjálparhellum fannst frekar skrítið en það er miklu betra að flokka hluti og pakka niður með góða sögu í símanum en eitthvað í sjónvarpinu. Pásur eru illa séðar á þessu heimili.
Fljótlega eftir hádegið á morgun fer ég svo til tannlæknisins og mun þar skilja eftir eitt stykki jaxl sem tannsi vildi endilega fá til minningar um mig fyrir Skagamenn, held ég. Maður verður að skilja eitthvað eftir sig ... Held að ég verði ekki mjög til stórræðanna við heimkomu eftir tanndráttinn - og svo næsta dag er það bara 13.15-strætó í bæinn og fá afhenta lyklana að nýju íbúðinni. Allt að skella á!
Inn á milli þegar ég hef verið ein heima hef ég verið að hlusta á söguna Það sem við komumst ekki yfir ... og sú kom á óvart! Svolítið óforskömmuð bók og ansi fyndin á köflum. Jú, ástarsaga og allt eftir Lucy nokkra Score. Ég sofna oft við upplestur, stilli Storytel kannski á hálftíma eða tímann til að klára kaflann ef hann er sæmilega langur, en hló upphátt tvisvar í gærkvöldi þegar ég átti að vera að koma mér í draumalandið. Var ekki sérlega hrifin allra fyrst en svo náði hún mér. Alveg mátulega rómantísk, ótrúverðug og allt það sem prýðir svona bækur, meira að segja erótík (jibbí) í henni, sem sagt dásamleg í gefa, eiga, henda-starfinu hér. Hún var líka fín við flokkunina bókin Mikaela eftir Önnu Bågstam (lögfræðikrimmi).
Ljósmyndin hér á síðunni sannar að það er lítið að marka bíómyndir. Jack bjargaðist greinilega! Sjúkk, hvað ég var framsýn að hafa ekki grenjað yfir endinum á Titanic.
Var boðið í úkraínska kjötsúpu í dag og sú var góð - kattahvíslarinn minn sem bar ábyrgð á því góða boði tók svo tvo kassa sem eiga að fara í Búkollu, svo ég væli ekki lengur um fráflæðivanda. Vona bara að einhver falli fyrir skrifborðinu. Annars tek ég það bara með í bæinn og held áfram að reyna að koma því út. Ljósakrónurnar fögru og góðu sem hafa prýtt himnaríki eru farnar í antíkskúrinn og fá vonandi ástríkt heimili, en mér sýnist á öllu að á Kleppsvegi sé lítil þörf á að mæta með ljósakrónur. Kemur bara í ljós ... fliss.
Fyrsta og eina óhappið sem hefur orðið hér við þessa flutninga átti sér stað þegar verið var að pakka niður bókum - sem hefur verið tekið í nokkrum hollum síðustu daga. Fokkjústyttan bleika sem ég fékk í jólagjöf eitt árið frá vinkonu, skall í gólfið og langatöng brotnaði af. Brotnaði samt "vel", en viðkomandi "brjótari" tók hana með sér og ætlar að redda sér góðu lími þannig að ekki nokkur leið verði að sjá misfellu. Svo verður mætt í heimsókn og mér færð límd og fullkomin styttan. Aðeins ég, "brjótarinn" og bloggvinir mínir munu vita af þessu óhappi.
Hér á Akranesi hafa jarðskjálftar á Reykjanesskaga varla fundist nema ef þeir eru yfir fjóra að stærð. Í kvöld sá ég að ég er aldeilis á leið í meira fjör ... en íbúi í 104 Reykjavík, bráðum mínu póstnúmeri, fann vel fyrir þessum sem komu í kvöld, eigi svo langt frá Keili, hristist þrátt fyrir að þeir væru "bara" 3,3 og 3,6 sem finnst aldrei hér. Og ég fer á sjöttu hæð sem gerir þetta enn meira spennandi ... Mamma var alltaf mjög jarðskjálftahrædd og nötraði vel á sinni sjöundu hæð í Asparfelli en eftir að hún flutti á Eir fann hún aldrei fyrir neinu.
Veit einhver hvernig hægt er að losna við fastan takka í lyklaborðinu? Einn takkinn festist alltaf, urrr. Það er stafurinn I-i sem er mikið notaður á þessu heimili, og ég er að verða brjáluð! Hann helst niðri og er eiginlega hættur hrökkva upp eftir smástund. Ég get skrifað á sama hraða og venjulega svo það truflar ekki þannig en ... bara að hann sé fastur þarna gengur ekki. Missti dropa af einhvers konar hreinsidæmi, röngu, en hélt að ég hefði náð að þurrka allt upp - greinilega ekki.
- - - - - - - - - - - - - -
Ég hef oft skrifað um slæma sjón ungu útlensku strætóbílstjóranna sem hafa nokkrum sinnum reynt að gefa mér afslátt (vissulega unglinga-, öryrkja- eða elliafslátt en ...).
Myndin er sönnun síðan þetta gerðist í fyrsta skiptið! Sjáið bara þessa átakanlegu mynd sem er skjáskot af Snapchat-færslu minni. Greinilegur skortur á klipp og lit og framköllun í andliti - sem afsakar eitthvað - öskureiðin og beiskjan leka af andlitinu en ... bílstjórinn keyrir enn sem er einungis miskunnsemi minni og skorti á langrækni og hefndarfýsn að þakka.
Árangursríkasta svindl allra tíma?
Flestir (frá USA) sem svöruðu nefndu skipulögð trúarbrögð en tryggingar fylgdu fast á eftir!
- Þegar McDonalds takmarkaði fjölda sósubréfa með borgaranum.
- Skattar og tryggingar.
- Hvernig skattar eru notaðir í öllum löndum, hluti fjárins aldrei notaður fyrir almenning.
- Skipulögð trúarbrögð, hjónabandið fylgir fast á eftir.
- Kreditkort.
- Pólitík.
- Að kántrítónlist sé sögð góð.
- Að konur verði að vera giftar og eiga börn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 29. september 2024
Um bloggið
Sögur úr skýjahöll
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 4
- Sl. sólarhring: 37
- Sl. viku: 831
- Frá upphafi: 1515926
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 704
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- Katrín Snæhólm Baldursdóttir
- Þröstur Unnar
- Anna Ólafsdóttir Björnsson
- Helga Magnúsdóttir
- Fjóla Æ.
- Sumarbúðirnar Ævintýraland
- Jóna Á. Gísladóttir
- Steingerður Steinarsdóttir
- Bertha Sigmundsdóttir
- Svava S. Steinars
- Guðrún Jóhannesdóttir
- Vésteinn Valgarðsson
- Heiða B. Heiðars
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Baldvin Jónsson
- Jens Guð
- www.zordis.com
- Elín Arnar
- Andrés.si
- Vefritid
- Kristín M. Jóhannsdóttir
- Saumakonan
- Laufey B Waage
- Ingibjörg Gunnarsdóttir
- krossgata
- Kristján B. Jónasson
- percy B. Stefánsson
- Ólafur fannberg
- gua
- Anna Gísladóttir
- Hlynur Jón Michelsen
- Jón Svavarsson
- Brynjar Svansson
- Gyða Dröfn Tryggvadóttir
- Gunna-Polly
- Hólmgeir Karlsson
- Sigríður Jósefsdóttir
- Svala Jónsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir
- Eva Þorsteinsdóttir
- Hrönn Sigurðardóttir
- halkatla
- Guðný M
- Einar Vignir Einarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Kristín Björg Þorsteinsdóttir
- Vilborg Valgarðsdóttir
- Þóra Guðmundsdóttir
- Inga Dagný Eydal
- Bryndís Guðmundsdóttir (Binna)
- Helga Guðrún Eiríksdóttir
- Kristín Katla Árnadóttir
- Birna Mjöll Atladóttir
- Ingibjörg R Þengilsdóttir
- Hrólfur Guðmundsson
- Halla Rut
- Brynja Hjaltadóttir
- Eyþór Árnason
- Guðrún Vala Elísdóttir
- The baristas
- Helgi Már Barðason
- Eydís Rós Eyglóardóttir
- Guðný Jóhannesdóttir
- Ásta Kristín Norrman
- Anna Sigríður Guðmundsdóttir
- Kolgrima
- Huld S. Ringsted
- Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir
- HAKMO
- Gunnhildur Inga Rúnarsdóttir
- Bradshaw
- Kolbrún Baldursdóttir
- Ásta Björk Solis
- Margrét Guðjónsdóttir
- María Anna P Kristjánsdóttir
- Rebbý
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Markús frá Djúpalæk
- Bogi Jónsson
- Alheimurinn
- Ágústa Kolbrún Jónsdóttir
- Svala Erlendsdóttir
- Kokkurinn Ógurlegi
- Binnan
- Daníel Halldór
- Linda Linnet Hilmarsdóttir
- Linda Lea Bogadóttir
- Erna Friðriksdóttir
- Kristín Erla Kristjánsdóttir
- Katrín Ósk Adamsdóttir
- Fiðrildi
- Valgeir Ómar Jónsson
- lady
- Toby
- Vera Knútsdóttir
- Ragnar Páll Ólafsson
- Sverrir Stormsker
- Valdís Rán Samúelsdóttir
- Kej
- Ingigerður Friðgeirsdóttir
- Sigvarður Hans Ísleifsson
- Alexander Már Benediktsson
- Alfreð Símonarson
- Birna Dís
- Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir
- Janus
- Tinna Gunnarsdóttir Gígja
- Eyrún Inga Þórólfsdóttir
- Þuríður Björg Þorgrímsdóttir
- Elsa Rut Jóhönnudóttir
- Þóra Sigurðardóttir
- gudni.is
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Sigurður Axel Hannesson
- Inga Helgadóttir
- Kjartan Pálmarsson
- Hlynur Hallsson
- Herdís Sigurjónsdóttir
- Ása Hildur Guðjónsdóttir
- Steingrímur Helgason
- Sæþór Helgi Jensson
- Sif Traustadóttir
- Maddý
- Turetta Stefanía Tuborg
- Gúrkan
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Ólöf María Brynjarsdóttir
- Tiger
- Hdora
- Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir
- Brynja skordal
- Edda Agnarsdóttir
- Helga skjol
- Mummi Guð
- Kristín Einarsdóttir
- Guðbjörg Ottósdóttir
- Sæmundur Bjarnason
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Linda
- Gylfi Guðmundsson
- Handtöskuserían
- Agnes Ólöf Thorarensen
- Júdas
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Sigurbrandur Jakobsson
- TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.
- Álfheiður Sverrisdóttir
- Kjartan Magnússon
- Bylgja Hafþórsdóttir
- Vertu með á nótunum
- Marilyn
- Anna Mae Cathcart-Jones
- Söngfuglinn
- Dísa Gunnlaugsdóttir
- Ónefnd
- Ásta
- leyla
- Þórður Helgi Þórðarson
- Jónína Rós Guðmundsdóttir
- Anna Ragna Alexandersdóttir
- Laufey Ólafsdóttir
- Einar Indriðason
- Gísli Tryggvason
- Lilja G. Bolladóttir
- Þorsteinn Briem
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Ragnheiður Ástvaldsdóttir
- Eygló Sara
- I. Hulda T. Markhus
- Himmalingur
- Íbúasamtökin Betra Breiðholt
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Aprílrós
- Bókaútgáfan Salka ehf
- Svetlana
- Sigríður Guðnadóttir
- Andrea
- Jón Þór Bjarnason
- Inga Sig
- Sigríður Inga Sigurðardóttir
- Einar Örn Einarsson
- Heiður Helgadóttir
- Guðrún Ágústa Einarsdóttir
- Stella Jórunn A Levy
- Félag um stafrænt frelsi á Íslandi
- Perla
- Ingi Thor Jónsson
- Sigríður Þórarinsdóttir
- Vinir Tíbets
- Pálmi Guðmundsson
- cakedecoideas
- Bwahahaha...
- Bullukolla
- Jónas Sen
- Hildigunnur Rúnarsdóttir
- Renata
- Mamma
- Bergljót Hreinsdóttir
- Hrannar Baldursson
- Letilufsa
- Sigrún Jónsdóttir
- Adolf Friðriksson
- Björgvin R. Leifsson
- Brúðurin
- Guðrún Eggertsdóttir
- Kristín Bjarnadóttir
- Margrét Birna Auðunsdóttir
- Methúsalem Þórisson
- Ólöf de Bont
Myndaalbúm
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Ferðalög
- Formúla 1
- Gáfuhjal
- Grobb
- Íþróttir
- Krúttlegheit
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Væmni