Gleymdir stórviðburðir og maki með gervigreind ...

RokklandHlustaði heilluð á Rokkland í dag (Rás 2) þar sem ekki eingöngu var spiluð tónlist af fyrstu plötu Led Zeppelin (áhugaverðar upplýsingar um lagið Babe, I´m gonna leave you) sem á 57 ára afmæli í dag, heldur var fjallað um elsku Skálmöld líka, skemmtilegt viðtal við tvo úr hljómsveitinni, og svo fengu þeir að velja eitt lag þarna í restina ... ég hrópaði: Veljið Hel, veljið Hel, Hel ... og þeir námu hjartans ósk mína, gítarleikarinn guðdómlegi og trommarinn magnaði, fjarhrif eru svo vanmetin. Alveg sama þótt þátturinn hafi verið tekinn upp fyrirfram, tímaflakk hefur verið viðurkennt um langa hríð, t.d. í Hollywood.

Stína Ágústsdóttir sem ég vissi ekkert um áður, frábær tónlistarkona, var virkilega áhugaverð, ég hlakka til að hlusta á músíkina hennar. Hef alltaf verið hrifin af þessum þáttum Óla Palla og gekk meira að segja svo langt þegar við hittumst í fyrsta sinn (í sjoppunni Þyrli í Hvalfirði sem þá var enn opin) að ég rauk upp um hálsinn á honum af hrifningu (á þáttunum sko), þá vinnandi á annarri útvarpsstöð (Aðalstöðinni líklega). Svona geta nú góðir útvarpsþættir glatt mann ... Myndin er rammstolin og tengist þráðbeint þessum dásamlega þætti sem ég hlustaði á í dag. Þetta var algjör aldrei vekja mig-þáttur. 

 

Fékk bráðskemmtilegt fólk í heimsókn í gær, hafði verið búin að byrgja mig upp fyrir óveðurshelgi (óveðrið var víst bara í nótt) með brauði og alls konar áleggi. Er nefnilega komin með brauðrist. Fór með systur minni í Costco á fimmtudaginn og kom út með forláta ristavél (hehe) sem kostaði sannarlega ekki mikið en er samt óvænt rosalega tæknileg. Telur niður tímann ... það er tímateljari á takkanum þar sem maður stillir hitann, geri aðrir betur. Ég vissi ekki af því fyrr en fyrsta brauðsneiðin var ristuð í gær af einum kaffiboðsgestinum ... þar með er ég sennilega komin í hóp græjusjúklinga ... uppfylli alla vega eitt skilyrðið fyrir inngöngu þangað ...

 

Verndar kettinaEin þeirra sem kom í heimsókn hafði nóg fyrir stafni fyrr þennan dag en fékk slitið sig lausa með því að segja að hún væri að fara í áríðandi kaffiboð. Það er mikill heiður! Eftir á sá ég að gestir hefðu þurft að vera miklu fleiri til að veitingarnar gengju út ... frystirinn minn orðinn fullur og ég ekki svo rosalega mikil brauðkerling, svo ég verð að gefa gæsunum rest.

Að vísu vil ég helst ekki koma nálægt þeim vegna fuglaflensunar, vil ekki bera með mér smit heim því kettir geta líka fengið fuglaflensu og dáið.

 

Áður en ég flutti inn í Skýjahöllina bað ég hirðsmiðinn minn um að setja öryggiskeðju á alla gluggana (sjá mynd) svo þeir gætu ekki opnast nógu mikið til að köttur kæmist út um þá, annars myndi Mosi fleygja sér út, hann er ekta Íslendingur, hugsar bara: Þetta reddast ... og kettir eiga 9 líf!

Mosi á bara 6 líf eftir - er orðinn 10 ára svo hann á vonandi nokkur góð ár eftir.

 

Stofan í himnaríkiNú um áramótin rifjaði margt fólk upp liðið ár en mig minnti einhvern veginn til að byrja með að árið hefði verið frekar viðburðasnautt hjá mér, eins og yfirleitt.

Svo fóru stórviðburðirnir 2024 að rifjast upp hver af öðrum.

 

Í apríl: Stráksi flutti frá mér eftir sjö ára búsetu í himnaríki. Það var mikil breyting fyrir okkur bæði. Hann flutti á dásamlegt sambýli þar sem hann unir hag sínum vel í lítilli og fallegri íbúð ... innan seilingar er öll sú aðstoð sem hann þarfnast, ásamt ást og umhyggju. Bæði jólum og áramótum varði hann hjá mér og gerir það eflaust um ókomna tíð, enda einn af fjölskyldunni ... og mesta jólabarn sem ég hef kynnst. Hann hefur komið reglulega í heimsókn hingað og gist.

Himnaríki sett á sölu (gæti hafa verið í apríl).

Júní: Það kom ljómandi fín umfjöllun í DV 22. júní. Gosútsýnisíbúð Gurríar til sölu ... og ansi margir mættu á opið hús í kjölfarið. Enginn þáði lakkrísinn sem ég hafði keypt af ömmu Andreu í Bónushúsinu ... Par sem mætti á opna húsið gerði tilboð ... og hviss bang, himnaríki selt! Ég hafði sjálf leitað mér að íbúð, mest í Kópavogi, en gekk voða illa að finna eitthvað þar sem hæfði efnahag og geitungahræðslu.  

8. janúar 2024Júlí: Aldrei tekið föst lyf við einu eða neinu, ótrúlega heilbrigð (nema fj. bakið) en Inga vinkona gerði allt vitlaust þegar blóðþrýsingurinn í mér var orðinn ósmekklega hár (ég hafði neyðst til að borða allan lakkrísinn frá opna húsinu sjálf). Frábæra heilsugæslan á Akranesi hætti ekki fyrr en þrýstingurinn fór að gefa sig og ég var sett á blóðþrýstingslyf í kjölfarið - sem ég man blessunarlega alltaf eftir að taka (fyrir utan 2 skipti). Þetta voru merkileg tímamót.

Ágúst: Viku eftir afmælið mitt ágerðust veikindi Kela, míns súpergóða kattar og vinar, og honum varð ekki bjargað. Hann var orðinn 14 ára og mikill dásemdarkarakter. Hann hafði á sínum tíma fundist ofan í poka með öðrum kettlingum í gjótu í Heiðmörk í desember 2010. Honum var hjúkrað til lífs og geðheilsu í Kattholti og þangað sóttum við Einar hann í lok ágúst eða byrjun sept. 2011.  

Spjall í afmælinu (12. ág.) leiddi til þess að ég útvíkkaði fasteignaleit mína yfir á fleiri póstnúmer. Ásamt Hönnu minni og háæruverðugri móður hennar, fórum við á nokkra staði þann 29. ágúst sl. og urðum spenntastar fyrir Skýjahöllinni sem er í 104 Reykjavík. Vissulega í grónu hverfi, en samt á útjaðri þess, sjúkk. Höllin stendur í rauninni við sömu götu og Harpa tónlistarhús ... eða Sæbrautina þótt ég sé nær Holtagörðum en Hörpu. Það sem okkur þremur sem skoðuðum íbúðina þótti furðulegt í tengslum við Skýjahöllina, var að skjöl frá húsfélaginu sem fasteignasalan lét mig fá, voru dagsett á afmælisdögum okkar þriggja, í maí, júní og ágúst, svo á ein vinkona mín að auki afmæli skoðunardaginn sjálfan.

Meant to be, hefði ég sennilega hugsað væri ég forlagatrúar. Íbúðin var vissulega stærst af þessum sem ég skoðaði og ágætlega falleg, og eftir tilboð og svo gagntilboð sem ég tók var allt innan fjárhagslegra marka og ég myndi ekki fara á hausinn, samt fá prýðilega íbúð, með útsýni og allt, vissulega nokkuð minni en himnaríki en hvað hefur svo sem ein hræða og tveir kettir að gera við 100 fermetra? 

Flutt frá HimnaríkiSeptember: Endalausar flensur og kvefpestir. Ónæmiskerfið hrundi, sennilega vegna flutningastressins, og ég varð eins og viðkvæmt barn nýbyrjað í leikskóla. Samt þurfti að pakka niður heilli búslóð. Þakklát Ingu minni sem hafði aðstoðað mig í Covid-ástandinu við að grisja þarna 2020 um leið og himnaríki var tekið í gegn. Ég bjó vel að því þarna fjórum árum seinna. Svo fékk ég mikla aðstoð frá Rahaf minni við niðurpökkun - og Ellen og Elvari, og Ingu. Ég fékk Skýjahöllina afhenta 1. okt. en ég vildi láta mála fyrst og gera gluggana katthelda, svo 5. október, laugardagur, var ákveðinn sem dagur flutninga. Svitlana niðri var ótrúlega frábær og kom í veg fyrir fráflæðivanda með því að fara með alls konar dót frá mér í Búkollu eða á haugana. Ég seldi gamla tekkskrifborðið mitt og keypti í staðinn mjög lítið tekkskrifborð sem passar betur í pínkuoggulitla vinnuherbergið.

Október: Daginn fyrir flutningana kom Hilda systir ásamt fríðu föruneyti, Inga líka, og við fluttum "eldhúsið" og annað brothætt á tveimur bílum í bæinn. Gengum frá því inn í skápa og ofan í skúffur, sem munaði ótrúlega miklu. Flutningar í bæinn þann fimmta. Fékk ómetanlega og fjölþjóðlega aðstoð: Ísland, Litháen, Sýrland og Úkraína ... 

Nóvember: Tónleikar með Skálmöld í Hörpu! 

 

Góðar glasamotturÞetta var svona það helsta sem gerðist 2024. Ég sakna Skagans og fólksins þar virkilega mikið, enda bjó ég í þessu góða samfélagi í rúm 18 ár, fyrir utan æskuárin auðvitað og nokkur ár þar á milli, en ég er samt líka ansi hreint ánægð hér í 104 Rvík.

Gott hús með góðu fólki, stutt í vini og ættingja, það tekur 9-11 mín. að keyra til mín úr Kópavogi og eitthvað svipað úr Þingholtunum ... talandi um að vera vel staðsett. Svo er ég loksins farin að vinna (í Skeifunni) og fyllti á Klapp-strætókortið mitt (með aðstoð Hildu systur) í kvöld, sé að það munar talsvert miklu í verði að kaupa mánaðarkort en að borga stakt fargjald. Þannig á það auðvitað líka að vera. Mánaðarkortið er á 11.200 kr., ég fer tvær ferðir á dag mán. til fim., sem gera átta ferðir í viku, 32 í mánuði ... sem þýðir að hver ferð er á 350 krónur. Þegar ég borga eina staka ferð, með peningum eða debitkortinu mínu, kostar hún 670 krónur - svo þetta er frábært.    

 

MYND: Flottu glasamotturnar sem ég fékk í jólagjöf. Þær eru svo móðgandi að ég leyfi gestum mínum að velja sér setningu til að þeir móðgi sig frekar sjálfir en ég þá. Anna vinkona valdi sér t.d.: Svart eins og sálin þótt hún hafi notað kaffirjóma út í kaffið sitt! Það er kurteislegasta glasamottan.

 

 

SófinnHirðsmiðurinn mætir til mín á þriðjudaginn. Eldsnemma! Það eru fjögur verk sem þarf að vinna:

 

1) Setja nýjar lappir undir nýja sófann. Það hækkar hann um þá þrjá eða fjóra sentimetra sem þarf til að hnén á mér hætti að ná upp að höku á mér þegar ég sit þar. Þá get ég losnað við bláu púðana úr sófanum, sjá vettvangsmynd. Lágir sófar eru ekki góðir, eiginlega bara hræðilegir ... nema fyrir það fólk sem kvartar aldrei yfir þrengslum í flugvél.

 

2) Setja upp fatahengið úr Jysk (þriðja tilraun), bora í grjótharðan vegg sem skrúfur hafa fest í ... Smiðurinn ætlar að mæta með spartl til að laga fyrri tilraunir. Staðan 2-0, veggnum í hag. Held að smiðurinn taki loftpressuna með - eftir hroðalegar lýsingar mínar á harðneskju veggjarins.

 

3. Færa nagla á vegg til að mynd verði á réttum stað.

 

4. Setja upp rúllugardínur í glugann á herberginu mínu svo ég geti sofið þegar sólin fer að skína nánast um miðjar nætur.

 

- - - - - - - - - - - - 

SénsleysiÁstamálin hafa svo sem ekki verið mér sérlega hugleikin síðustu dagana ... mánuðina ... jafnvel heilu misserin. Veit að ef foreldrar mínir væru enn á lífi myndu þau hafa gríðarlegar áhyggjur af þessu kattakerlingar- og kaffiþambslíferni mínu.

 

Heimurinn hefur breyst mikið og til er fólk sem hefur gifst sjálfu sér! Það kæmi aldrei til greina hjá mér, þótt ég elski og dái sjálfa mig langar mig frekar í maka sem getur eldað almennilegan mat (án Eldum rétt-hjálpar), kann að keyra bíl og á bíl ... eitthvað slíkt sem ég uppfylli því miður ekki sjálf.

 

Upp á síðkastið hef ég gælt við þá hugmynd að hekla mér karl úr plötulopa (yrði hlýlegri). Ég kann hvorki að prjóna né sauma og er alls ekki nein föndurkona svo hekl verður það að vera.

 

Svo gæti ég einhvern veginn, með hjálp Davíðs frænda, tengt manninn gervigreindinni og látið hann t.d. segja mér góðan pabbabrandara daglega, kennt mér spænsku (mig langar að læra spænsku) og hvatt mig til ýmissa dáða, eins og gönguferða eða skopps í stiganum frammi til að fá lögbundna hreyfingu. Jafnvel upplýst mig um spennandi hluti sem hann finnur í leyndum kimum alnetsins svo ég geti slegið um mig á kaffistofunni í hádeginu eða skorti aldrei umræðuefni í áríðandi kaffiboðum.

 

Þetta er auðvitað alls ekki ákveðið, ég hef verið í hekl-ládeyðu um nokkra hríð og þarf að klára eitt stykki barnateppi sem ég skulda áður en ég fer að hugsa um einhvern hekl-maka. Leyfi ykkur að fylgjast með.  


Bloggfærslur 12. janúar 2025

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 91
  • Sl. viku: 881
  • Frá upphafi: 1514652

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 754
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Sénsleysi
  • Sófinn
  • Góðar glasamottur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband