Tískuslys, miðja alheimsins og tónleikar 2025

TískuslysTískuslys ársins átti sér stað í gær ... og ég sem passa svo vel upp á að skapa frekar tísku (trendsetter) en misþyrma henni. Ég held ógurlega upp á gulu og svörtu Wu Tang Clan-sokkana mína sem ég fékk í jólagjöf og fór í þá þótt ég væri í skærblárri peysu og með sérdeilis bláan trefil. Þetta skiptir ekki nokkru máli þegar snjór og hálka hrella borgarbúa en í gær var veður fyrir strigaskó. Og þegar ég tölti létt í spori úr á stoppistöðina mína tók ég skyndilega eftir þessum hroðalega skorti á smartheitum því sokkarnir voru nánast sjálflýsandi við túrkísbláa trefilinn og ég hafði ekki tíma til að snúa við að fara í svarta sokka sem hefði verið hið eina rétta!!!

 

Vetrarskórnir hylja ætíð sokkabúnað minn og þegar komið er til vinnu fer ég í gervi-Crocksinniskóna úr Jysk og verð þá hvort eð er alveg hræðileg, svo litasétteringar skipta í raun engu. Heldur ekki heima, kettirnir eru sem betur fer litblindir, eða hafa ekki nokkra tískuvitund. Ætla samt að muna að kaupa einhvern tímann gulan bol eða gula peysu til að sokkarnir njóti sín stundum, get síðan verið með appelsínugula trefilinn við. Hann er alveg eins og sá blái, nema gulur og appelsínugulur, mjög flottur. 

 

Nafli alheimsinsSkeifan verður sífellt meiri miðja alheimsins í mínu lífi, fyrirgefið, Holtagarðar, en ykkur er nær að vera hinum megin við eina mestu umferðargötu landsins! Mjóddin var það um margra ára skeið (Akranes-Rvík-Akranes, leið 57) en missti aðdráttaraflið þegar Íslensk hollusta hætti að framleiða Fasta, frábæra safann sem var svo hollur og góður að ég tvíefldist að kröftum og hætti að naga neglurnar eftir þann ávana til áratuga. Hann seldist ekki af því að hann var eiginlega hvergi til sölu. Ég fór sérferð í bæinn, í Mjóddina, á föstudögum til að kaupa hann en svo varð sífellt erfiðara að finna hann. En hva ...

 

In da Skeif er fínasta gleraugnabúð, matvöruverslanir, Jysk, apótek, Elko og ... vá, vá, vá. Ég prófaði að gúgla gamla góða sjúkranuddarann minn sem hélt mér lengi sprækri eins og léttfættri hind þrátt fyrir bakvesen frá unglingsaldri. Hún var síðast með aðsetur á Suðurlandsbraut, c.a. tveimur strætóstoppistöðvum frá minni við Skeifuna, eða þarna hjá Glæsibæ - en hvar ætli hún sé núna? hugsaði ég, kannski á sama stað? Ja, ótrúlegt en satt, hún er rétt við gleraugnabúðina í Bláu húsunum, í svona tveggja mínútna göngufjarlægð frá vinnunni minni. Nú þarf ég greinilega að gúgla gamla kærasta og fleira gott, ég hef á tilfinningunni að besta lið mitt síðan í denn leynist þarna. Það er stutt í að ég þurfi að fara í "framköllun" eða lit á augabrúnir og augnhár og ég er eiginlega milljón prósent viss um að snyrtistofur leynast þarna allt í kring. Reyndar, þegar ég þeysti úr vinnunni, kl. 15.05 og stefndi á að ná strætó kl. 15.10 og missti af honum (hleyp ekki til að hlífa vissri hásin sem er samt að verða súpergóð (takk, B1-vítamín og viss dásemdarkona sem færði mér það) en tek ekki sénsinn á að "rífa" nokkuð upp því það kemur alltaf annar strætó eftir korter. Þetta aukakorter gaf mér líka tíma til að skoða umhverfið, Glæsibæ, enn betur ... Einhverjir gætu haldið að ég hafi farið í Ölver til að drekkja miss-af-strætó sorgunum, en ég var stoppuð af, ekki af Iceland-búðinni sem ég kom fyrst að, heldur Tokyo Sushi-veitingastaðnum og keypti þar girnilegan japanskan kvöldverð. Ég sá svo grilla í girnilega snyrtistofu ögn fjær - svo ég er ekki bara með alla Skeifuna, heldur líka Glæsibæ. Svo er örstutt að fara upp á Háaleitisbraut frá Skeifunni, yfir Grensásveg, ganga í þrjár mínútur, og þá er t.d. geggjuð hárstofa - mig langar að halda mig við mína konu á Skaganum en válynd veður vetrarins hrekja mig á aðrar lendur þegar gular, jafnvel rauðar viðvaranir eru ríkjandi.    

 

StrætóFimman kom svo á réttum tíma (15.25) og ók mér á Höfðatorg, síðan kom tólfan og mér til mikillar gleði kom inn í þann vagn kona með lítinn hund í fanginu og tók sér stöðu við hliðina á mér. Ég fékk ekki sæti en það var í fínu lagi, ekki langt að fara. Þvílík gleði að hitta hund. Voffi var nú samt svo ofboðslega hræddur að hann þorði ekki einu sinni að horfa í kringum sig, grúfði sig bara upp að eigandanum. Ég fékk nú samt að klappa og vona að það hafi róað svarta krúttið eitthvað. 

Margt að breytast hér á landi í svo mörgu - og til góðs. Mér finnst mannlífið orðið miklu skemmtilegra og fjölbreytilegra en var þegar ég var mun yngri ... á þeim tíma þegar ríktu boð og bönn, höft og leiðindi (Makkintoss og Smartís bannað!), stranglega bannað t.d. að vera með nokkurt líf á Lækjartorgi, og í þau örfáu skipti sem eitthvað slíkt var leyft, tóku sig upp gömul bros og sólin fór að skína þótt væri skýjað. Núna er orðið svo mikið líf sem fylgir ferðafólki og þeim sem kjósa að flytja hingað á ísakalda klakann. Mér finnst alltaf gaman í strætó, fínasti ferðamáti, og í dag heilsaði einn bílstjórinn mér, sá er frá Sýrlandi. Ég er ekki mannglögg (minn eini galli) en hann bjó á Skaganum og þekkir nokkra vini mína þar. Afskaplega brosmildur og ljúfur bílstjóri sem farþegarnir virðast kunna að meta - hann fékk marga til að brosa á móti og bjóða góðan dag - og hann kann að keyra líka sem er auðvitað stór kostur ... keyrir sem sagt vel, engir rykkir og bremsulæti ... en það er reyndar ansi langt síðan ég hef lent á slíkum bílstjóra ... ár og aldir.

 

Út þennan mánuð verð ég starfsmaður á plani í skólanum, eða til aðstoðar, en í mars verður mér hrint út í djúpu ... og ég er farin að hlakka til. Allir svo hjálpsamir að kenna mér og gefa góð ráð. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi og slíkt er ekki sjálfgefið. Eftir febrúar ætla ég að vera búin að læra að bjóða góðan dag á úkraínsku ... 

 

RammsteinAnnað sem jók á sístækkandi hamingju mína var spjall á messenger í gærkvöldi: Ætlar þú á Smashing Pumpkins-tónleikana í ágúst? Ég lýsti yfir miklum áhuga (ég viðurkenni að ég staðnaði svolítið músíklega einmitt á tíunda áratugnum æðislega) og ef vinkona mín og maður hennar ákveða að fara, fæ ég að vera samfó. Held að ég sé aðeins of háöldruð fyrir stæði (var síðast í stæði í Laugardalshöll á Travis-tónleikunum um árið, eða var það Sting? Var með fínt sæti á Rammstein-tónleikunum (2001) þótt stuðið hafi verið talsvert meira á gólfinu). Það varð uppselt á Rammstein á nokkrum mínútum, minnir mig, á tvenna tónleika sko, og ég komst ekki á þá fyrri þar sem Ham hitaði upp. Það var frekar fúlt en Rammstein bættu það svo sem upp.

 

Hér fyrir neðan er uppáhaldslagið mitt með SP - sonur minn gaf mér einmitt plötuna (geisladiskinn), þar sem þetta lag er, í afmælisgjöf eitt árið undir aldamót. Þekkti móður sína - en smekkur okkur mæðgina fór svolítið sitt í hvora áttina með tímanum. Hann var nánast ekkert fyrir þungarokk eins og ég, hlustaði þó mikið sem unglingur á Guns og Roses sem ég var ekki eins hrifin af, en ég þakka honum þó alfarið fyrir að ég staðnaði ekki og festist í Led Zeppelin, Jethro Tull, Pink Floyd, King Crimson og allri þeirri dýrð sem ég elska enn, en heimilið fékk sér MTV árið 1995 að hans ósk, og það breytti tónlistarlífi mínu algjörlega. Þvílíkur fjölbreytileiki og dásamlegheit sem bættust við.

     


Bloggfærslur 12. febrúar 2025

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.2.): 127
  • Sl. sólarhring: 141
  • Sl. viku: 1008
  • Frá upphafi: 1518469

Annað

  • Innlit í dag: 109
  • Innlit sl. viku: 867
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 99

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Rammstein
  • Strætó
  • Nafli alheimsins

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband