Sigur í orrustu, móðgandi umbúðir og gagnleg hjátrú

RúsínupakkiTaugaveiklunarhlátur, efasemdir, ótti, tortryggni og margt fleira í þeim dúr lýsir svolítið þessari helgi ... sem hófst á fínasta bröns hjá ónefndri systur. Ég náði nefnilega, held ég, að vinna mikilvæga orrustu í rúsínustríði okkar systra. Sennilega þá fyrstu með glæsibrag sem gæti endað í sögubókum. SKÝRING: Systir mín hefur  keypt litla, rauða rúsínupakka og komið þeim laumulega fyrir heima hjá mér eða ofan í töskunni minni. Henni finnst það sennilega fyndið af því að ég hata rúsínur. Hún er sem sagt hætt að setja þá laumulega í innkaupakörfuna hjá mér, ef við förum saman í búð, eftir visst vesen og læti í Netto ... sem hefur neytt mig til að versla bara í Hagkaup, alla vega á næstunni. Löng saga.

 

 

Hún heldur án efa að ég hafi ekki fundið pakkann sem var ofan á ísskápnum (1,80 m á hæð), bara þennan sem var ofan í handtöskunni minni og ég gerði viljandi lítið úr ... eins og mér þætti þetta bara fyndið og svolítið krúttlegt. Glætan.

Alla vega, á föstudaginn, á meðan hún kvaddi bröns-frænkurnar, ég stoppaði ögn lengur og var búin að kveðja þær, leitaði ég örvæntingarfullt að góðum felustað, ekki samt OF góðum, fyrir annan rúsínupakkann ... og fann hann í eldhúsinu. Setti hann á hlið til að hann yrði minna áberandi ... hinn pakkinn fór, án nokkurrar miskunnar, á ljósan en dimman stað. Ekki ólíklegt að báðir séu fundnir og hefnd sé í grennd. Síðast þegar ég sagði sigri hrósandi: Hah, ég faldi rúsínupakkann í veskinu þínu - sagði systirin: Ég fann hann áður en ég fór frá himnaríki og faldi hann ... og það svo vel að ég fann hann í október, þegar ég var að klára að pakka niður, mánuðum seinna.

 

 

Nýja heimiliðÉg veit ekki hvernig ég fór að því að vera eðlileg í fasi, ég var svo stressuð, rak í sífellu upp lágværan og bældan tryllingshlátur þegar viss systir var úr heyrnarfæri en setti upp alvörusvip inn á milli. Ég var vissulega í Skagaleikflokknum seint á áttunda áratug síðustu aldar. Leikræn þjáning upp á tíu.

Þessi hlátur og taugaveiklun hélt áfram eftir að heim var komið og ég þorði ekki einu sinni að kveikja ljósin í íbúðinni. Til að gera langa sögu stutta ... Ég flutti í gær. Komin með háleynilegt heimilisfang og hef líka breytt aðeins um útlit til öryggis. Er svo hrædd við hefndina. Því hún verður, ég slepp ekki nema vera snjallari ... sem ég tel mig vera núna. Ég myndi ekki lifa af að hafa rúsínupakka, jafnvel fleiri en tvo, á hinum ýmsu leynilegu stöðum heima hjá mér.

Myndin af mér uppi í rúmi með köttum er alveg sönn ... og gangi henni vel að finna mig þar sem ekkert sést í Hallgrímskirkjuturn sem blasir annars við út um gluggann þarna vinstra megin ... úps.

Það var ekkert mál að flytja. Mér fannst nefnilega eitt svolítið óþægilegt við að búa á "gamla" staðnum, á Kleppsvegi, að ef ég gúglaði eitthvað og setti inn póstnúmerið 104 kom iðulega upp orðið SUND. Í gamla daga hét leið fjögur Hagar-Sund ... ég var bara búin að gleyma því. Eins og fb-vinir mínir vita þá hata ég sund og heita potta og allt svona blautt, nema sturtuna mína heima. 

 

Móðgandi sturtusápaÁ síðasta ári fékk ég þessa fínu sturtusápu í jólagjöf. Ég hef notað hana næstum daglega síðan og hún hefur glatt mig mikið, enda virkilega fín og góð. Það tók mig alveg heila 47 daga að átta mig á því að þetta er í raun afar spælandi jólagjöf, eins og sést á myndinni. Fór sem sagt í sturtu áðan og rak þá augun í þetta. Hef ekki orðið svona móðguð síðan ég móðgaði sjálfa mig óvart með því að taka með mér bókina Vatn fyrir fíla til að lesa í baði (þetta var þegar enn var baðkar í himnaríki).

 

Hvernig dettur Elizabeth Arden í hug að koma svona fram við viðskiptavini sína? Kaupendur vara hennar sem eflaust verða allir fyrrverandi kaupendur um leið og þessi bloggfærsla fer í loftið! Að hugsa stórt passar frekar á námskeiði hjá lífsstílsráðgjafa en á sturtusápu!

 

Munið þið líka eftir kvenfatabúðinni sem seldi föt í stærri stærðum (og ég hef bloggað um) og merkti innkaupapoka sína með: Fegurðin kemur innan frá ... því ekki var nokkur séns að "stóru" kúnnarnir gætu verið sætir að utan ... Vel meint en hrottalega móðgandi. Ég er sannarlega ekki eina manneskjan sem læt umbúðir og annað slíkt koma mér úr jafnvægi. Man eftir því þegar vinkona mín fór eitt árið í sjúkraþjálfun í Kvennalistabol þar sem bakhliðin á bolnum sýndi með tölum skelfilegan launamun kynjanna. Karlkynssjúkraþjálfarinn hennar reifst allan tímann við bolinn.

 

AlvörugaldrarÉg fæ oft skemmtileg og fjölbreytt verkefni sem verða þess valdandi að ég þarf að setja mig inn í ýmislegt sem ég hef frekar lítið vit á. Nýlega las ég yfir texta þar sem fjallað var m.a. um vatnslitun en ég bý svo vel að eiga vinkonu sem er listakona og gat svarað öllum mínum spurningum um hvort textinn "meikaði sens" (afsakið). Nýlega fékk ég texta þar sem féll dómur yfir einni söguhetjunni - og haldið að ég hafi ekki getað haft samband við lögmann í ættinni ... Fyrir síðustu jól gat ég spurt sálfræðing (allt morandi af þeim í fjölskyldunni) um visst mál. Gott að þekkja marga með mismunandi þekkingu, reynslu og menntun ... meira að segja var eini (held ég) stjarneðlisfræðingur landsins með mér í bekk frá c.a. sjö til tólf ára, þótt ég efist um að fá endilega slíkan texta ... En þetta víkkar sjóndeildarhringinn og gaman að geta slegið um sig með yfirborðsþekkingu ... Múahahaha. Það halda svo ótrúlega margir að ég sé súperklár af því að ég kann flest póstnúmer landsins en ég er nú bara dugleg að koma því að í samtölum og bloggfærslum.

 

Mig hefur alltaf langað að vita miklu meira um veður, eldgos og jarðskjálfta og naut þess sérlega vel að búa í himnaríki og verða svona mikið vör við þetta allt saman, eins og veðurofsann sem gat ríkt við opið Atlantshafið, eldgos þarna hinum megin ... og ég sakna þess svo mikið, nema jarðskjálftanna. Ég hef þó lært ýmislegt sniðugt, eins og að skilja eftir hrífu með tindana upp ef ég fæ algjört ógeð á snjó og hálku. Myndi aldrei gera slíkt í sveitinni að sumri til. Núna er snjórinn að fara, þökk sé mér, það er rok og rigning í augnablikinu og 6 stiga hiti, en mér tókst einhvern veginn, ef marka má tímavélina yr.no, að koma í veg fyrir úrkomu í svona tvo daga áður en fer að frysta aftur. Það gulltryggir hálkuleysi. Held að ég geti þakkað gamalli íslenskri hjátrú þetta. Ég reyni samt að ofgaldra ekki, en setti samt nýja bleika vatnsbrúsann þarna líka og það gerði útslagið líklega með magn rigningarinnar sem hraðaði bráðnun íss á gangstéttum.          


Bloggfærslur 9. febrúar 2025

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.2.): 284
  • Sl. sólarhring: 331
  • Sl. viku: 854
  • Frá upphafi: 1518225

Annað

  • Innlit í dag: 264
  • Innlit sl. viku: 756
  • Gestir í dag: 250
  • IP-tölur í dag: 244

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • Alvörugaldrar
  • Móðgandi sturtusápa
  • Nýja heimilið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband