Loksins skimun og grimma stafavíxlvélin virkjuð

SkimunTæplega mánuður er liðinn síðan ég fékk bréf frá Landspítalnum um að mæta í skimun og loks herti ég mig upp og hringdi. Vissi að það yrði erfitt að finna réttan tíma, jafnvel langt fram í tímann, sem hafði tafið mig frá því að hringja. Veit t.d. ekki enn hvenær (kl. hvað) ég kenni í apríl/maí og svo versnar í því þegar nær dregur sumarfríum starfsmanna sem er allt í lagi nema þegar þarf að ákveða að fara eitthvað klukkan eitthvað ákveðið. Fannst ólíklegt að ég fengi skimun á laugardagskvöldi sem myndi henta mér vel en það mátti samt vona.

 

„Kemstu klukkan 13.40 í dag?“ spurði ljúfa konan sem svaraði í símann. „Uuuujáts!“ svaraði ég og trúði vart heppni minni, einhver hafði greinilega afpantað sem kom mér svona líka vel, enda var mæting til vinnu klukkan fimm og nægur tími.

Ég mætti niður á Eiríksgötu, lét vita af komu minni (skimun í fyrsta sinn í mörg ár) og held að það hafi ekki verið ljúfa konan sem hreytti pirruð út úr sér: „Þú þarft að skrá þig þarna,“ og benti á nokkra skjái á veggnum á móti. Það sem alkabarnið heyrði var: „Fávitinn þinn, það er árið 2025, reyndu að uppfæra þig og láta mig í friði!“ En auðvitað meinti hún það ekki þannig. Ég þakkaði henni kurteislega fyrir, skráði mig og borgaði (posi hjá skjánum) en þurfti því miður að fá að vita hvar stiginn upp á þriðju hæð eða lyfturnar væru ... og alveg jafnhress yfir trufluninni urraði konan mér í rétta átt.

 

Allt annað viðmót mætti mér uppi ... eða þögull en vinalegur skápur sem reyndist vera búningsklefi ... með tvennar dyr svo ég gat læst almenningsmegin. Klæddi mig úr að ofan og beið svo þar til rauða ljósið yfir innri dyrunum breyttist í grænt, þá mátti ég fara inn til elskulegu kvennanna sem þar biðu spenntar eftir því að fá að mynda mig. Tók örfáar mínútur, svo var það klefinn aftur, ég klæddi mig og gekk niður stigana. Þá tók nú aldeilis ævintýrið við. Ég hélt í áttina að Landspítalanum, (Eiríksstaðir eru við hliðina á Vörðuskóla og fyrir aftan Hallgrímskirkju) og minnti að það væri stoppistöð þar - sem var rétt - en strætó birtist bara allt í einu svo ég tók til fótanna og hljóp eins og vindurinn á móti honum. Komst auðveldlega yfir götuna því umferð var nánast engin. 

„Þú hefðir ekki þurft að hlaupa,“ sagði vingjarnlegi bílstjórinn. „Næsti vagn kemur eftir átta mínútur,“ bætti hann við. Hvernig átti ég að vita það? hugsaði ég en sagði bara: „Takk fyrir að bíða.“

Hásinarnar? veit ég að allir mínir bloggvinir hugsa. Hvernig fór fyrir þeim, greyjunum sem hafa verið að jafna sigm hálfslitnar eftir strætóhlaup fyrir nokkrum árum?

 

StigagangurinnSko, eftir að hafa skokkað niður margar hæðir hér heima (sjá mynd úr stigaganginum, hún var tekin á fyrstu hæð og upp) fyrr um daginn, þrjár hæðir á Eiríksstöðum (sem húsið heitir) og almennt séð hreyft mig miklu meira á þessu ári en þeim síðustu, tekið inn B1-vítamín, verið með hælahækkun í skónum ... og ef gemsanum mínum skjátlast ekki, hafa hásinar ykkar einlægrar verið í ágætri þjálfun. Ég gæti farið að skokka, grunar mig ... en ég set mörkin þar. Stigahlaup og strætóhlaup, það er meira en nóg.

 

Ég var ekki með neitt vesen í skimuninni, enda stjórnar starfsfólk á plani því ekki hversu illa er farið með Skagakonur. Myndavélar eru m.a. sendar til Selfoss og Keflavíkur svo konur þar þurfa ekki að taka sér frí úr vinnu nema í kannski korter, en konurnar á Akranesi mega gjöra svo vel að mæta til Reykjavíkur sem þýddi að ég fór aldrei, reiknaði út að ef ég hefði átt tíma þar kl. 10 að morgni myndi það taka mig um sex klukkutíma að komast þetta fram og til baka með strætó. Það var mjög letjandi, ekki síst eftir að hægt var að fara í skimun á spítalnum á Akranesi lengst af, eða þar til Krabbameinsfélagið hætti að nenna að koma.

Reyndi alveg að fá að sitja í með vinkonum en þær voru jafnvel nýbúnar að fara í skimun þegar ég hringdi í þær eða ætluðu ekki að fara. Svo er Vegagerðin að draga enn frekar úr þjónustu landsbyggðarstrætó á Akranesi, fækka stoppistöðvum niður í þrjár, þannig að nú munu sko ALLIR flykkjast í strætó ... vonandi muna þau eftir að hækka fargjaldið líka. Bíllinn til Akureyrar og frá Akureyri, mun ekki lengur koma við á Akranesi (það "tafði" víst um 20 mínútur). Getur verið að ungi en forni maðurinn í Miðflokknum, vonarstjarnan Snorri, hafi náð að valda skaða með fáránlegum fréttaflutningi sínum um árið (Stöð 2) þegar hann vildi meina að allt of margar stoppistöðvar á milli Reykjavíkur og Akureyrar væru ástæða þess að farþegum hefði fækkað, sem sagt líklegra en covid-tíminn, fargjaldahækkun og fækkun ferða? Nú vill þessi sama mannvitsbrekka meina (ræða á Alþingi) að kynjafræði búi til femínista sem hati karla. Ég er femínisti og ég elska karla, hvað er þá að mér, eða er Snorri kannski bara með uppistand á þingi og segir bráðum: bara djók!?  

 

Náði að knúsa kettina í tvo tíma eftir brjóstaskimun og áður en ég fór í vinnuna, og sá mér til gleði að ljúfi sýrlenski bílstjórinn keyrði vagninn minn sem er með stoppistöð hér á hlaðinu. Þessi sem býður alltaf góðan daginn, stoppar brosandi fyrir óléttum konum með barnavagn og halarófu af krökkum á gangbraut ... hann lítur út fyrir að vera fyrrum bóndi úr Skagafirði (móðurættin mín er þaðan) en ég veit að hann þekkir sýrlenskt vinafólk mitt á Skaganum, annars hefði ég haldið mig við Skagafjörðinn. Eina sem hann kvartar yfir er að samstarfsfólkið talar allt saman á ensku, ekki íslensku, hann langar svo til að verða betri í íslenskunni. Ekki sá fyrsti sem ég hef hitt sem segir það. Ég ráðlagði honum að fara á námskeið í skólanum mínum, þar er nú ekki töluð enskan.

 

Tíminn sem ég kenndi í gærkvöldi var sá síðasti þar sem almenn kennsla fór fram, því nú á föstudagskvöldið verður útskriftarathöfn. Mér tókst að klára aðalkennslubókina, gefa þeim öllum pínkuponsulítið páskaegg (úr mjólkursúkkulaði frá Nóa, namm) með málshætti (skyndihugdetta þegar ég keypti mér snemmbúinn kvöldmat í Hagkaup, sushi). Páskaeggin vöktu mikla lukku og líka málshættirnir. Ó, hvað ég á eftir að sakna þeirra. Dásamleg öll.

 

Hvað er svona sæt kona eins og þú að ...Ég vældi aðeins undan því um daginn hvað viðreynsluaðferðir sumra karla virkuðu illa og væru árangurslausar þegar þeir halda til dæmis að spjall í gegnum Messenger á fb væri málið. Ég hef síðan hugsað svolítið út í hvað geti virkað ... Mögulega að rekast "óvænt" aftur og aftur á sama sæta manninn úti í búð og svo myndi hann kannski segja glettnislega: „Hvað er svona falleg kona eins og þú að gera á stað eins og þessum?“ Ég gæti mögulega fallið fyrir þessu en man þó eftir gaurnum sem ég hitti á Gauk á Stöng (eða Dubliner) einu sinni, kannaðist við hann og spurði í gríni hvað svona huggulegur maður væri að gera á stað eins og þessum. Hann varð ógeðslega fúll og rauk í burtu. Þetta var ekki einu sinni pikköpptilraun hjá mér, bara grín. Einhver bauð mér upp í dans eitt sinn og ég sagðist fyrst vilja sjá skattaskýrslu föður hans ... sá varð alveg brjálaður líka og fór í fússi. Átti víst forríka foreldra en ég hafði ekki haft hugmynd um það. Húmor þarf víst að vera góður til að hann virki á alla, ég er farin að gera mér grein fyrir því.

Það væri mjög notalegt (ef ég hefði ekki hrakið þessa menn og miklu fleiri frá mér) að vera vakin á páskadag við ilmandi góðan kaffibolla og Fabergé-páskaegg ... sem næst varla úr þessu, svo stutt er til páska. Sé varla fyrir mér heldur að nokkur karl myndi nenna að keyra alla leið til Grundarfjarðar og kaupa þar baunir af Valeria-kaffi (espressóbrenndar) til að gleðja mig sérstaklega. Væri gaman að vita hvort Valeria-kaffið fáist í bænum, t.d. Melabúðinni. Þar kennir ýmissa kaffigrasa.

 

Vigdís og HallaNýlega kíkti ég á gamlan uppáhaldsvef með stafavíxlvélinni góðu. Ég gleymdi eftir síðustu kosningar að skella inn nýju  stjórnarflokkunum ... sem ég er reyndar ansi hreint fúl út í fyrir að hafa látið viðgangast að senda tvær konur (sú yngri, unglingur á leið í próf) út í óvissuna í dag, á meðan erlendar mafíur og glæpaklíkur fá að vaða hér uppi og hættulegur ofbeldismaður þurfti fimm löggur til að gæta sín í dómsal (reyndar kominn með vernd).

Útlendingarnir okkar (flóttamenn og innflytjendur) vinna störfin sem við nennum ekki að vinna, þau kaupa ódýru bíldruslurnar sem við keyrum ekki lengur, halda uppi strætó, bæði sem farþegar og bílstjórar, eru ómetanleg fyrir góðgerðasamtök á borð við Samhjálp og Hjálpræðisherinn með sjálfboðavinnu (óháð trú) og fleira og fleira. Heimurinn er bara orðinn þannig að við getum ekki litið undan og látið sem það komi okkur ekki við.

 

Jæja, stafavíxlið ... Ég vel bara það andstyggilegasta sem kemur:

 

Flokkur fólksins: Loksins KFUK-flór.

Samfylkingin: Fylgsni minka eða  Fiskinn mygla ...

Viðreisn: Sviðin er ... (allt of fáir stafir til að fá fútt í þetta)

 

Hinir flokkarnir

Miðflokkurinn: Lokkum inn frið (ég er ekki að grínast)

Sjálfstæðisflokkurinn: Skjákort fulls fæðis.

Framsóknarflokkur: Karlakór forns KFUM.

Vinstri græn: Svitinn grær.

Náði ekki Lýðræðisflokknum sem bauð sig fram síðast, eða Sósíalistum, hvað þá Pírötum, prófaði meira að segja að setja Píratapartý (það er samt ekki Ý í partí, krakkar) en vélin treysti sér ekki til að finna eitt einasta útíhött-orð hjá þeim. Takk samt, Elías!

Sjálf er ég: Aldraður hrísguð, eða Draugur sarð hlíð ... 

 

Nokkrar konur eru næstar (ekki svona hræddur, Snorri) og hér leita ég ekki að því andstyggilegasta, það má hlæja að flokkum á þennan hátt en síður fólki, finnst mér.

 

Sama hvað ég reyndi að setja Þorgerði Katrínu inn, vélin náði ekki að búa til ný orð fyrr en ég setti inn Katrín Gunnarsd og þá komu tillögur á færibandi. Svo þurfti ég að finna nafnið á föður Ingu Snæland (althingi.is) sem er Ástvaldur, til að fá eitthvað út úr hennar nafni, það kom ekkert bara með Ingu Snæland einni. Hér eru sem sagt formenn stjórnarflokkanna, rektor HÍ, lögreglustjórinn, forsetinn og biskupinn, sumar fá eina merkingu, aðrar fleiri ef ég gat ekki gert upp á milli:

 

Inga Sæland Ástvald: Ágæta vald landsins, Ágæta vill dans dans, Ásældist vagnaland.

Kristrún Frostad: Kúrdi snart frost (sem passar alveg ef Mette fær að ráða útlendingamálum hér) ... Dúfnakorr strits.

Katrín Gunnarsd: Danskur tanngír ... Andríkt garn uns ...

Silja Bára: Sjáir bala.

Sigríður Björk: Kjurr bíði grös.

Halla Tómasdóttir: Dómstólar hitta al ... Matarsódi hló latt.

Guðrún Karls Helgud: Garðhús und gullker.


Bloggfærslur 3. apríl 2025

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 96
  • Sl. sólarhring: 222
  • Sl. viku: 700
  • Frá upphafi: 1523450

Annað

  • Innlit í dag: 88
  • Innlit sl. viku: 622
  • Gestir í dag: 87
  • IP-tölur í dag: 86

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Vigdís og Halla
  • Hvað er svona sæt kona eins og þú að ...
  • Stigagangurinn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband