Spennandi borgarlíf og ofurköttur í yfirþyngd

SófamorðinginnReykjavíkurhamingjan eykst með hverjum mánuði, er alveg óhætt að segja, en það tekur alltaf tíma, ekki bara fyrir ketti, að venjast nýjum aðstæðum. Mun samt eilíflega sakna Akraness, fólksins þar, himnaríkis og útsýnisins. Þótt ég sé langt frá því að teljast ellihrum, enda á fullu í vinnu, strætóferðum, kaffihúsahangsi og Sorpuferðum með systur minni, svo fátt sé talið, er auðveldara að hafa flutt núna en til dæmis eftir tíu ár. Og hér í bænum er næstum allt mitt fólk sem ég hitti nú þúsund sinnum oftar en á meðan ég bjó á Skaganum, og það gefur hamingju. Svo finnst mér líka mikið frjálsræði fólgið í því að geta hoppað upp í strætó og farið nánast hvert sem er þótt t.d. hviður á Kjalarnesi séu yfir 30 m/sek.

 

Mosi köttur (10) hefur þyngst til muna eftir flutningana, enda enginn Keli til að leika við hann - leiserpenninn er bara spennandi í 18 sekúndur. Krummi (13) er eldri og virðulegri og nennir ekki að leika, hefur aldrei verið fyrir slíkan barnaskap. Hann tók sig til um daginn, stökk upp í sófa og hviss, bang, sófinn brotnaði ... eða fótur undan honum. Ég sagði alla vega hirðsmiðnum mínum frá því og sá ætlar að koma og laga herlegheitin nú í vikunni. Hefði ég sagt að löppin (ég lét setja nýjar lappir, sófinn var svo lágur) hefði skoppað undan þegar ég færði sófann ögn til, hefði hann ekki mætt strax, nú er hann svo forvitinn að sjá þennan feita kött sem fer svona með sófa ... Ég hef, aftur á móti, lést, fleiri hæðir að ganga upp og miklu meiri hreyfing almennt. Úr 15 skrefum á dag upp í hátt í 5.000 suma dagana. Það hefur afleiðingar fyrir útlínurnar.

 

MYND: Mosi stoltur eftir skemmdarverkið!  

 

Sófamorðingi 2Tvær mjög eftirminnilegar strætóferðir voru farnar í síðustu viku. Sú fyrri hófst nú strax á stoppistöðinni þegar unglingur í hettupeysu og hélt í rafhlaupahjól reyndist vera vel fullorðinn maður með ráma rödd. „Fyrirgefðu, viltu ekki fá þér sæti,“ sagði þessi elska en hann hafði áttað sig á því að hjólið varnaði mér vegar að bekknum í skýlinu. Ég afþakkaði kurteislega en þakkaði fyrir hugulsemina. Í strætó settist ég í gamlakarlsmeðstaf-sætið, enda ekkert gamalmenni í grennd, og fyrir aftan mig sat vinur ekki-unglingsins. Minn maður heilsaði honum hjartanlega og sagðist hafa verið að sækja hjólið sitt hjá helvítinu honum Robba sem hafði stolið því. „Mig langar svo að drepa hann,“ sagði minn maður. „Sjáðu, ég er með nóg af vopnum,“ bætti hann við og fletti greinilega frá sér peysu, eða lyfti henni upp. Vinur hans bað hann lengstra orða að láta ekki sjást í þetta, enda ávísun á löggu og sérsveit, ráðlagði honum líka að sleppa því að drepa helvítið hann Robba. Ég reyndi að láta baksvipinn á mér virka hæfilega áhugalausan, horfði út um gluggann eins og ég heyrði ekki orðaskil. En ef einhver Robbi deyr á grunsamlegan hátt getur löggan talað við mig.

 

Daginn eftir ók ég með strætó eftir Sæbraut og við fórum svo inn aukastrætógötuna á Kleppsvegi, þarna fyrir neðan, m.a. Laugarásbíó og Hrafnistu ... ég var ekki að horfa, heldur svara skilaboðum í gemsanum, svo ég veit ekki almennilega hvað gerðist, nema strætó keyrði á fullu á bíl, alla vega framhlutann, sem kom út úr bílastæðinu þarna, virtist vera. Okkur farþegum var hent út (rólega, blíðlega) og sagt að bíða eftir næsta strætó sem kom korteri seinna. Ég legg alltaf snemma af stað sem borgaði sig aldeilis þarna því ég mætti á réttum tíma í vinnuna.

 

MYND 2: Mosi gerði tilraun til að brjóta borðstofuborðið líka ... 

 

HjúkrunarneminnÞegar fólk býr svona eitt verður það stórskrítið með tímanum. Ég áttaði mig á því fyrst í dag. Fékk SMS frá Eldum rétt um að það væru 23 mínútur í matarkassann minn. Var að lesa yfir ritgerð og hlustaði á YouTube-ýmislegt-listann minn á meðan. Þá ákvað ég að láta lagið sem hljómaði um leið og sendillinn frá Eldum rétt hringdi dyrabjöllunni yrði lýsandi fyrir líf mitt í komandi viku. Creep með Radiohead var búið, sjúkk og þegar hann lagði bílnum á stæðinu hér fyrir utan hljómaði Stun Gun með Quarashi ... hvað skyldi það nú merkja. Það kláraðist þó áður en bjallan hringdi og lagið Fu-Gee-La með Fokkís byrjað. Nú bitnar illilega á mér að kunna enga texta, ég hlusta yfirleitt bara á lagið á meðan flestir vinir mínir njóta bæði lags og texta ... Svo mætti ég alveg vera betri í ensku þótt ég geti bjargað mér (munið, ég er manneskjan sem skildi ekkert í öllum þessum dýralæknum í hernum, í sumum bókum sem ég las á ensku).

 

Elskan hún mamma hefði orðið 91 árs í dag. Hún dó fyrir þremur árum, södd lífdaga, trúði því staðfastlega að Mínerva amma, systkini hennar og ýmsir fleiri tækju á móti henni hinum megin. Hún starfaði alla tíð sem hjúkrunarfræðingur og seinni árin á Kleppi, hugsa oft til þess hvað það hefði verið gaman að fá hana í kaffi hingað í Skýjahöllina fyrir vakt eða eftir vakt en hún hlammaði sér í helgan stein 2004 og einbeitti sér að því að lesa góða krimma og ráða krossgátur til að halda heilanum sprækum. Ekki slæmt.

Myndin sýnir hjúkrunarnemann Bryndísi á sjötta áratug síðustu aldar.

 

Ég verð með matarboð á eftir fyrir gamla vinkonu sem kann að meta góðan mat og eldar sjálf besta matinn. Ég óttast ekkert, Eldum rétt er meðetta og heldur uppi heiðri mínum.

Allt um matarboðið og miklu fleira á morgun. Nú þarf ég að fara að undirbúa gestakomuna. P.s: Ef þið þekkið/skiljið textann við Fu-Gee-La með Fugees væri fínt að vita hvað komandi vika ber í skauti sér ... Veit kannski á gott veður? 

       


Bloggfærslur 5. maí 2025

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 278
  • Frá upphafi: 1526158

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 255
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Hjúkrunarneminn
  • Sófamorðingi 2
  • Sófamorðinginn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband