Allt þegar þrennt er, kaffistríð og dularfulla sjalið

Afmælisterta 2025Afmælisveisla var haldin hér með pomp og prakt þann tólfta, þar sem 150 allra nánustu var boðið í tertur og almennilegt kaffi. Um það bil helmingur sá sér fært að mæta sem þykja fínar heimtur á þessum árstíma. Ekki stórafmæli en samt ákveðin tímamót. Set alltaf réttan aldur minn á afmælistertuna (sjá mynd) en lýg um aldur þess á milli, sem táknar að það koma alltaf ótrúlega margir í afmælið til að vita ... Gjafir, sérstaklega blóm (vegna kattanna), stranglega bannaðar. Ég bjó til hóp á fb í stað viðburðar (gleymissualltaf) og var eilífðartíma að fara í gegnum vinaskarann á fb, og gaf mér svo aldrei tíma til að fara aftur í gegnum hann ef einhver hefði gleymst, ég var þreytt og syfjuð, reyndi bara að senda öllum velkomnum sterkt hugskeyti en sennilega án árangurs ... Það komu talsvert fleiri Reykvíkingar núna en síðustu 18 árin, og meira að segja fólk úr Keflavík sem hafði aldrei nennt á Skagann, svo með tilliti til afmælis var rétt af mér að flytja ... Samt var ég búin að fá því framgengt fyrir nokkrum árum að gestir mínir yrðu aldrei framar rukkaðir í Hvalfjarðargöngunum! Ég veit núna að ég hefði frekar átt að leggja áherslu á bensínverðið - halda því lágu.

 

Mynd af tertunni (úr Bernhöftsbakaríi). 

 

Flottir afmælisgestirÉg uppgötvaði í afmælinu, mér til gleði og furðu að ég er ansi vel tengd - sem er sjúklega gott á þessum síðustu og verstu. Í afmælið mætti fólk með sterka tengingu við meðal annars: Geislavarnir ríkisins, fréttastofu RÚV, Staðlaráð Íslands, Oz, gamla DV, Albaníu, Litlu KMS, Sólheima og almættið, svo fátt sé talið. Er fjúkandi reið út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki verið með gestabókina uppi við eða duglegri að taka myndir, en þetta var svo mikil klikkun* - sérstaklega þarna fyrst - að ég hafði ekki einu sinni tíma til að mála mig. Segi kannski ekki að ég hafi verið eins og vélsagarmorðingi útlits ... en litlu mátti muna.

 

Forsagan:

Elsku systir mín og allsherjar bjargvættur, sótti fyrir mig aðkeyptu veitingarnar upp í sveit (takk, Myllan) og kom með, ásamt því sem hún hafði sjálf útbúið (peruterta og marens), en hófið átti að hefjast kl. 14, ótrúlega snemma í fyrsta sinn, og á þriðjudegi. Sá fyrir mér að gestir gætu þá flestir fengið sæti ef dreift væri vel úr komu þeirra ... íbúðin mín mun minni en himnaríki. Kvöldið áður hafði ég fengið heimsenda kaffivél og þrjá brúsa sem fyrirtæki handan götunnar mátti sjá af.

 

*KLIKKUNIN: 

Klukkan hálftvö fékk systir mín, þá nýkomin með veitingarnar, símtal og var óvænt kölluð út í vinnu. Ég var þar með ein eftir til að ganga frá kökum, hella upp á þrjá brúsa, mála mig og ... sem sagt ekkert sem ég gæti ekki ráðið við. Nema kaffivélin virkaði ekki. Ég hringdi í vin minn handan Sæbrautar sem lofaði að koma fljótlega með aðra vél. Svo hringdi konan sem gerði rækjubrauðtertu afmælisins, alveg í rusli því hún hafði misst tertuna í gólfið heima hjá sér! Ok, allt er þegar þrennt er, hugsaði ég með mér ... hjálparkonan tekin úr leik, kaffivélin svo sem líka og rækjubrauðtertan ... þetta hlyti að vita á skemmtilegustu veislu ársins - sem reyndist vera rétt. Svo komu mömmur.is með brauðmeti og fleira gómsætt sem bjargaði miklu, elsku dúllurnar. Það komu svo margir ... og allir með pakka þótt það væri bannað. Reyndar allt mjög nytsamlegt; sokkar, bíómiðar, bröns fyrir tvo, rauðvín, ruggustóll, handáburður, hanskar, bækur og annað algjörlega sjúklega dásamlegt. Vinir mínir sem ég hef valið og bauð bara vegna útlits eru einnig mjög, mjög smekklegir. Eina sem ég er í vandræðum með er mjög fallegt prjónað sjal sem ég veit ekki frá hverjum er. Enginn merkimiði.

Ég hef tiltölulega nýlega beygt reglurnar fyrir vini mína sem máttu aldrei taka börnin sín með í afmælið ... en aðeins ein vinkona þorði í ár, með dóttur og tengdason á fimmtugsaldri. 

 

Við KeliAlltaf þegar nýtt kaffihús opnar fyllist ég forvitni og ein spurning kviknar: Hvaða kaffitegund verður í boði? Þá á ég ekki við latte, cappuccino eða slíkt, heldur hvort það verður kaffi frá t.d. Te og kaffi, Kaffitári, Kaffibrugghúsinu, Valeria eða Vífilfelli ... Nýtt kaffihús opnaði nýlega í Hafnarfirði í sama húsnæði og dásamlegt kaffihús var áður. Gladdist yfir því að kaffihússmenningin héldi áfram þar og ákvað að fylgja nýja kaffihúsinu á Instagram, allt var tekið í gegn og gaman að fylgjast með flottum endurbótunum. Ég sendi fyrirspurn fljótlega: Hvaða kaffitegund ætlið þið að bjóða upp á? en fékk ekki svar ... heldur ekki þótt ég spyrði aftur, mjög kurteislega. Svo var boðið upp á að spyrja spurninga um kaffihúsið og ég endurtók mína ... en enn ekkert svar. Nú er búið að opna og allt virðist svo flott og fínt, girnilegt meðlæti, vín og alles, en ekkert um kaffið. Það var eins og haldið væri að ég ætlaði að vera með dólg ... oj, ætlið þið að vera með þetta, ömurlegt ... bla bla, sem ég hefði aldrei gert. Mér fannst þetta eðlileg spurning og sama hvert svarið hefði verið Jamaica Blue Mountain (dýrasta kaffið en allt of milt fyrir plebbann mig) eða Gevalia (strangheiðarlegt heimiliskaffi) og allt þar á milli, hefði ég þakkað fyrir svarið. Ég hef alltaf gert þetta, eða spurt hvaða kaffi sé í boði hvar sem ég kem, og ef það er ekki að mínum smekk er það bara allt í lagi. Þessi skortur á svari hefur orðið til þess að mig langar ekki lengur á nýja kaffihúsið. Hvort sem þau eru með gott eða ekki svo gott kaffi ... Mér líður eins og ég hafi lent í styrjöld við kaffihús og báðir aðilar tapað. Þau missa mig sem viðskiptavin og ég missi kannski af geggjuðu kaffi ... afsakið dramað.

Var einmitt á frábæru kaffihúsi í dag með ástkærri vinkonu, Te og kaffi í Borgartúni. Við förum eiginlega til skiptis þangað og á Kaffi Vest. Held að Kaffi Vest sé með Kaffibrugghúss-kaffi sem er mjög gott, Kólumbíukaffið 2018 frá þeim er eitt besta kaffi sem ég hef smakkað ... fékk það í Rjúkanda á Snæfellsnesi og bíð spennt eftir næsta svona góðum árgangi. Annars þrái ég mest af öllu að Valeria (Grundarfirði) fari að selja kaffið sitt í Reykjavík.

 

Myndin er af okkur Kela, en núna 19. ágúst er liðið ár síðan þessi frábæri, dásamlegi köttur yfirgaf sviðið og er enn sárt saknað af öðru heimilisfólki hér. Myndin var tekin 2016 þegar ég sat við að hekla veðráttuteppi með góðri hjálp elsku Kela. 

 

Ruggustóll og sjalStráksi kom auðvitað í afmælið á þriðjudaginn fyrir viku og stoppaði í nokkra daga sem var mjög gaman. Hann fór ekki heim fyrr en á sunnudagskvöldið. Elskan hún Tinna Royal (sem gerir flottasta skraut í heimi á jólatré) er með sýningu hjá Gallerí Fold við Rauðarárstíg og við fórum að sjálfsögðu á opnunina á laugardaginn. 

Tókum leið 12 og ætlunin var að fara út á Hverfisgötu við Barónsstíg og kíkja á kaffihús þar í grennd, en framkvæmdir þar einhvers staðar urðu til þess að við fórum beinustu leið niður á Lækjartorg frá gömlu Rúgbrauðsgerðinni við Borgartún. Sem var ekkert nema skemmtilegt.

Ég veit eiginlega ekki hvað hefur orðið af gömlu Gurrí sem hataði fátt meira en gönguferðir en sá þarna fínasta tækifæri til að fjölga skrefum sem hafa verið sorglega fá í sumarleyfinu.

Við sem sagt gengum frá Lækjartorgi upp á Hlemm sem var ógurlega gaman. Skref laugardagsins urðu 4.377 og miðað við rúmlega 557 skref dagsins í dag er það skrambi gott.

Mér finnst miðbærinn svo mikið æði núna, lífið og litirnir, fólkið og gleðin, miðað við tilveruna þarna t.d. á áttunda áratugnum þegar ég var unglingur og allt var frekar grátt og harðbannað. Hefði maður ekki átt bækur til að lesa og plötur til að spila ... Það var nú margt æðislegt líka þá - en miklu litríkara núna.

 

Mynd: Ruggustóllinn ægifagri sem vinafólk (sem vissi hvað ég hef alla tíð þráð slíkan stól) og flotta dularfulla bleika sjalið sem ég veit ekki hver gaf mér. Hvar eru Finnur og Dísa, Jonni, Júlli og Anna litla, eða Georg og jafnvel Kíkí? Þau hefðu nú ekki verið lengi að leysa þessa ráðgátu.    


Bloggfærslur 21. ágúst 2025

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.8.): 9
  • Sl. sólarhring: 120
  • Sl. viku: 426
  • Frá upphafi: 1531995

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Ruggustóll og sjal
  • Við Keli
  • Ruggustóll og sjal

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband