Eldfjörugt samkvæmislíf og nokkrir Norrisar

Afmæli KópAfmælisboð í Kópavogi í dag, 13 ára gutti sem varð forríkur eftir daginn, tókst að safna fyrir því sem hann langaði í, elsku krúttið. Ég gaf honum líka pening en þar sem ég geng ekki með seðla á mér varð ég að koma við í hraðbanka. Ég prófaði heima að gúgla „hraðbanki Hamraborg“ og áttaði mig allt í einu á því að algórythminn myndi hnippa harkalega í lögregluna, jafnvel sérsveitina, svo ég hljóp út í hvelli. Það upphófst æðisgenginn flótti en þótt ég þyrfti að bíða í átta mínútur eftir tólfunni var eins og lögreglan sæi mig ekki ... við strætófarþegar erum svo sem allir eins. Klakklaust komst ég í Kópavog, takk, leið 12 og leið 4, og tókst að komast yfir fé úr hraðbanka í grennd við Katalínu. Fyrst gekk ég í kringum allt Landsbankahúsið í Hamraborg án þess að sjá nokkur merki þess að þar væri hraðbanki, en hann er samt þarna, heyrði ég nokkru síðar. Skaust svo inn í dýrðarinnar afmælisveislu (án þess að löggan næði mér) með brauðtertum, kjúklingaspjótum, marens og súkkulaðitertu.

 

Ókunnur maður nánast tók mig á löpp í afmælinu - ég er alla vega enn rjóð og undirleit. Þar sem ég bý í 104 Reykjavík, eins og hann, sagði hann að ég væri Þróttari. Ég veit ekki hvað það er, en það hljómar eins og dágott hrós. Svo þegar hann talaði um að við hlekkjuðum okkur saman, leiddu hugrenningartengsl mín mig beint að trúlofunarhringjum. Ansi langt gengið eftir 20 mínútna kynni ... en lífið er svo sem of stutt til að þiggja ekki alla rómantík sem býðst.

Ég minntist á þetta (eftir að nýi "unnustinn" var farinn) við tilvonandi mág minn, eða bróður mannsins sem segir mig þróttara, og vill svo skemmtilega til að er tengdasonur litlu systur, hvað væri gaman að fá svona bónorð í fyrsta sinn sem við hittumst. Aðdáandi minn er að vísu áratugum yngri en ég og víst hamingjusamlega giftur og á krakka og allt, en ástin spyr ekki um aldur. Tengdasonur systur minnar (TSM, héðan í frá) vildi meina að bróðirinn hefði átt við að við myndum hlekkja okkur saman við jarðýtu EF svo hroðalega færi að Sundabraut kæmi upp á hlaðinu hjá okkur, eða við Holtaveg sem myndi sannarlega ekki þola alla þá umferð sem kæmi, hvað þá Laugardalur vors og blóma. Mér fannst TSM ansi snöggur að finna upp svo ótrúlega sögu, bara til að þurfa ekki að verða mágur minn, það getur varla verið að svo mikilli umferð verði beint í svo stórt en þröngt íbúðahverfi ... og það getur heldur varla verið svo hræðilegt að verða mágur minn!

 

Nanna sjálfÉg varð þess mikla heiðurs og gleði aðnjótandi nýlega að vera boðið að vera viðstödd þegar Nanna, vinkona til áratuga, fékk Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Það var einstaklega gaman að koma í Höfða, ég hafði aldrei komið þangað þótt ég hafi nánast verið með annan fótinn á Bessastöðum (tvisvar). Líka gaman að heilsa upp á borgarstjóra og þakka henni kærlega fyrir strætó ... eða tíðari ferðir núna nýlega.

 

Mikið hlakka ég til að lesa bókina hennar Nönnu, bæði glæpasöguna fyrir fullorðna og verðlaunabarnabókina. Nanna er skemmtilegur og góður penni og henni algjörlega að þakka að ég fékk 8 í dönsku í landsprófi á Króknum.

 

Þann sjötta þessa mánaðar stökk ég upp í strætó, leið 12 sem ber mig í flesta miðpunkta lífs míns, Mjódd á meðan ég bjó á Akranesi, og í hina áttina niður í miðborg Reykjavíkur. Að þessu sinni hélt ég sem leið lá niður á Lækjartorg til að mótmæla þjóðarmorði á Austurvelli. Ég er ekki sérlega pólitísk (held ég sé bara í Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum núna) en er gjörsamlega ofboðið yfir sinnuleysi heimsins. Mikið sem framtíðin á eftir að dæma okkur - eins og við dæmdum nasista fyrir viðbjóðslega meðferð þeirra á gyðingum og aðgerðaleysi heimsins. Aldrei aftur ... sögðum við. 

 

6. sept. 2025 ghÁ mótmælunum hitti ég dásamlega konu og stóð við hlið hennar allan tímann (áður en ég þurfti að fara í barnaafmæli í Grafarvogi eftir klukkutíma, vissulega fjörugra samkvæmislíf eftir að ég flutti í bæinn.

 

 

Þetta var sjálf Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur með meiru, sem hefði sómt sér vel sem forseti Íslands þarna 1996. Þegar ég var au pair í London á síðustu öld, hjá elskunni henni Katrínu Fjeldsted lækni og fjölskyldu hennar, kom Guðrún í heimsókn þangað, er frænka Katrínar, og mér hefur líkað sérlega vel við hana alla tíð síðan.

 

Hitti líka konu sem vann með mér hjá Húsnæðisstofnun ríkisins 1995-1998, og hún minnti mig á að ég hefði verið í dýrlingatölu hjá börnum hennar ... fyrir að hafa tekið X-Files upp fyrir þau á þessum tíma, ég var áskrifandi að Stöð 2 en ekki hún. Ég hafði hitt þessa konu áður, í Hagkaup Skeifunni, og verið alveg brjáluð út í sjálfa mig fyrir að muna svona vel eftir henni en samt EKKI nafn hennar (ekki í fyrsta sinn). Ég mundi meira að segja hvar hún fór að vinna eftir að hún hætti hjá Húsó. Hún hefur fundið þetta á sér núna því hún kynnti sig með nafni. Nú mun ég aldrei gleyma nafni Katrínar.

 

Ég og nöfn nefnilega, til er andlitsblinda, ég er ábyggilega með nafnablindu og hef verið mjög lengi ... það er svo erfitt í kennslunni ef nemendur mínir gleyma að skella heimatilbúna nafnspjaldinu á borðið fyrir framan sig. Mun þó aldrei gleyma því þegar Jesús og Kristina settust hlið við hlið í tíma hjá mér ... mér fannst það mjög krúttlegt. Frá fyrsta degi man ég þó frá hvaða landi nemendur mínir eru og get t.d. sagt: Hvernig segir þú TAKK á víetnömsku, spænsku, arabísku, persnesku, úkraínsku, litháísku, tví, úrdú, osfrv ...? Ég læri heilan helling sjálf við kennsluna, þarf samt að skrifa það niður svo það festist. Nú eru nemendur mínir færri en síðast en þá var metfjöldi, svo ég hugsa að ég verði búin að læra nöfnin í næstu viku.

Ég kenndi þeim AU í gær, og held að það sé erfiðasti stafurinn að muna. Þau þekkja Bónus, Krónuna ... og HagkAUp sem ég nota alltaf sem AU-dæmi, sundlaug er líka gott. En hvernig berum við Bauhaus fram? Báhás ... svo ég skil þau vel, svo algengt að au sé borið fram sem á. Þau neyðast til að afplána meira AU á þriðjudaginn - ég skal festa þetta í minni þeirra.    

 

Þegar ég fór síðast í klippingu á Hárhornið við Hlemm, núna á þriðjudaginn, tók ég eftir miða á speglinum hjá hirðklipparanum mínum. Þar stóð:

Hárhornið Ingvi„Klippingin hjá mér kostar 1000 kr. meira ef þú sest í stólinn nýbúin/n að reykja og angandi eins og öskubakki!“

Ég þorði varla að segja Ingva að ég hefði reykt árum saman og hætt fyrir bara rúmum fimm árum. Jesssss!

 

 

Ótrúlegt hvernig ein setning getur breytt lífi manns. Það var viðtal við lækni í sjónvarpinu, að tala um að covid legðist á lungun sem væri verra fyrir reykingafólk ... svo sagði hann örlagasetninguna: „Það er aldrei of seint að hætta að reykja.“ Og ég var hætt nokkrum vikum seinna, eftir að hafa fengið furðulegt og rándýrt lyf frá lækni ... lyf sem orsakaði miklar draumfarir ... og sífellt meiri ógleði. Mælt var með að taka lyfið inn í þrjá mánuði en ég þoldi bara sex vikur. Um það bil tveimur árum seinna var ég að hugsa um að falla ... og fékk smók hjá vini. Lyfið virkaði enn, þetta var nú meiri viðbjóðurinn. Lungun öskruðu af hryllingi og ég lét af þessu rugli. Endanlega vonandi.

 

Önnur örlagasetning var reyndar titill á bók. Ég var voða skotin í manni og óviss um tilfinningar hans til mín, reyndi að finna allar heimsins afsakanir fyrir "feimni" hans í minn garð. Svo rak ég augun í heiti bókarinnar Hann er ekki nógu skotinn í þér! og fékk hugljómun. Ég hafði ekki tekið þennan möguleika með í reikninginn og hann reyndist vera sá rétti. Mikil frelsun.

 

Nokkrir Chuck Norrisar:

Chuck Norris

-Ef þú nærð að stafa Chuck Norris í Skrafli vinnur þú, um alla framtíð.

 

-Þegar guð sagði: „Verði ljós“ sagði Chuck Norris: „Segðu gjörðu svo vel!“

 

-Almanak Chuck Norris fer beinustu leið frá 31. mars til 2. apríl því enginn platar Chuck Norris.

 

-Chuck Norris getur haft báða fætur á jörðinni um leið og hann sparkar í rassinn á einhverjum.

 

-Myrkrið óttast Chuck Norris.

 

-Chuck Norris getur spilað á fiðlu með píanói.

 

-Chuck Norris getur búið til snjókarl úr rigningu.

 

-Chuck Norris getur reimað skóna sína með fótunum.

 

-Chuck Norris er ástæðan fyrir því að Valli feldur sig.

 

-Chuck Norris kryddar nautasteik með piparúða.

 

-Chuck Norris getur klappað með annarri hendinni.

 

-Freddy Krueger fær martraðir um Chuck Norris.

 

-Jólasveinninn var til í alvörunni þangað til hann gleymdi að gefa Chuck Norris í skóinn.


Bloggfærslur 20. september 2025

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 37
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 149
  • Frá upphafi: 1533379

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 132
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Chuck Norris
  • Hárhornið Ingvi
  • Hárhornið Ingvi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband