Grillaðar spákonur í hádeginu

Við ræddum um spákonur í hádeginu, enda var lasagna (og pítsur) í matinn. Í ljós kom að enginn karlanna við borðið hafði farið til spákonu, þeir viðurkenndu heiðarlega að þeir þyrðu hreinlega ekki að láta spákonu segja eitthvað mögulega leiðinlegt. Konurnar höfðu nokkrar farið og reynslusögur þeirra voru misjafnar. Ég sagði þeim frá því þegar ég fór til árulesara fyrir mörgum árum. 

Konan bað mig um vinnuskipti en ég þótti ágætur tarotlesari einu sinni, kunni á spilin en ekki með vott af miðilshæfileikum eða löngun til að sjá lengra en nef mitt nær. Þegar ég var búin tók hún við.

Eina sem ég man af þessu er að konan sagðist aldrei hafa séð jafnmikið af gulum litum í kringum nokkra manneskju áður. „En gaman,“ sagði ég, en það sem ég heyrði var: „Hún þarf örugglega á uppörvun að halda þessi, best að segja eitthvað fallegt við hana.“ Ekki það að mér finnist ég vitlaus, onei, ég er Þingeyingur aftur í ættir og sem slík veit ég að ég er klár ... og best. Þingeyingar eru taldir afar montnir sem er þvílíkt bull sem ég afsannaði með því að segja engum frá þessu með gulu áruna mína. Árukonan var fremur þekkt á þessum tíma og mjög vinsæl.

Ekki leið á löngu þar til vinkonur og frænkur sögðu mér frá ferðum sínum til konunnar og ekki brást það að allar höfðu þær svo mikið af gulum litum í kringum sig að árukonan hafði aldrei séð annað eins ... Ég gat ekki hugsað mér að skemma gleði þeirra, þær þurftu greinilega pepp, enda ekki Þingeyingar.

SpákonanOg þegar Hilda systir dró mig til einhverrar nýrrar spákonu í Sólheimum sem beit það í sig að ég væri óábyggileg í fjármálum, það var fúlt. Hún sagði m.a.: „Þú verður að semja við lánardrottna þína!“„Ha? Ég er í greiðsluþjónustu Búnaðarbankans og er ekki í neinum vanskilum!“ svaraði ég steinhissa. En konan hélt áfram að bulla ... Ég varð ekki reið fyrr en daginn eftir.

Æi, ég er löngu hætt að nenna til spákvenna. Mér er í raun alveg sama hvort það er draumaprins í kortunum, happdrættisvinningur í farvatninu eða hvort ég hafi verið herðatré eða handrið í fyrra lífi.

Ég var einu sinni pínd á fyrirlestur þar sem fyrirlesarinn hélt því fram að einn skjólstæðinga sinna hefði verið lækur í fyrra lífi!!!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Mest um vert er að lifa þessu blessaða lífi LIFANDI og gera sem best úr öllu.  Lífið hefur upp á svo margt skemmtilegt að bjóða og hvort sem við höfum verið mosar í fyrra lífi eða annað þá .... horfa fram á veginn og muna að vandamálin eru dulbúin tækifæri!  Skemmtilegt samt að spá í stráka og spekulera í hvað maður eigi að borða um helgina (etthvað grennandi) .....

www.zordis.com, 26.1.2007 kl. 17:48

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Iss; Fá ekki allir sömu rulluna sem fara til spákonu... Ferðalag framundan og breytingar á næsta leiti! Fór til spákonu þegar ég var um tvítugt og hún sagði mér að þegar ég gifti mig yrði svakalega mikið af fólki í brúðkaupinu mínu, ég ætti eftir að eiga 3 stráka og eina stelpu. Um leið og hún nefndi giftinguna fattaði ég hvað ég var vitlaus að láta plata mig út í þetta. Vissi (var amk nokkuð viss) þá að ég myndi ekki gifta mig. Ég á tvær dætur. Strákarnir þrír hafa greinilega farið á betri stað :)

Heiða B. Heiðars, 26.1.2007 kl. 19:17

3 Smámynd: Ólafur fannberg

grillaðar spákonur í snakk takk

Ólafur fannberg, 26.1.2007 kl. 22:30

4 identicon

Gerðu ekki grín af fólki sem hefur verið fagurt landslag eða lækjaspræna í fyrra lífi. Sjálf var ég stafafura og lauk lífinu sem illa skreytt jólatré hjá frekar ófríðri fjölskyldu á Hellu.

kikka (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 11:25

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sumar spákonur eru alls engar spákonur. Það eru bara kellingar sem spá og spekúlera út í loftið. En svo eru hinar. Úúúúúúú.....rammgöldróttar og sjá í gegnum holt og hæðir og hvort viðskiptavinurinn hafi verið fiskur eða fjósapúki í fyrra lífi. Annars finnst mér best að spá fyrir sjálri mér því þá get ég raðið öllu. Man eftir einni sem spáði svo illa og ljótu að ég var í marga daga að jafna mig eftir þá hörmungarspá. Þannig spákonum á auðvitað bara að breyta í froska og fela spilin þeirra. Annars er eins spámær í miklu uppáhaldi hjá mér því hún sér alltaf allt geggjað og gott í lífi mínu. Eins og ég sé aðalpersónan í Dallas, rík fögur, fræg og frygðarfull. Með draumaprins í bandi. Og henni má alls ekki breyta í neitt.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 27.1.2007 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 80
  • Sl. sólarhring: 83
  • Sl. viku: 214
  • Frá upphafi: 1529988

Annað

  • Innlit í dag: 66
  • Innlit sl. viku: 182
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 61

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Desember 2018
  • Einarsstaðir
  • Ég er rík

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband