Dagur hinna tíu handklæða

Alltaf tveir ...Veðrið hefur verið ósköp skítsæmilegt hér við sjóinn, þannig séð, gluggar orðnir tandurhreinir fyrir jólin, eins og þetta hafi verið sérstaklega pantað, en við höfum svo sem ekki prófað að fara út, þetta er bara samkvæmt sérlegri gluggarannsókn. Aðalfjörið hefur víst verið undir Hafnarfjalli og svo var líka hvasst á Kjalarnesi, flott hjá strætó að fara ekki. Að vísu er austurhlið Himnaríkis viðkvæmari í svona blautu veðri og ég þarf einhvern veginn að loka betur eldhúsglugga og litlusvalahurð til að lárétt regnið (8 mm) frussist ekki inn. Nætur hinna þúsund handklæða eru löngu liðnar hér, hélt ég, en þetta er svo sem ekkert venjulegt veður. Eiginlega svolítið dagur hinna tíu handklæða, eldhúspappírs og dagblaða.

 

Þegar myndin var tekin, lék allt í lyndi í eldhúsglugganum, enda veður í rólegri kantinum, nú snemma í haust. Þarna sannast mál mitt að karlar kjósi alltaf að koma tveir og tveir saman í Himnaríki; löggur, vottar, sendlar, smiðir, rafvirkjar, organistar, garðyrkjumenn o.fl. Ég endurnýti þessa mynd því ég á erfitt með að setja inn nýjar myndir, kannski er Moggablogg að refsa mér - eða ég hef farið yfir mörk í notkun mynda? 

 

Það að ég skuli voða lítinn mun sjá á svíninu sem er í vörumerki Bónus, gæti þýtt að ég eigi lítið erindi í rannsóknarlögregluna sem mér finnst virðast spennandi starf en krefst án efa góðrar eftirtektar. Sumir eru að missa sig, nötra og skjálfa af hryllingi þegar þeir sjá nýja svínið, ég sé engan mun, þetta er bara teiknað svín, bara vörumerki ... sem ekki grafískur hönnuður æsi ég mig ekkert yfir einu eða neinu svona, frekar yfir skiltum sem grafískir hönnuðir hafa sett upp og ekki hirt um að láta lesa yfir ... þannig að hástafir eru kannski í hverju orði. Það er ekki flott, það er rangt. Það pirrar mig en ekki alveg alla.

 

Ef ég verð einhvern tímann uppgötvuð sem Snapchat-áhrifavaldur, og aðdáendur mínir verði fleiri en 30 (þarf bara að muna að snappa oftar og ekki bara af kisunum) ætla ég ekki að breyta mér ... heldur halda áfram að vera svona æðisleg eins og ég verð ef ég breyti snappinu mínu aðeins. Hef séð nokkra uppgötvast í gegnum t.d. Íslendingar í útlöndum, fólk fer að fylgja þeim - eftir þessa þrjá leyfilegu daga á þeim miðli - og fer að krefjast þess að fólkið tali meira og sjáist oftar - og þar með er skaðinn skeður. Allt í einu fer hressa fólkið að sitja fyrir framan símann sinn og tala í óratíma um ekkert, segja skoðun sína á öllu, bara til að geðjast aðdáendum sínum og sjást meira - og skemmtilegheitin hverfa. Fyrir kisuaðdáendur er ég gurrih - en ég get ekki sagt að ég sé mjög virk eða sérlega skemmtileg en kettirnir bæta það upp.

 

Ég ætla að gera eitt sem ég geri aldrei, ætla að leggja mig, þetta veður sem mér finnst ekkert athugavert við, gerir mig svo syfjaða. Samt svaf ég næstum til hádegis. Ég þrái að leggjast ofan á rúmteppið og loka augunum í klukkutíma áður en ég fer að elda ofan í okkur stráksa. Nú skil ég betur þegar fólk talar um kósíheit undir teppi í vissu veðri ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 137
  • Sl. viku: 563
  • Frá upphafi: 1525319

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 488
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Vettvangsmynd
  • Seinni hluti
  • Fyrri hluti

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband