Ljótustu jólapakkar landsins og allt um blóðflokka

Pakkinn til Míu sysÞegar við Hilda vorum í Costco á dögunum benti hún á þykkan bunka af brúnum höldupokum (þeir eru mjög umhverfisvænir á litinn og úr bréfi vitanlega) og nánast skipaði mér að kaupa þá ... fyrir jólagjafirnar. Held að hún sé komin með ógeð á því að opna dagblaðsinnpakkaðar gjafirnar frá mér, verða svört á fingrum og jafnvel festast í einhverri spennandi frétt í hálftíma og tefja þar með aðfangadagskvöld fyrir hinum. Auðvitað treysti ég litlu systur og í gær pakkaði ég inn nokkrum gjöfum. Í brúna höldupoka.

 

 

Það var ekki mikil gleði í því, ekki hægt að velja fréttir eða auglýsingar fyrir pakka hvers og eins, og svo þurfti tvo poka utan um of stóru gjafirnar. Fyrst fór gjöfin hennar Míu systur í einn poka, svo kom annar poki sem ég steypti yfir svo ekkert sæist í sjálfa flottu gjöfina, svo ætlaði ég að líma en límbandið var búið. Eina límandi dæmið sem var inni í skáp frammi var teipið sem ég notaði til að líma aftur svalahurðina í fárviðrum áður en Diddi hirðsmiður Himnaríkis gerði við hana. Ég átti þó pakkabönd og setti utan um í staðinn og náði að festa merkimiða ... og tveir ljótustu jólapakkar sem ég hef á ævinni séð urðu til. Hinir tveir mun skárri, enda gjafirnar minni um sig. Þetta verða samt jól hinna vistvænu en mjög svo ljótu pakka frá mér. Ekki það að ég haldi að fólk hafi hrifist af stórfenglegri innpökkun minni í dagblöð ... en þetta var svo fljótlegt, búið að „klippa pappírinn“ fyrir mig ... en klippidæmið hefur alltaf vaxið mér svo í augum, dagblöðin björguðu öllu og mér fór að finnast gaman að pakka inn.  

 

Á myndinni hér fyrir neðan reynir Krummi árangurslaust að bjarga málum. 

 

Krummi aðstoðarÉg hef reynt að ítreka við ástvini mína ... ekkert blautt í jólagjöf, takk, eins og gjafabréf í Skæla-gún. Einkasundlaug á svalirnar frekar. Mamma gaf mér eitt sinn gjafakort í Kringluna þegar ég átti enn eitt stórafmælið í ágúst 2008. Húrra, ég kaupi mér myndavél, hugsaði ég, enga rándýra, bara svona til heimanota. Mér fannst ansi tómlegt í Kringlunni þarna í sept. þegar ég kom askvaðandi með kortið, margar búðir hættar og sú eina í Kringlunni sem seldi myndavélar reyndist vera Hagkaup á efri hæðinni. Ég fékk síðustu ódýru vélina og sú var bleik og reyndist ljómandi vel þar til gemsinn minn fór að taka betri og skýrari myndir með enn minna veseni. Þetta var á sama tíma og afbrýðisamir Danir reyndu að tala niður fjármálasnillingana okkar sem keyptu kannski Harrods annan daginn og Walmart hinn. Og ég var svo hreykin af þeim.

Ég skammaðist mín seinna fyrir að hafa keypt mér flatskjá þegar gamla tækið klikkaði. Sem ég staðgreiddi fyrir mismuninn á verði íbúðar sem ég seldi og Himnaríkis, ég fór í stærra en fékk borgað á milli. Þarna erum við aftur komin að tölum, að númerum, hvað þau skipta miklu máli. Póstnúmer til dæmis. Úr 107 í 300. Ég hefði sennilega fengið íbúðina mína metna hærra ef hún hefði verið í 101 en lengjan Hringbrautarmegin var í 107, afgangurinn af húsinu mínu (gamla verkó) var í 101. Ef ég framdi afbrot fyrir framan húsið mitt í 107 nægði að ég hlypi inn, niður í kjallara og út í garðinn, í 101, og þá var ekki hægt að sækja mig til saka.

 

 

Búin að öllu fyrir jólinTölur eru allt. Ég spurði eitt sinn talnaspeking sem kom í útvarpsviðtal til mín hvað þýddi t.d. að búa í 107. 1 plús 7 eru 8 og átta er mikil peningatala, veit ég. Og er ekki forríkt lið þarna í Högum og Melum? „Þú segir nokkuð,“ sagði talnaspekingurinn sallarólegur. Ég hef grun um að þessir spekingar hafi aldrei pælt í þessu. En ... ég sá í erlendu blaði að heimilið manns geti verið í sérstöku stjörnumerki. Af því að ég flutti hingað í Himnaríki þann 10. febrúar (2006) þýðir það að heimilið er í vatnsberamerkinu. En talnaspeki húsnúmera fann ég og mitt númer er 5 (4+1) sem þýðir hugmyndir, rómantík, listir og menning. Góð tala fyrir rithöfunda, kennara, ferðalanga, íþróttafólk ... Smellpassar, fyrir utan helvítis rómantíkina. Skal leita að þessu og birta hér innan tíðar. Myndin fyrir ofan er úr Himnaríki, þegar ég kláraði að undirbúa jólin með aðstoð þjónustufólksins.

 

Í nokkur ár sá ég reglulega bresk blöð sem voru full af alls konar „speki“. Eins og um blóðflokkana ... þetta tengist alls ekki kenningum um að borða eftir blóðflokknum sínum, þetta er bara samkvæmisleikur, ekkert sem á að taka trúanlegt, bara skemmta sér! (Ég er A og þetta passar ótrúlega vel við mig ...)

 

O-blóðflokkur: Þessar týpur eru mannblendnar, félagslyndar, áhyggjulausar, örlátar og sjálfstæðar. Sveigjanlegt fólk, getur verið léttúðugt, einnig klaufskt. Oft upphafsfólk að einhverju en lýkur ekki alltaf við það sem það byrjar á. O-fólk er forvitið, skapandi og vinsælt, vill vera miðpunktur athyglinnar og er fullt sjálfstrausts. Fæddur leiðtogi og getur stundum verið hrokafullt og þrjóskt. O á best við fólk í O og AB(Mamma er O, pabbi var AB)

 

A-blóðflokkur: Yfirvegað rólegheitafólk, alvörugefnir fullkomnunarsinnar sem ekki alltaf er auðvelt að gera til hæfis. Listfengt fólk, getur verið feimið, er samviskusamt en einnig viðkvæmt. Traust fólk, stundum hrokafullt áhuggjufullt, bælir niður tilfinningar, er fullkomnunarsinnar, greint, þolinmótt og þrjóskt. Á best við fólk í A og AB

 

B-blóðflokkur: Verður að setja sér markmið, ákveðnir persónuleikar. Þegar viðkomandi hefst handa við eitthvað hættir hann ekki fyrr en verkinu er lokið og það á fullkominn hátt. Einstaklingsmiðað fólk sem finnur sér eigin leið í lífinu. B-fólk er forvitið og glaðlynt, á það til að vera sérviturt, yfirborðskennt, óáreiðanlegt og eigingjarnt. Vill komast auðveldlega í gegnum lífið og tekur skynsemina fram yfir tilfinningar. B á best við fólk í B og AB.

 

AB-blóðflokkur: Klofnustu persónuleikarnir. Ýmist opið eða feimið fólk, eða öruggt og óframfærið. En svo ábyrgðarfullt að það getur valdið því sjálfu vandræðum. Óhætt að treysta þessu hjálpsama fólki sem einnig er hugulsamt, varkárt, duglegt, kröfuhart, tilfinninganæmt, listrænt, dularfullt, óútreiknanlegt og oftast í góðu jafnværi. Passar við fólk í öllum blóðflokkum.

 

P.s. Minni á að Blóðbankann vantar alltaf blóð - bæði úr bólusettum og óbólusettum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 143
  • Sl. viku: 558
  • Frá upphafi: 1525314

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 484
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Vettvangsmynd
  • Seinni hluti
  • Fyrri hluti

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband