Vel sprautað, ögrandi áskorun og textarugl í lögum

Sprautustaður á hlaðinuÖrvunarsprauta kl. 11 í morgun og sérlega mjúkhent kona hélt um sprautuna. Stráksi var líka heppinn með sína sprautukonu og nú vonum við að litlar sem engar aukaverkanir geri vart við sig. Sprautari sprautu nr. 2 (í sumar) hitti á taug, grunar mig, því ég fann svo mikið til á meðan og var að auki lengi illt í stungustað, tilkynnti verkinn ekki sem aukaverkun því þetta var bara illa sprautað. Nú bað ég elskulegu konuna um að sprauta ögn austar í handlegginn og það gerði sennilega gæfumuninn.

 

Myndin sýnir heppni mína með sprautustað á Skaganum (rauða íþróttahúsið handan við ógæfumölina). Í hálkunni sem nú er víða hefði verið erfitt að skakklappast annað, og ég hefði sennilega ákveðið að þetta væri allt ein stór tilraun og risastórt samsæri, til að þurfa ekki að fara. Hálka eða leti hefði ekki mætt sama skilningi. Það var þó áskorun að komast yfir göngustíginn neðst á myndinni, næst Himnaríki. Þarna sést í Akrafjall, Esjuna, Nýju blokkina og meint kristalsljósakróna í eldhúsinu speglast fagurlega á glugganum, þetta er ekki guð, sjá hana/hann neðar í blogginu.

 

Ég var rétt nýkomin heim og drengurinn farinn í skólann næstsíðasta daginn fyrir jólafrí, þegar mamma hringdi. Henni gengur vel að tileinka sér bloggtækni, betur en mér, og hafði fundið sérlegan vinsældalista bloggsins. Ég nötra af spenningi.

 

nr. 3 - tékkMamma: Draumur þinn er að komast á topp fimm á blogginu, er það ekki? Þú hefur sagt það sjálf!

Ég: Jú, það væri svo geggjað. Ég er orðin það gömul að ég á ekki marga drauma eftir sem ekki hafa ræst.

Mamma: Hættu að tala um aldur, þetta er ég!

Ég: Æ, afsakaðu.

Mamma: Ég hef tekið eftir því að þú hefur aldrei náð svo ofarlega, ert allaf í kringum tíunda sæti sem ég er mjög ósátt við. Ég skoðaði þetta fólk fyrir ofan þig. Þetta eru auðvitað Páll þarna og Ómar Ragnarsson. Já, Trausti veðurfræðingur líka. Ekki reyna að keppa við þá ... það yrði bara svekkelsi, held ég, ég er meira að hugsa um hitt fólkið, nóboddíana þarna ófrægu, hvort þú eigir að prófa að breyta áherslum þínum svolítið til að líkjast þeim og gefa þeim langt nef þegar þú sest í fjórða eða fimmta. 

Ég: Vá, mamma, það hljómar æðislega vel. Um hvað blogga þau?

Mamma: Rannsóknir og tilraunabólusetningar, samsæri líka og eitthvað. Verður fólk ekki að heyra hina hliðina? Geturðu ekki bara búið eitthvað til? Þú ert nú svo klár, hefur þessa skemmtilegu greind úr móðurættinni. 

Ég: Æ, mamma, það myndi enginn trúa mér. Það er gaman að eðlufólkinu og Elvis enn á lífi-sögum, hvað með þá sem sakna þess að lesa um daglegt líf  mitt, yndisþokka og ævintýri, já, rafvirkinn kemur loks á morgun, og bold-

Mamma (kuldalegri): Þú ert nú sem betur fer nánast hætt að bolda. Hvernig fólkið þar hélt fram hjá hvert öðru og jafnvel sjálfu sér líka, og fór að deita börn sín þegar það uppgötvaðist að þau væru ekki blóðskyld þeim ... oj bara.

Ég: Mamma þó. Ekki segja deita. En ég skal hugsa málið.

 

Alltaf hressandi að heyra í mömmmu sem er svo hvetjandi, hún hætti t.d. að tala við fjölda fólks þegar ég tapaði naumlega í 12 ára bekk fyrir Rósu sem fékk íslenskubikarinn, munaði 1/50 á okkur, sagði Rögnvaldur kennari ... það var samt að hluta til mér að kenna en mamma hlustar ekki á það. Það var ekki hægt að fá tíu í lestri, bara 9,9, og svo var ég ekki nógu dugleg að læra ljóð utanbókar sem kostaði að ég fékk ekki þennan bikar sem Mía systir fékk þremur árum áður og enn áður Kalli Sighvats og Jonni Sighvats. Mamma var með systkinablæti varðandi þennan bikar.

 

GuðÞessi bitri ósigur vegna leti við ljóðalærdóm varð til þess að ég hlusta aldrei á texta, kann enga texta, vil ekki kunna texta - og hef jafnvel haldið í ógáti upp á hræðilega dónaleg rapplög: motherfxxx, bixxx, fxxxx, nixxxxx, og alls konar hrylling. Þegar fólk er beðið um að segja frá því hvað það hefur misskilið í t.d. dægurlagatextum man ég bara eftir: „titrandi tær“ úr þjóðsöngnum, sem mamma heyrði stelpu syngja nítján hundruð fjörutíu og eitthvað. Okkur var nær að velja sálm sem spannar að auki svo margar áttundir að aðeins kór með bassa, tenór, alt og sópran getur sungið það, ekki einu sinni saman! Ég hef reyndar staðið á ýmsum pöllum, m.a. í Finnlandi, Austurríki, Ítalíu og Þýskalandi, og sungið (með 80 öðrum, Áttatíu á palli) þjóðsönginn, alveg að springa úr þjóðarstolti og ættjarðarást - en þetta er samt sálmur og það er samt erfitt að syngja hann. Reyndar söng ég alltaf í Bjarnastaðabeljunum: „... kemur um miðasta spil“ (miðaftansbil) og ég held að við höfum öll systkinin gert það. Gleymdi alveg að spyrja mömmu hvort hún hefði kannski flissað í laumi eða misskilið líka.

 

En hér fyrir neðan er fínasta músik, ég fann þessa dýrð á YouTube og hef hlustað á í allan dag. Mamma söng með Kór Akraneskirkju og kórinn (undir stjórn Hauks Guðlaugssonar) tók þetta verk þegar ég var sennilega átta ára og elti mömmu á kóræfingar. Guðrún Tómasdóttir sópran og Sigurveig Hjaltested alt voru einsöngvarar. Kórinn söng nokkra kafla, sennilega þessa sem þær syngja saman hér. Áttundi kaflinn var og er enn í uppáhaldi hjá mér (23.43) ... Ég á nákvæmlega þennan flutning á geisladiski. Magnaðar söngkonur, Mirella Freni og Teresa Berganza. Í bíómyndinni Amadeus heyrðist eðlilega bara tónlist eftir Mozart - NEMA síðasti kaflinn úr þessu verki, amen-ið, og ... sungið af kór. Segið svo að það sé ekki fróðlegt að lesa þetta blogg.   

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.4.): 126
  • Sl. sólarhring: 268
  • Sl. viku: 831
  • Frá upphafi: 1525286

Annað

  • Innlit í dag: 114
  • Innlit sl. viku: 723
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 112

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Vettvangsmynd
  • Seinni hluti
  • Fyrri hluti

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband