Leyniupptökur og leitin að rétta veitingastaðnum

KettirÞá er það komið á hreint. Strætó gengur hvorki á jóladag né nýársdag þannig að ég er háð góðsemi elsku góða fólksins míns sem lítur svo vel út alltaf hreint ... báða þessa daga til að komast heim til kisanna - eftir að hafa haldið jól og áramót með ástvinum. Til að fá örugglega alltaf far á jóladag held ég hangikjötsboð með laufabrauði og allt í Himnaríki en þarf kannski, ef ég verð mjög dónaleg við alla, að fara heim á puttanum fyrsta jan. Nema mér detti í hug að vera með boð þá líka ... Takk, Strætó. Ég legg ekki á Kela, Krumma og Mosa að vera lengi eina heima svo vinkona mín kíkir á þá nokkrum sinnum, kveikir á sjónvarpinu á gamlárskvöld og stillir frekar hátt - þannig hefur það verið árum saman og þeir kippa sér ekki mikið upp við flugelda lengur. Þeir geta látið fara vel um sig í flestum kringumstæðum, sbr. myndina hér að ofan. 

 

Vinur minn hér á Akranesi komst yfir merkilega upptöku af fundi hjá fyrirtæki nokkru fyrr á þessu ári. Til að vernda vin minn verður nafni fyrirtækisins haldið algjörlega leyndu.

 

Fundarstjóri: Fundur er settur. Nokkur mál eru á dagskrá, en fáið ykkur endilega snittur og kampavín, ég er með fólk til að keyra fínu dýru jeppana ykkar heim og ykkur með, svo engar áhyggjurm, það er líka 200 ára gamalt koníak hérna og vodki fyrir þau allra hörðustu. Gefum framkvæmdastjóra orðið.

Frkvstjóri: Já, velkomin á þennan svaka mikilvæga fund. Við þurfum að taka samtalið um m.a. upplýsingaskyldu til þessa vanþakkláta lýðs sem við reynum að þjónusta sjúklega vel miðað við fjármagnið sem við kjósum að veita í það. Ég sé varla fram á að geta ráðið tvo aðila í fullt starf í skemmtinefnd skrifstofunnar þótt brjáluð vinna bíði nú þegar í t.d. undanfara jólanna, páskanna, bolludagsins, sumarsins, haustsins, hrekkjavökunnar og þakkargjörðar-þarna. Nema við finnum leiðir til að spara meira. Ég fagna öllum tillögum.

(F=fundarpersóna)

F1: En að ráða útlendinga í miðasöluna í Mjódd, þeir eru svo þakklátir fyrir að fá vinnu og hægt að svína á þeim. Það kunna allir hér á landi ensku svo við þurfum ekki að senda þá á íslenskunámskeið sem er alveg 40 kúlur á mann. Eða hætta með Mjódd bara? Nei, grín, en nógu fjandi dýrt ...

F2: Við gætum líka fækkað skýlum svo fleiri kaupi sér bíl?

F1: Held að það sé ekki séns, þau eru þegar orðin of fá, að mati Heilbrigðiseftirlitsins sem segir kvef-, æ, diffar ekki.

F3: Færum tapað-fundið hingað í Hestháls þangað sem enginn kemst nema fuglinn fljúgandi eða á bíl. Gætum auglýst hlutina sem fólk týndi á uuu ... er ircið hætt? Ahh, nei, ég er með það, á Pinterest, þar sem eru bara handavinnukerlingar og fávitarnir vita varla hvað það er! Við gætum svo selt það dýrmætasta og ferðasjóðurinn verður digur á skömmum tíma. Segjum samt að allt fari í Rauða krossinn eða eitthvað. 

Fundarfólk skellir upp úr. Nokkrir klappa saman lófum. 

F2: Er þá ekki sama snilldin að senda fregnir af t.d. ófærð, niðurfellingu ferða og breytingum þangað? Nei, annars, það væri ógeðslega fyndið að setja slíkar tilkynningar á Twitter, þar sem hjólapakkið keppist við að segja brandara í einni stuttri setningu. Gísli Marteinn er kannski sá eini sem gæti notfært sér þetta, hann hefur tekið strætó nokkrum sinnum. Við höldum bara annan fund og ákveðum viðbrögð ef hann fer að deila einhverju nytsamlegu þaðan á Facebook hjá sér.

Hlátrasköllin taka sig upp aftur og óma í góða stund en síðan segir fundarstjóri: Fleiri tillögur?

F4: Þarf fólk ekki að geta fengið nótu á kennitölu þarna í Mjóddinni? Ég hef heyrt kvartað yfir því.

F1: Nei, Ferlaugur minn, þetta er þannig fólk að það er óþarfi, svona lúserar vita ekki hvað bókhald er. 

Ný hlátursroka, nú í fimm mínútur. Ein konan treður gullfallegum Fendi-trefli sínum upp í sig til að reyna að stöðva hláturinn, en demantsskreytt og loðfóðruð gríman er löngu sprungin af öllu flissfrussinu. Þetta eru skemmtilegustu fundir sem hún veit. Hvernig hún komst í stjórnina er kapítuli út af fyrir sig, en sú ljóta leið var bæði blóði drifin og þyrnum stráð.  

Frkvstjóri: Jæja, allt samþykkt, takk fyrir að nenna að mæta, skál! Fáið ykkur endilega meira. Nóg til. 

 

Bestu læknarnirÞetta er það helsta, ég heyrði ekki allt fyrir glasaglamri. Þetta með Pinterest, Twitter og að fá ekki nótu á kennitölu er satt, sennilega allt bara. En ég gef ekki upp hvert fyrirtækið er þótt þið pyntið mig.

-------

 

Okkur stráksa er boðið út að borða um næstu helgi. Ég var búin að segja frá því að ég byggist við að hann veldi KFC ef hann fengi að ráða, þannig að þetta er í mínum höndum. Mér dettur nákvæmlega ekkert í hug nema Hótel Holt og BSÍ ...

 

Eitthvað þar á milli hentar vel ... en 15 ára fjarvera mín frá borginni hefur haft þau óvæntu og fúlu áhrif að ég veit ekki lengur hvaða staðir þykja góðir. Er Grillið ekki hætt, og Argentína? Sennilega bið ég vinkonu mína um að velja - og helst stað sem við höfum ekki farið á áður. Eins gott að veðurfræðingar haldi sig á mottunni og spái svokölluðu góðu veðri svo elsku strætó fari á milli. Hviður á Kjalarnesi eru ekki bestu vinkonur mínar þegar ég stefni á að gera eitthvað í bænum. Langtímaspáin norska yr.no segir að það verði fínasta strætóveður. Meira að segja hlýindi og engin hálka sem er það besta. Ég sé stundum eftir því að hafa hætt með veðurfræðingnum áður en við byrjuðum saman.

 

Myndin hér að ofan er af tveimur þekktum erlendum læknum sem meira að segja ég kannast við, dr. Drake Ramoray og Dr. Derek Shepherd sem hittust þarna í fyrsta sinn. Myndin tengist færslunni óbeint. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 167
  • Sl. sólarhring: 167
  • Sl. viku: 797
  • Frá upphafi: 1525158

Annað

  • Innlit í dag: 146
  • Innlit sl. viku: 682
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 125

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Vettvangsmynd
  • Seinni hluti
  • Fyrri hluti

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband