Flenna, gála, sætbaka ... gott nafn óskast

Grjótið kfcVið fengum fínasta „KFC-kjúkling“ í Grjótinu sem kokkurinn bandaríski (frá Kansas) eldaði svo lystilega, kartöflumúsin var líka æði. Þótt hann tali smávegis íslensku gat ég ekki stillt mig um að æfa mig í enskunni. Mig er farið að langa svo til Conway aftur, til Elfu og Toms, þau eru komin með nýjan hund sem trekkir ekkert smávegis. Kattakerling sjúk í hunda, væri sennilega nokkuð góð lýsing á mér. Fólk hér á Akranesi með hunda í bandi hleypur öskrandi yfir götuna til að þurfa ekki að mæta mér og leyfa mér að klappa og knúsa í korter. Þetta er ýkt en samt ekki. Stundum tekst mér að stilla mig en horfist þó alltaf í augu við hundinn og sendi honum ástríkt augnaráð. Sé að hundana langar alltaf rosalega til að kynnast mér og fá klapp. 

 

Við þræddum búðirnar, alls staðar gleði, fjör og glamúr ... Það voru Nína, Hjá Dýrfinnu, Bjarg, @HOME, Kaja og Penninn í þetta sinn og nú held ég að veskið sé orðið galtómt en allar gjafir komnar. Mikið held ég að sumir græði á gleymsku* minni (*gáfumerki, viðutan prófessors-heilkennið). Fyrir rúmum mánuði keypti ég afmælisgjöf handa Hildu og nennti ekki að liggja á henni og afhenti henni hana, nennti ekki að bera með í strætó, geyma, kannski gleyma, svo aftur í bæinn ... og keypti óvart aðra í dag, frekar veglega því hún hefur oft fengið svo miklar druslugjafir frá mér í gegnum áratugina. Hún hefur bara gott af því að fá fleiri gjafir. Að eiga afmæli svona nálægt jólum hefur án efa kostað hana marga, marga sálfræðitíma. Nógu slæmt er að eiga afmæli í ágúst, þegar allir eru í útlöndum eða úti á landi í sumarleyfi - en fyrir jólin er það martröð. Einar, sonur minn, var alltaf voða sáttur við að vera fæddur í kringum páska, því hann fékk nokkrum sinnum páskaegg í afmælisgjöf - sem honum fannst ekki slæmt. 

 

Sætbaka hjá KajuÍ Bjargi fæst alltaf eitthvað hrikalega flott og fallegt, ekki bara á mig, heldur líka á drenginn, ég keypti aukajólagjöf handa honum, enn eina, sem við búðarkonan þurftum að laumupúkast með, hann beið samt úti eins og hlýðinn fóstursonur, fínt veður í dag. En allt þetta búðaráp tók svo á okkur að Kaffi Kaja var eins og vin í eyðimörkinni - kaffibolli og eitthvert fínirí fyrir mig sem vantar nafnið á. Sjá mynd - ég hef tekið betri myndir.

 

Karamelludýrð? Karamelludásemd? Sætbaka? Smábaka minnir um of á tvíböku ... Eitthvað sem heitir small tart á ensku en við Karen viljum endilega íslenskt nafn á þetta. Flenna, gála, lauslát kona, segir Snara um tart. Veit að Karen (Kaja) yrði meira en glöð ef einhver kæmi með gott nafn. SÆTBAKA fínt þangað til. Svo vandræðast hún líka með brownie, hló þegar ég sagði að brúnka minnti mig á belju, held að ein beljan í sveitinni hafi heitið það - en ég hef minni áhuga á brúnkunum hennar því það er möndlumjöl í þeim. Ekkert slíkt í sætbökunni. Svei mér þá, ef þetta nafn venst ekki bara.

 

Við Kaja slógumst ekki beint - í raun bara alls ekki - en ég hef haldið því fram að fólk hræðist ekki fréttir af covid ... alla vega þekki ég engan sem bíður með öndina í hálsinum eftir tölum dagsins til að fá svo hræðslukast, en hún segir að það hafi verið mun rólegra að gera um allt Akranes, hjá verslunum og í veitingageiranum, þegar smit voru mörg á Skaganum fyrir skömmu. Hér með ét ég þetta ofan í mig - tölur hræða mig kannski ekki - en ég er ekki ein í heiminum. Mjög fá smit, ef nokkur, hjá okkur núna og alveg nóg að gera alls staðar, fannst mér í dag. Allir eitthvað svo glaðir og elskulegir þrátt fyrir álagið nú fyrir jól. Mæli með að gera eins og við Hilda í gamla daga, áður en ég flutti aftur á Skagann, að verja góðum degi hér fyrir jólin, kaupa gjafir, jafnvel jólaföt (sokka til að fara ekki í jólaköttinn) og fá okkur gott í gogginn á æskuslóðunum. Það verður enginn svikinn af því að koma hingað.  

 

Við drengurinn stefnum á bæjarferð um helgina með gjöfina til Hildu og nokkrar jólagjafir, margir koma til Hildu með pakka og fá pakka á næstu dögum - sem ég get nýtt mér með mínar gjafir. Við eigum mikið til sömu ættingja ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 635
  • Frá upphafi: 1524996

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 541
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband