Heppnin góða og ævintýri hangikjötsins

JólabúðingurAlltaf í kringum jól núna síðustu árin fyllist ég sérstöku þakklæti fyrir að vinna ekki í Buckingham-höll og eiga þannig á hættu að fá jólagjöf fulla af hnetum, möndlum, döðlum og rúsínum sem hefði orðið hlutskipti mitt. Nema ef ég hefði orðið uppáhald drottningar, skilst að butlerinn og einkaþjónninn og nokkrir fleiri fái dýrar og fínar gjafir, lausar við hrylling ... en ... eins hryllingur, annars góðgæti, reyni að hafa það í huga.

 

 

Hef tekið eftir því að þegar ég kaupi svokallaðar sætar gjafir passa ég mig á hnetunum til öryggis. Ekki að ég ætli að fara að bjóða mér í heimsókn til gjafþeganna til að snæða með þeim súkkulaðið. Ja, Hilda er til dæmis með ofnæmi fyrir tómötum og ryki og hún er ekkert skárri en ég, ekki gefur hún fólki þannig súkkulaði. Súkkulaði með hnetum hljómar álíka í mínum eyrum og súkkulaði með ryki og tómötum. Ég vinn hjá Birtíngi, sjúkk, og þótt engin skylda sé að gefa starfsfólki sínu jólagjafir, hefur fyrirtækið iðulega sett ýmis met í yndislegheitum og gjafmildi. Mín gjöf er í bænum, undir jólatrénu hjá Hildu.  

 

Drottningin í Buckingham-höll gefur flestu sínu starfsfólki Christmas Pudding (sjá átakanlega mynd) sem er alveg ótrúlega skrítin gjöf, að mínu mati. Ég stórefa að þessi elska hafi fundið upp á því sjálf. Örugglega einhver starfsmaður sem á ættingja sem framleiða slíka búðinga, nema frændhygli sé bönnuð í Bretlandi þótt hún sé þjóðaríþrótt hér ...

 

Ég lenti í spennandi atviki áðan og svakalega góðri þjónustu sem ég átti samt varla skilið. Sökum hálku og lélegs göngulags þegar svo stendur á, já, og var svolítið tímabundin líka, ákvað ég að panta í uppáhaldsbúðinni minni fyrir hangikjötsveislu jóladags og fá heimsent.

„Besta búð í heimi, góðan dag.“ 

 

Löngu síðar

„Og að lokum úrbeinað hangikjötslæri í kringum 2 kíló, frá SS. ... ég fæ yndislegt fólk í heimsókn ... bla bla, hvað eru fimm sinnum átta deilt með þremur? Já, jólin bara alveg að koma, bla, bla ... ekki kannski Last Christmas, kannski bara John Lennon-lagið þarna so this is Christmas ... Jói Fel, já, sú bók, Hurðakrækir ... haaha, bla bla ...“

 

HangikjötHálftíma seinna hringdi dyrabjallan. Tveir harðvítugir sendlar með vöðva og sixpakk komu upp með pöntun mína, hreinlega þutu upp stigana. Mig grunar að regluleg stigahlaupin hafi haft þessi áhrif. Ávallt tveir saman, eins og vottarnir, löggurnar, iðnaðarmennirnir, til öryggis ... ég hef marghissað mig á þessu. Samt vita allir að ég hvorki daðra né tek eftir því þegar daðrað er við mig. Ef einhver biður mig að giftast sér hlæ ég bara og segi: „Takk. Mikið ertu indæll.“ Ég bretti strax upp ermar og bjó mig undir að setja inn í ísskáp.

 

Myndin af hangikjötinu er rammstolin af mbl.is, fylgdi grein frá 2016 um hægeldað hangikjöt. Af hverju þrjóskast ég við að eiga ekki matarstell? Þetta er svo fínt. Haldið að væri ekki flott fyrir gestina að fá allt í stíl? Nei, mitt fólk þarf að þola svo margt. Ég á samt fimm grunna diska sem eru alveg eins. Fjölbreytileikinn ræður ríkjum í Himnaríki, þegar kemur að leirtaui. Spari, hversdags? Hver fann upp á þeirri vitleysu? 

 

Ónei! Kjötið sem stóð upp úr öðrum kassanum var eitthvað grunsamlegt. Það uppfyllti mörg af skilyrðunum; var rúm tvö kíló, reykt, úrbeinað og frá SS en reyndist ekki vera hangikjöt þótt litlu munaði. Ég gargaði blíðlega niður stigann á sendlana sem héldu að þeir væru sloppnir ... „Hei, vitlaust kjöt!“ Annar þeirra þaut upp aftur, tvær, þrjár tröppur í einu. Greip með sér hamborgarhrygginn sem leit ofboðslega vel út en ég býð ekki í gesti mína á jóladag ef þeir fá ekki hangikjöt með laufabrauðinu, uppstúfinu, grænu baununum og rauðkálinu ...

Tíu mínútum seinna kom þessi líka brjálæðislega fallegi hangikjötshnullungur ... Hafið þið vitað aðra eins þjónustu? Svona er að búa á Akranesi. Eins og ykkur hefur eflaust grunað, gerði ég mitt besta til að rugla stúlkuna sem tók við pöntuninni - ég lít á það sem skyldu mína að kenna fólki í þjónustustörfum þolinmæði, æðruleysi og láta ekki síblaðrandi kúnna trufla sig. Ég hef nú samt einu sinni grætt á því ... Fyrir fáeinum árum þegar ég bað um lyfseðil upp á pensílín en talaði svo mikið um landhelgismálið og hvernig upplifun það væri að sjá grasið gróa og málningu þorna að ég fékk róandi lyf í staðinn, kvefið batnaði vissulega fyrir rest en var samt auðveldasta og mest kósí kvef sem ég hef fengið! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 47
  • Sl. viku: 633
  • Frá upphafi: 1524994

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 539
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband