Skortur á skapandi hugsun og síðasta spákonuferðin

22.12 2021 beðið eftir gosiÉg verð að viðurkenna að það var bara notalegt að vakna við jarðskjálfta í nótt, aftur í morgun, rugga aðeins í rúminu og heyra alls kyns brak og bresti, skárra en að hafa verið sest við vinnu sína við tölvuna. Þegar ég áttaði mig á því að þetta væri frekar stór jarðskjálfti var hann yfirstaðinn. Sennilega verður jólagos, jafnvel nýársgos en ég vona satt að segja að skjálfi ekki of mikið þangað til. Það væri frekar töff að geta boðið gestum sínum upp á hangikjöt með öllu, líka eldgosi út um gluggann. Nú er ég bara að tala um gildi góðs og spennandi útsýnis en hugsa samt alveg um óþægindi íbúa á Reykjanesskaganum. 

 

Vinir mínir í jarðskjálfta- og goshópnum dæstu þegar því var lýst yfir að gosinu væri lokið, sögðu að það væri ekki tímabært, það færi af stað aftur, og hvað gerðist ekki? Svona dyngjugos standa víst í áratugi. Vona bara að taki skemmri tíma fyrir glóandi kvikindið að koma sér upp á yfirborðið.

 

Á myndinni sést yfir hafið, Reykjavík til vinstri, Keilir og fleira flott þar til hægri og á staðnum beint fyrir ofan ljósastaurinn gaus síðast. Ef ég hefði tekið myndina aðeins meira til hægri sæist kannski í Keflavík og jafnvel Ameríku ef jörðin væri ekki svona hnöttótt. Ef hún er það þá ... held að það sé samsæri til að fá okkur til að ferðast meira, en við nennum því ekki af því að okkur er talin trú um að við komum alltaf á sama stað aftur. Eitthvað. Held ég. Ekki.

 

Skapandi hugurÉg þarf sennilega ekki að vinna á morgun, svo dugleg höfum við verið að vinna af okkur ... en ég ætla að reyna að vera dugleg í kvöld og á morgun; baka, skreyta og slíkt. Eitthvað sem fólk gerði bara á Þorláksmessu í gamla daga. Eina sem ég óttast virkilega er að gleyma að sjóða hangikjötið í fyrramálið.

 

Léleg jólamynd í sjónvarpinu í kvöld yrði þá verðlaunin fyrir dugnaðinn. Ég þyrfti sennilega að hafa ögn meira skapandi huga - þá sæi ég ekki draslið heima hjá mér (sjá mynd). Ekki kannski mikið - en það er ekki jólafínt. Jólatréð komið inn í stofu en enn í kassanum, skrautið í grennd. 

 

Fyrir nokkru keypti ég rauðan og fallegan jakka hjá Systrum og mökum í Síðumúla (Ármúla?) og var mjög ánægð með hann. Líka ánægð með mig að hafa valið LIT á sjálfan jakkann, yfirleitt reyni ég að hafa jakka og aðrar yfirhafnir svartar, þá get ég notað þær lengur og svartur litur er klæðilegur, finnst mér. Hægt að lífga upp á með litríkum skartgripum, blússum og slíku ... og auðvitað ákvað ég eftir mjög stuttan tíma að skipta jakkanum og fá hann svartan. Hann hafði verið ósnertur í pokanum og tíminn til að skipta honum hafði runnið út, sem ég vissi ekki. En ljúfa, elskulega konan sagði að það væri greinilegt að ég hefði ekki gengið í honum, svo var kvittunin á botninum líka ... og sem betur fer hafði ég ekki reynt að strauja pokakrumpurnar úr honum sjálf, og hún leyfði mér að fá svartan ... nema hann var uppseldur. Ég sagðist bíða róleg eftir að þær saumuðu, lægi ekkert á, nóg á nýju ári - en nei, þær fóru að sauma og ég get sótt jakkann á morgun. Ég fylltist óvæntri jakkagleði (veit ekki alveg hvar jólagleðin er) en þessi gamli hefði alveg getað þjónað mér eitt ár í viðbót. Yfirleitt læt ég nægja að kaupa mér nýja sokka til að vera ekki étin af jólakettinum.

 

JólasmákökurÞað getur samt verið slæmt að vera of nýtin, að ganga of lengi í sömu uppáhaldsfötunum ... eins og um árið þegar ég fór til spákonunnar (á síðustu öld sko) - var að byrja í sumarfríi, átti tíma í klippingu daginn eftir, búin að gleyma tímanum hjá henni þegar ég var sótt, henti yfir mig einhverjum druslujakka (hann var hippalegur og átti að vera frekar druslulegur) og hljóp út á inniskónum án þess að gefa mér tíma til að setja á mig varalit. Svo las falsspákonan ekki í spilin eða bollann, heldur í útganginn á mér (ég hefði auðvitað aldrei farið svona í Kjötborg eða á Gaukinn). Hún ráðlagði mér að semja við lánardrottna mína og varð vandræðaleg þegar ég sagðist ekki vera í vanskilum. Þvílík steypa. Svo varð ég ekki fúl fyrr en daginn eftir. Sennilega var þetta í síðasta sinn sem ég fór til spákonu. Mér fannst það alltaf ógurlega spennandi, ekki síst þegar ég fór til Amyar Engilberts (1986) sem var landsfræg. Það gengu ýmsar sögur um hana, meðal annars sú að hún hefði sagt manni nokkrum hvenær hann dæi ... Sá maður átti að hafa dottið í djammið og síðan látist nákvæmlega þann dag - en svona sögur eru oft ýktar. Hún sagði mér frá einu þegar ég var hjá henni, að hún hefði gengið fram hjá húsgrunni, og ákveðið að losa sig við tarotspil sín, fleygt þeim þarna yfir. Ekki svo löngu síðar reis þar sjálf Kringlan, byggð ofan á spilunum hennar Amyar. Mér fannst það voða merkilegt.

 

En ... nú þarf ég að blása smávegis jólaanda um Himnaríki ... skreyta og fá bökunarilm í húsið (tilbúnar kökudeigsrúllur í ísskápnum, ég elska nútímann). Myndin hér að ofan sýnir það sem ég stefni á í kökumálum ... þetta verður löng nótt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vakna við jarðskjálfta.???????? Ég myndi ekki vakna þó að lúðrasveit kæmi masserandi inn í íbúðina.

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 22.12.2021 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 45
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 674
  • Frá upphafi: 1524989

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 575
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband