Áramótaóvissa, síðasta nöldrið og gjafafjöld

Mamma og jólagjöfinStórkostlegar jólagjafir í ár ... tveir múmínbollar, súkkulaði, tannkrem, silkislæða, skart, punt og Arnaldur voru meðal þess sem leyndist í mínum pökkum. Peysa, blússa, úlpa og sokkar, lampi ... Ég er ekki enn búin að ganga frá öllu, enda alltaf í vinnu og alltaf að bíða eftir eldgosi.

 

Hilda systir er afar snjöll að velja gjafir. Gaf stráksa t.d. lampa sem er eins og geimfari og þegar kveikt er á honum verður loftið í herberginu stjörnum prýtt. Hún gaf mömmu sérdeilis skemmtilega mynd af okkur systkinunum sem tekin var þegar við vorum lítil, eða fyrir einhverjum örfáum árum. Samt fyrir mitt minni. Mamma var alsæl, lét taka eina (af þremur) kóramyndina (Pólýfón?) niður og setja þessa frekar í miðjuna. Við vorum náttúrlega ótrúlega mikil krútt á myndinni og eflaust þæg eftir því. Í gamla daga þurfti að vera þægur til að teljast sætur og það var mikil áskorun, sérstaklega í bókasafninu. 

 

Heilmikið úrval er af jólabíómyndum sem ég horfi oft á og get ómögulega gert mér grein fyrir hvort séu lélegar eða góðar. Skiptir kannski engu máli svo framarlega sem ættaróvildin lagast, parið nær saman eftir misskilninginn á Þorláksmessu, börnin fái jólapakka frá Sveinka, bræður hætti að berjast og systur að slást, jólaskrautið finnist í tíma, mistilteinninn sé á réttum stað og jólaandinn mæti í hús.

 

Vér grislingarMyndin er af okkur þægu systkinunum á Akranesi og er sú sem mamma fékk stækkaða frá Hildu. F.v. Hilda, Gummi, mamma, ég og Mía. Afsakið klippinguna. Mamma hlær bara þegar ég skamma hana fyrir að hafa látið klippa okkur svona svakalega stutt og komið algjörlega í veg fyrir að við værum enn meiri krútt.

 

Það er innan við mánuður þar til yngsta systkinið verður sextugt! Þegar guð sagði mér í draumi að ég myndi hrökkva upp af 38 ára gömul, þá í hárri elli, fannst mér, grunaði mig ekki að ég myndi ná þetta háum aldri, á fullu í vinnu og því að lifa lífinu, ekki komin í kör en fljúgandi bílar hvergi í notkun. Mergjað. Minnir að dúkkan mín hafi heitið Magga.

 

Planið er að vera í Kópavogi á gamlárskvöld og fá svo Hildu plús einn í mat til mín á nýársdag en veit ekki hvað ég á að hafa í matinn. Hún er matarsnillingurinn, tók við af mömmu við uppstúfsgerðina á jóladag - og það var enn svakalega gott í gær þegar ég snæddi síðasta hangikjötsskammtinn þetta árið, eða fjórða kvöldið í röð. Nú sýnist mér á öllu að hún komist ekki, veðurspáin er sérlega viðbjóðsleg upp á það að gera - spennandi að öðru leyti.

 

KisubarniðNema ég skrái mig í hvelli í björgunarsveit, verði á vaktinni en ræni skriðdrekanum og skutlist eftir henni ... Eða bíð kannski til sunnudags með boðið. Mig langar mjög í kalkúninn í bænum og vil ekki svíkja stráksa um að horfa á flugelda, fá jafnvel að skjóta einum upp - þó er ég ekki lengur hrifin af flugeldum, bara alls ekki, og er steinhætt að kaupa þá. Styrki Landsbjörgu mánaðarlega og kaupi alltaf neyðarkallinn. Kettirnir eru sem betur fer ekkert hræddir við lætin. Krummi situr meira að segja iðulega úti í glugga og fylgist spenntur með. Hann og Keli eru fín fyrirmynd fyrir Mosa sem var ósköp smeykur við flesta hluti þegar hann flutti hingað. Nú er honum sama um ryksuguna sem áður olli honum gífurlegum ótta. Ef ég fer að heiman, bið ég sérlegan kattapassarann að kveikja á sjónvarpinu (það slekkur á sér eftir nokkra klukkutíma) og hafa frekar hátt stillt, dreg fyrir og hef fullt af góðum mat handa þeim. Síðasti strætó gamlársdags fer kl. 10.15 frá Akranesi og engin ferð verður á nýársdag - en þá verður hvort eð er ekkert ferðaveður. 

 

Í fyrramálið fer ég í fótsnyrtingu, í fjórða skiptið á ævinni. Ég er ekki með sigg (hata gönguferðir og vel alltaf þægilega skó) en mér skilst að ég sé komin á þann aldur að ég þurfi að fara árlega. Svo ég hlýði því ... Kannski fann ég alveg óvart rétt í þessu svarið við því hversu lélega tískuvitund ég hef - ég tek ekki í mál að þjást til að vera falleg, eins og viss franskur málsháttur vill meina að þurfi að gera. Held samt að þjáningardrættir (yfir þröngum skóm, peysu sem stingur?) myndu afmynda andlitið. Sumum finnst það kannski fallegt.

 

Engu að treystaMér þykir hálffúlt að geta ekki lengur skammast í RÚV eða Stöð 2 fyrir að velja einstaklega leiðinlegar og margsýndar bíómyndir eftir miðnætti á gamlárskvöld ÞEGAR langflestir eru heima, ýmist með börn eða ekki sérlega spenntir fyrir djammi. Ég gáði að gamni: Á RÚV verður endursýnt Tónaflóð um landið. Stöð 2 býður ögn betur, spennumynd frá 2019 um eiginkonur gangstera ... og síðan verða Bold and the Beautiful-þættir til 3.30 og ég er ekki að grínast. Sjónvarp Símans sýnir Mission Impossible- Rogue Nation. En þetta skiptir litlu máli lengur. Ef mig langar að horfa á góða mynd kíki ég á Netflix, Premium, Disney plús ... en ég tek fram að ég er þakklát fyrir Áramótaskaupið og ef peningarnir kláruðust við það skil ég valið á endursýndu músíkþáttunum. Ég er líka þakklát fyrir að þurfa ekki að berjast þessum vonlausa bardaga lengur við þá sem velja sjónvarpsefnið og eru enn á því að ALLIR fari á djammið á gamlárs. Þegar ég hélt utan um eins konar dagskrá í Vikunni um nokkurra ára skeið, heyrði ég í einhverjum sem báru ábyrgð, og þeim fannst að fólk ætti ekki að glápa á sjónvarpið á nýársnótt - eins og allir hefðu val. Barnafólk? Djammhatarar? Hlustuðu ekki einu sinni á greindarleg rök mín.

 

Eins og áður hefur komið fram fór ég áramótin 1986-1987 á Hótel Ísland (eða Broadway) og skemmti mér konunglega. Eina skiptið. Sjónvarpsstöðvarnar féllu á prófinu þrátt fyrir ótal áskoranir og nú er orðið of seint að reyna að bæta fyrir. Sorrí, illskurnar. Held að meira að segja þau á Eir finni eitthvað skemmtilegt fyrir mömmu að horfa á ef henni líst ekkert á fasta dagskrá. Tæknin fer batnandi. Hún hefur lengi elskað að horfa á eins og eina spennumynd fyrir svefninn á nýársnótt og oftast verið afar ósátt við það sem er í boði.

 

Neðsta myndin tengist þessu nöldri mínu óbeint en sýnir þó að engu er að treysta í raun. Engu.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 30
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 659
  • Frá upphafi: 1524974

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 560
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband