Grunsamlegt fótasnyrtirí, furðufréttir og fyrsta áramótaheitið

YndislegHver þarf fljúgandi bíla þegar hægt er að fara í fótsnyrtingu, hugsaði ég hugsandi þegar ég sveif út af snyrtistofu í morgun. En það var samt eitthvað grunsamlegt í gangi. Ég komst ekki á netið í símanum mínum á biðstofunni og það hringdi ýmsum viðvörunarbjöllum, afskaplega lágvær og sefandi tónlist hljómaði í kerfinu, mér var boðið eitthvað að drekka og svo man ég nánast ekki meira. Sá í þoku grímuklætt fólk og ýmis tól og tæki, minnir mig, líka góða lykt. Árin mín í leyniþjónustunni (við að greina grunsamlegar tölur) komu kannski aftan að mér, einhver heldur að ég viti meira en ég veit að ég viti, en ég lærði þar að bregðast við öllum tilraunum til dáleiðslu með dekuraðferð. Eins og venjulega varð mér hugsað til nuddarans á síðustu öld (dekurafmælisgjöf) sem reyndi ákaft að selja mér Herbalife og gat ekki bæði nuddað og talað í einu. Hryllingur. Kannski var verið að kenna mér þolinmæði og æðruleysi.

 

Flamingo, sýrlenski hollustu-skyndibitastaðurinn var opinn, ekki Kaja, rólegt að gera en var víst troðið af fólki þar annan í jólum, fólk kom frá Reykjavík til að næra sig. „Sumir elda aldrei, þá er nú gott að hafa okkur,“ sagði indæli afgreiðslumaðurinn sem gerði handa mér gómsæta kjúklingavefju (nr. 1 á matseðlinum fyrir ofan afgreiðsluna, svo er réttur nr. 10 þar alveg sturlað góður. Myndin er úr Skessuhorni, ég vona að ég hafi mátt ræna henni). Ekki kann ég að segja takk á úrdú (þetta var pakistanski maðurinn) til að slá um mig, svo ég sagði bara takk. Maður getur ekki alltaf slegið í gegn. Annars, eftir að ég hætti að taka strætó daglega hefur mér farið aftur í að læra ný tungumál. Nú man ég t.d. ekki lengur í hvaða landi maður segir dabrí til að bjóða góðan dag. Slóvakíu? Ég get ekki sagt dabrí við alla bílstjóra þar til einhver segir það á móti. Fer nánast ekkert í Reykjavíkurstrætó, heldur allra minna ferða með einkabílstjórum úr fjölskyldunni sem er sérlega hentugt, þægilegt og skemmtilegt.  

 

ÁramótGamlárskvöld virðist ætla að ganga upp í bænum. Þannig að ef ég kemst ekki heim þann fyrsta janúar gerir það ekkert til. Elsku dúllan sér til þess að kettina skorti ekkert. Hún er ein af kattahvíslurunum í lífi mínu og ef ég þekki hana rétt kemur hún nokkrum sinnum á dag til að kíkja á þessa vini sína - sem elska hana heitt á móti. Í stað þess að ég gefi Hildu + 1 gott að borða á nýárs ætlar hún að elda lambahrygg með hvítlaukskartöflum (ég mátti velja um lamb eða hangikjöt, brúnaðar eða hvítlauks) og svo fæ ég heimskutl á sunnudeginum og kettirnir hafa ekki einu sinni tekið eftir því að ég brá mér af bæ. 

 

Skoðanamyndandi fréttir (æsandi, gera suma sturlaða af reiði ef þeir er fyrir skapofsa) verða sífellt vinsælli en fara sífellt meira í taugarnar á mér. Í gær áttum við öll að hata Gilzenegger af því að hann „braut viljandi sóttvarnarreglur á Tenerife og gortaði sig af því“. Spurning hvort hann hafi verið í jólakúlunni sinni á veitingastaðnum ... ekki að ég hafi endilega áhuga á að vita það, mér finnst miklu verra að konan hans, nafna mín, skrifi gælunafn sitt með ý (Gurrý).

Eins og ég hef áður nöldrað yfir varð ég oft steinhissa á fréttaflutningi sumra á Íslandi um Trump þar sem við lá að fréttaþulur segði: „Fávitinn hann Trump setti enn eitt drengjametið í lúðahætti í dag þegar hann ...“ Að flytja frétt um hann án þess að glotta, segja bara frá staðreyndum hefði ekki fengið mig til að halda að fréttamaðurinn væri hrifinn af Trump, orðum hans og gjörðum. Meira að segja RÚV sem ég treysti svo vel gerði þetta stundum. Ég var sennilega búin að segja frá snappvinkonu minni í USA sem mér til mikilla vonbrigða kaus víst Trump í bæði skiptin ... en hún sagðist ekki hafa kosið hann vegna mannkosta hans, samskiptahæfni og almennrar skynsemi, heldur til að gefa skít í peninga- og spillingaröflin sem svo mörgum fannst Hillary standa fyrir. Skelfilegt að hafa ekki val um eitthvað betra en þau tvö. En alla vega, fréttaflutningur á meðan Trump var við völd var ekki alltaf fagmannlegur - það þurfti ekki að troða því ofan í kok á okkur hversu vanhæfur hann væri. Auðvitað að segja frá öllu ruglinu í honum - en fagmannlega.

 

AfmælisbarniðSvo er það elskan hún Anna mín Kristjánsdóttir, nú búsett á Tenerife og sjötug í dag, hún má vart segja eitthvað í gríni um t.d. ískuldann sem hún þarf stundum að afplána þar (18 gráður kannski) án þess að búin sé til um það frétt. Kommentin geta verið leiðinleg: Er þetta frétt? Sú er athyglissjúk ... og svo framvegis. Svo er einmitt dagurinn í dag og á morgun rétti tíminn til að skammast í Erni Árnasyni sem vogar sér að selja flugelda á góðu verði. Árlega eineltið ... Starfsemi björgunarsveitanna er það sem fær langflesta til að kaupa flugeldana þar. Ég er alla vega alltaf hrifnari af því að tala upp ágæti einhvers en að reyna að afla því stuðnings með því að rífa eitthvað annað niður. Þess vegna tala ég svona vel um sjálfa mig (Þingeyingur, ég má það) í stað þess að reyna að rústa keppinauta mína hér á Moggablogginu til að komast á topp fimm sem mér hefur því miður ekki tekist. Eins og mamma segir, ég þarf að fara að skrifa um samsærið, að covid hafi verið búið til svo að hægt væri að fækka jarðarbúum með bólusetningum tilraunalyfja að undirlagi Bill Gates og lyfjarisanna, sem eru sennilega eðlufólk. Eitt, sem sagt það fyrsta af stórkostlegum áramótaheitum mínum, er að komast á topp fimm. MEÐ ÖLLUM RÁÐUM. Þið sum fyrir ofan mig getið alveg eins hætt að blogga, bara núna. Ætla að kaupa aðstoð frá auglýsingastofum og alls konar frasafræðingum sem nóg er orðið af, markþjálfum og alls konar. Ég skal, ég get, ég vil, ég ætla, ég mun ...   

 

Í gær kláraði ég bókina sem ég geymdi mér til jóla, bókina hennar Lilju Sigurðardóttur, Náhvít jörð. Einhvern tíma í nótt var mér orðið skítsama um mætingu í fótsnyrtingu, ég yrði að klára ... og mikið þótti mér vænt um að konan í Kvennaathvarfinu skyldi heita Gurrí (með einföldu). Virkilega fín, vel skrifuð og spennandi bók. Lilja kann þetta svo vel og heldur manni vel við efnið, svo vel að það var engin leið að hætta. Elska bækurnar hennar. Mig langar samt rosalega mikið að vita sirka í hvaða húsi á Vesturgötuni hér á Akranesi vondi karlinn í Gildrunni og þeim bókum (fv. eiginmaðurinn) bjó, ef hún hefur haft sérstakt hús í huga.

 

Mér er frekar illt í bakinu núna en dettur ekki í hug að taka íbúfen, ég komst að því í gær að það er enn verið að rannsaka það - svo það er tilraunalyf! Er engu að treysta í þessum heimi? Ekki einu sinni íbúfeni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Íbúfen er bara fyrir hesta.

Tomas Runar Andresson (IP-tala skráð) 4.1.2022 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 26
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 655
  • Frá upphafi: 1524970

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 556
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband