Sjokkerandi skyldleiki í áttunda og önnur óvænt uppgötvun

Í HimnaríkiNú er runnin upp „fríhelgi“ sem þýðir því miður hálfgerðan djöfulgang og trylling í húsverkum og meiri tíma og frið til að sinna öðrum verkefnum. Vona samt að ég hafi ekki slasað mig alvarlega í stiganum áðan (fyrsta verk mitt í djöfulgangi), lét drenginn sem vanalega fer út með allt rusl, taka poka með sorpi niður - ég tók tvo (léttari) með plasti og pappír og hugðist skokka niður með honum, ég er orðin svo dugleg að flokka plast og pappír sem var áramótaheit mitt fyrir ári eða tveimur. Gott að fleygja öllu rusli út á föstudögum, það er sagt tryggja bæði spennandi veður og möguleika á eldgosi, ef ég skil það rétt.

 

Myndin sýnir aðalástæðu þess að ég keypti Himnaríki fyrir bráðum 16 árum. Sú fjárfesting gleður mig alltaf jafnmikið þegar sjórinn sýnir eitt sitt flottasta andlit. Næstum því eldgos í baksýn. 

 

 

En ... rúmlega hálfnuð niður stigann með létta pokana, frekar hratt, á inniskóm, heyrðist eins og brak í hægri kálfa og smávegis verkur fylgdi. Nú, nú, sinar að slitna í öllum látunum, hugsaði húsfrúin sem hamast oftast fyrir framan tölvuskjá og lætur drenginn um nánast allt stigahopp. Alla vega staulaðist ég varlega upp stigann eftir að hafa kvatt hann, og hroðalegur sannleikur byrjaði að hreiðra um sig í fögrum kolli mínum. Nokkuð sem ég hefði átt að skilja strax árið 1993. Hvað er það sem veldur því að þegar ég ætla að taka í lurginn á sófakartöflunni mér, gerist eitthvað sem tefur eða skemmir fyrir? Þetta ekki alls óafvitandi freudísk letipúkalymska til að tryggja áframhaldandi kyrrsetu! Eitt sinn (c.a.1993) ætlaði ég að vera voða dugleg í ræktinni, staðsettri úti á Granda, komin með mánaðarkort og alles. Búin að fara nokkrum sinnum og leiddist það ógurlega, starfsfólkið sem átti að hjálpa og kenna var upptekið við að rækta sjálft sig og dást að árangrinum í speglunum. Sonur minn, þá unglingur, var með í för í örlagaferðinni, við bæði á hjólum. Allt í einu missti hann stjórn á hjóli sínu og hjólaði í veg fyrir æruverðuga móður sína á fertugsaldri sem fipaðist algjörlega og skall á gangstéttina. Engin slys á fólki en hjólið skemmdist það mikið að það þurfti viðgerðar við. Ekki spennandi og auðvelt fyrir bíllausa að reiða hjól sitt langar leiðir svo það var sett á bið og geymt niðri í kjallara.

 

Veturinn níutíu og eitthvaðÞað var því ekkert ræktast eða hjólað meira þetta sumar og granni minn á Hringbrautinni plataði mig, staurblanka, um veturinn til að selja sér hjólið þegar snjór var í sögulegu magni, náði nánast upp að mitti. En það er af og frá að ég hafi sent syni mínum hugskeyti svo hann hjólaði í veg fyrir mig, bara svo ég gæti slakað á ... en eins og klárustu bloggvinir mínir vita hata ég gönguferðir en skvass tókst mér að stunda einu sinni, tvisvar í viku nokkuð lengi sem er undantekningin sem sannar regluna.

 

 

Ég var í spennandi skokkhópi hér á Skaga (langsamlega langlélegust) fyrir mörgum árum en kunni ekki að teygja svo ég næstum sleit hásin í látunum, og þurfti að hætta. Það tók nokkur ár fyrir eymslin að hverfa eftir þá raun, eins og Beta hirðsjúkraþjálfari hafði varað mig við. Sl. sumar, alls konar kvillar sem héldu mér frá ræktinni, meðal annars langvarandi þursabit. Nú, þegar covid er svona útbreitt (69 af Skaganum), langar mig ekki sérlega mikið í ræktina ... Þótt ég sé ekki með neitt undirliggjandi er ég með utanáliggjandi, eða covid-keppinn sem ef fengi að stækka að vild, yrði til þess að ég passaði ekki lengur í fínu úlpuna sem ég fékk í jólagjöf.

 

 

elsku ræktinÞannig að örlögin eru ekki með mér í liði varðandi keppamissi eða bara liðleika. Sjúkk, hvað ég er fegin að trúa ekki á örlögin. Hvíli bara fótinn vel og held svo áfram með djöfulganginn síðar - og ræktina. Kannski hefði ég átt að teygja (finn örugglega á YouTube hvernig) áður en ég hljóp niður stigann (í annað sinn í dag reyndar). Mun fresta gönguferð morgundagsins meðfram Langasandi - stefnumóti sem ég átti þarna við ólgandi hafið. Hljómar vissulega rómantískt og jafnvel spennandi en ... þetta er kjéddlíng og þótt ég endi sennilega á því að slaka enn meira á rómantískum kröfum er viðkomandi skyld mér ...

 

Myndin var tekin með falinni myndavél í ræktinni í fyrra og sýnir dugnað minn á göngubretti. Þið hefðuð átt að sjá mig einhenda lóðum ögn seinna, róa, toga, bara alls konar töff.

 

Nú er farinn sá fyrsti af dauðalistanum 2022 sem ég skrifaði um nýlega hér á bloggi, Sidney Poitier leikari. Ég er það háöldruð að ég man eftir laginu To Sir with Love - og sá myndina (man ekkert eftir henni samt) sem söngkonan Lulu lék í á móti honum, hann var kennarinn hennar ... Frábær leikari, fyrsti svarti leikarinn til að fá Óskarsverðlaun.  

 

Munið rannsóknina þarna um covid ... „may be able to thank their Neanderthal ancestors ... ef þau sleppa við covid eða veikjast lítið-dæmið“? Enn hefur enginn sem ég veit af í ættinni smitast, held samt að ég sé ekkert skyld sumri konu sem hefur víst reynt mikið til að smitast, að eigin sögn, og trúir ýmsu virkilega varhugaverðu sem hún reynir að sannfæra aðra um að sé heilagur sannleikur. Ég kíkti á Íslendingabók til öryggis og ... við erum rosalega skyldar, eða áttmenningar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 49
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 744
  • Frá upphafi: 1524942

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 636
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Brandon Apple
  • Á lausu
  • Jason minn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband