Hneykslið 1987, basilið sem fannst og beinskeytt spurningaflóð

Með Gumma bróðurÞegar ég teygði mig inn í ísskáp eftir þriðjudagsskammti Eldum rétt í gær fylgdi búnt af basil-laufum með ... the lost basil úr rétti mánudagsins. Ég hafði leitað alls staðar annars staðar en í ísskápnum. Þótt ég efist um að Eldum rétt fylgist með bloggi mínu, sendi ég þeim samt rafrænan fingurkoss. Það hefur ekkert klikkað hjá þeim fram að þessu. Kjúklingarétturinn í gær sló öll met í bragðgæðum, án þess þó að uppskriftir gæfu almennilega upp hvað lægi að baki. Út í sætkartöflustöppuna fór smjörklípa og smávegis meðfylgjandi síróp, hún var mjög góð! Svo fór dularfullt gums út í hitaðan rjóma og úr varð ein besta sósa lífs míns.

 

Myndin, efri: Akranes á afmæli í dag, fékk kaupstaðarréttindi þennan dag árið 1942. Tuttugu árum og tveimur dögum seinna kom fallegur drengur í heiminn á Sjúkrahúsi Akraness, yngsta barn af fjórum og eini strákurinn. Hann lærði til leikara árum síðar og varð þekktur sem faðir Benjamíns dúfu í samnefndri kvikmynd. Í myndinni giftur Elvu Ósk leikkonu sem vann með mér á Stjörnunni, útvarpsstöð sem, ef ég er ekki að rugla, breyttist löngu seinna í Útvarp Sögu sem frænka mín frá Flatey á Skjálfanda rekur. Jiminn, hvað heimurinn er lítill. En myndin er af mér og pabba Benjamíns dúfu, Guðmundi Haraldssyni, sem vill svo skemmtilega til að er einnig skyldur Arnþrúði á Sögu. Myndin er úr myndasafninu Gurrí og fræga fólkið.  

 

Kannski er ég lukkudýr íslensks handbolta því liðið okkar sigraði með tíu marka mun í fyrsta leiknum sem ég þorði að horfa á. Segi nú svona í gríni, hef enga trú á því að það breyti nokkru hver horfir eða horfir ekki. Ætla samt að glápa harkalega á Danaleikinn. Sigur eða handritin öll heim, takk!

 

Alltaf af og til berast blogginu beinskeyttar spurningar sem mér er bæði ljúft og skylt að svara, það var eitt af því fyrsta sem ég lærði að ætti að gera í áhrifavaldaskólanum um árið:

Spurt og svaraðHvernig ferðu að því að vera svona æðisleg? Ja, ég hef lesið svolítið um jóga, svo er 42 hálfgerð happatala mín.

Fylgist þú með handboltanum? Já, auðvitað, ég er hvorki landráðakona né föðurlandssvikari! Ég horfði á sigurleik okkar í dag og svo ætla ég að horfa á Danaleikinn í kvöld, að sjálfsögðu.

Hvernig finnst þér Verbúðin? Sá bara síðasta þátt, of lítil verbúð, of mikið drama, svik og spilling sem er mun meira og allt öðruvísi en ég man eftir frá eigin verbúðarárum. Bjó í verbúð í Grindavík sumarið sem ég var 14 að verða 15. Einn eða tveir misstu fingur þetta sumar, eitthvað var um dóp, meira um drykkju og kona nokkur sem síðar kom örstutt inn í líf mitt aftur, þá sem virðulegur stjóri, sagði eitt sinn við okkur nokkrar sem voru að kjafta saman inni í herberginu hennar: „Jæja, drullið ykkur út úr herberginu, við X erum að fara að r-!“ Sumir töluðu vissulega tæpitungulaust en ég er enn hneyksluð og hef aldrei litið þessa konu, þá 17 ára, réttu augu. Var þó orðin ögn lífsreyndari næsta ár þegar ég fór á verbúð Ísfélagsins í Eyjum. Man ekki eftir slysum þar en miklu djammi og því auðvitað að Shady Owens vann þarna til að hún kæmist heim til London. Það var þá sem ég uppgötvaði að frægar poppstjörnur væru ekki endilega ríkar sem ég hafði haldið að fylgdi. Við pældum voða lítið í fólkinu sem átti frystihúsið, ráðherrum eða slíku.

Hvernig var líf þitt þegar þú varst lítil og falleg stúlka? Alveg hræðilegt. Ég held stundum að sögurnar um Oliver Twist og Öskubusku hafi verið byggðar á bernsku minni. Ósveigjanlegar reglur bókasafnsins um fjölda bóka sem þá mátti taka. Að fá ekki að eiga kött. Þverskorin ýsa daglega, hreinsa sjálf og skræla kartöflurnar. Að fá ekki að segja orð á meðan pabbi hlustaði á kvöldfréttirnar 22. nóvember 1963. Algjör skortur á skutli. Engin ferðalög eftir að pabbi flutti í bæinn 1965. Að haltra heim eftir leikfimi og sund með frosið hárið. Klippingin (drengjakollur). Barnaskólinn (allt í gráma og gleymsku, það skemmtilegasta og það eina sem rauf tilbreyingarleysið öll þessi ár var þegar Gídeon-menn komu í heimsókn, og kennarinn alltaf að líta á úrið á meðan). Þetta er stutta útgáfan.

Ertu bara alveg hætt að spá í stráka? Já. Fyrir lifandis löngu. Einu sinni skólastrákar, svo kennararnir ... núna bara afarnir.

Ertu með málverk uppi á lofti hjá þér? Hvað áttu við?

Svona Dorian Gray-málverk, þú lítur svo rosalega vel út. Ahh, nei, ekkert slíkt, bara skortur á sólböðum, hafa loks hætt að reykja og nota Fjólu-dagkrem daglega gerir gæfumuninn.

 

Neðri myndin: Tæki og tól fyrir spurt og svarað á blogginu;  tölva, google.is, alfræðiorðabók í þremur bindum.

 

Þakka ykkur kærlega fyrir góðar spurningar, elsku bloggvinir nær og fjær. Það komu auðvitað spurningar frá bíræfnum blogg-óvinum líka, eins og: 

Hvernig ferðu að því að vera svona ömurleg? eða Því heldur þú því leyndu að í þínu bjánalega kjördæmi varð hneyksli árið 1987 þegar nokkur atkvæði "týndust"? Svaraðu því, kosningasvindlarinn þinn!

 

 

Já, líf okkar áhrifavalda er sannarlega ekki alltaf eintómur dans á dekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 15
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 496
  • Frá upphafi: 1526890

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 419
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Um 1960 með pabba og mömmu
  • Magpie Murders

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband