Bergmál í ísskápnum og misskilin skápaþrif

SkápatiltektVirðuleg frænka mín hringdi í mig og sagði mikla nauðsyn á því að ég hlustaði á dægurlagatexta stöku sinnum svo ég gerði mig ekki endalaust að fífli hér á blogginu. „Hvað áttu við?“ spurði ég steini lostin. „Þú sagðir í blogginu þínu í gær að rapparinn Eminem hvetti þig til að halda skápunum þínum fínum. Ja, ég hvet þig til að hlusta á textann við Cleaning out my closet(sjá mynd). Það fjallar ekki um skápaþrif, Gurrí mín. Horfðu líka á myndbandið við það,“ sagði hún ákveðin. Svo skiptumst við á fréttum en rétt í þann mund sem við ætluðum að kveðjast, sagði hún: „Já, bara svo þú vitir það, Victoria Beckham borðar ekki gufusoðinn fisk í hvert mál, eins og þú sagðir nýlega, það er grillaður fiskur og gufusoðið grænmeti. Hafa staðreyndir á hreinu, mín undurfagra frænka!“

 

BasilMun sko gæta mín á þessu, auðvitað, en veit samt alveg að bloggið mitt getur haft stórkostleg áhrif á líf fólks. Dæmi: Vinkona mín var nýlega í heimsókn hjá dóttur sinni sem bauð henni í Eldum rétt-mat. Og það vantaði ferska basilið í sósuna. „Ahhh, kíktu betur inn í ísskáp, það gæti hafa komið í lausu,“ sagði móðirin, sem hafði lesið áhrifamikla færslu mína um basilið sem hvarf og mikið rétt, basilið fannst og maturinn heppnaðist fullkomlega, eins og minn á sínum tíma þótt ég hafi bara notað basil í duftformi, fann svo týnda basilið mitt síðar í ísskápnum og það var notað með tómötum og ferskum mozzarella-osti.

 

Nú vantar bara níu upp á að við séum 200 með smit á Skaganum (166 í sóttkví) og fréttir úr bænum af andláti berast nánast daglega. Kóvid-kortið segir 183 en löggan 191. Mér finnst hratt farið í afléttingar, skil að mörgu leyti hinn málstaðinn, sumir nenna þessu ekki lengur. Það er verið að segja „gleðifréttir“, tilkynna afléttingar dag eftir dag á meðan smitum fjölgar - og dauðsföllum. Ég ætla að halda áfram mínu annars frekar fábrotna lífi, búðir, Kaja kaffihús (reyndar lokað í dag vegna smits en opnar á mán.), fá vini í heimsókn og það allt, og læt mig hafa það ögn lengur að sleppa því að fara í sleik við ókunnuga. En þetta ástand líður undir lok fyrr en síðar. Dánartíðni á Íslandi (Stundin) er samt langlægst af Norðurlöndunum og víðar (takk, Þórólfur og co), eða 128 á hverja milljón, í Svíþjóð eru það 1.548, USA 2.711. Og þegar verið að líkja þessu við bara-flensu ... flensa getur nú verið slæm og árlega bólusett við henni. Ég fór tvisvar í flensubólusetningu í gamla daga, þá boðið upp á á vinnustað, fékk miklar aukaverkanir, man ég. Hvar voru mótmælendur þá?

 

BomsurÉg á ekki að blogga um covid, uppsker sem áhrifavaldur alltaf svo mikið hatur þegar ég geri það. Færri læk er auðvitað pjúra hatur, og nú þegar ég er komin upp í sjötta sæti aftur á hraðri leið í fyrirheitna-fimmta, verð ég að passa mig.

Heyri líka mömmu í huganum segja mér að hætta að bulla ... svo hér kemur alvaran: Nú þarf ég að herða upp hugann, skella mér í bomsurnar og hætta mér gangandi út í þetta hvíta landslag, bara út í Krambúð, hún er næst en yfir óhappamölina að fara, þaðan sem ég á blóðugar minningar af saumaskap í hné, og kaupa nokkrar nauðsynjar, það er farið að bergmála hátt í ísskápnum. Svo mikið var að gera í gær; í vinnunni, fá heilan smið í gluggavinnu og koma drengnum í helgardvölina að ég gleymdi að panta í Einarsbúð innan tiltekins tíma. Var búin að gera innkaupalista og allt. Ég á einn 1944-rétt, nokkra banana, kotasælu, útrunninn rjóma og frekar krumpað grænmeti. Get kannski gert veislumáltíð úr þessu, með glassúr? Kvöldmaturinn í gær var reyndar kotasæla og grænmeti plús síðustu eggin sem ég sauð í sjö mínútur. Gúrkan samt ekki nógu góð svo hún fór í ruslið.

Samt langar mig ekki í bíl. Strætó verður að duga en ókeypis innanbæjarbæjarstrætóinn keyrir bara virka daga - og skammarlegt að fara bara á næstu stoppistöð, ég yrði að haltra til að gera svo örstutta ferð þess virði að stoppa fyrir mér og hleypa mér út eftir eina mínútu. Það er stundum svo erfitt að vera gönguhatari.

 

Hótel BorgÉg heyrði nýlega að heyrnarskerðing sem ég glími við og hef gert alla tíð og áður bloggað um, að geta nánast bara heyrt eitthvað eitt í einu, hafa misst alla sætu sénsana á Borginni og Gauknum í gamla daga, af því að ég heyrði ekki ástarjátningar þeirra fyrir tónlistinni (öskraði bara HA?) ... gæti verið eitt einkenni ADHD. Það væri spennandi að fara í heyrnarmælingu einhvern daginn því stundum heyri ég kannski bling úr símanum mínum þar sem hann er í hleðslu í herberginu mínu og ég inni í stofu, þótt enginn annar heyri það. Stutt er síðan einhver sagði við mig: „Svakalega heyrirðu vel.“ Ég sit og hlusta stundum á tónlist við vinnuna (ekki á lægsta, ekki á hæsta) og ef drengurinn er kominn heim og reynir að segja mér eitthvað, kallar jafnvel hátt, heyri ég ekki orðaskil, verð að lækka alveg niður og biðja hann um að endurtaka. Mér finnst ekki sérlega líklegt að ég sé með ADHD (nema þá þetta eina einkenni) en þetta hafði ég aldrei heyrt áður. Bara aldurstengdar spælingar. Já, þrítugt og fertugt fólk fær alveg yfir sig aldursfordóma. Mun meiri en t.d. sextugt fólk.        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.3.): 64
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 1120
  • Frá upphafi: 1522379

Annað

  • Innlit í dag: 55
  • Innlit sl. viku: 974
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Uppistand Stefán
  • Mílanó
  • Símtal í strætó

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband