Fullir skápar, furðudraumar og bið eftir fárviðri

Lognið á undan storminumFrábæra Inga mín sá aumur á mér og hringlandi tómum skápum Himnaríkis og skutlaði mér í búð. Ég var búin að skrifa niður þrjá eða fjóra hluti sem vantaði, keypti samt ábyggilega 10, þá bara eitthvað sem fæst ekki í Einarsbúð. Ég bíð ekki eftir að hlutirnir klárist alveg áður en ég man eftir að kaupa þá og tryggi í leiðinni streituminna líf ... en salernispappírinn var í alvöru á síðustu gufunum og lítið hægt að pissa í kvöld nema þá fara í sturtu á eftir. Eftir að hafa hlustað á Veitur fer ekkert ofan í mitt salerni nema pappír við hæfi, svo t.d. costco-eldhúspappír er eigi nothæfur, ekki einu sinni í neyð. Ég keypti ágætan pappír, jú, jú, einhverjar 12 rúllur, ekki til í minna, og vistir að auki og fékk undarlegt augnaráð frá fólkinu í Bónus, af því að það er spáð fárviðri í nótt. 

 

Mín bara að hamstra? sagði augnaráðið (nema ég hafi misskilið og þetta hafi verið daður). Ég hugsaði ofsahvasst á móti: Ég hamstraði ekki wc-pappír þegar covid skall á, og ekki heldur núna! Fólk hrökklaðist undan ákveðninni í mér og leit í aðra átt skömmustulegt. Og skrambans nýi Royal-búðingurinn var uppseldur en ég kunni ekki við að biðja Ingu um að keyra á milli búða. Langaði svo að smakka hann, bara hálfa teskeið og gefa krummunum svo afganginn, vitanlega.

 

HelgarmyndinMig dreymir alveg rosalega mikið þessa dagana, stöku sinnum Einar, son minn, sem þá er á lífi eins og ekkert sé eðlilegra. Kærasta hans sagði mér í nótt að ég yrði amma núna í apríl. Strákur, minnir mig.

Í draumráðningabókum segir um drauma sem tengjast börnum, að best sé að eiga barnið sjálf og þá sveinbarn - ætli þetta tákni ekki bara góða hugmynd sem skellur niður í hausinn á mér í apríl? Á netinu segir að það sé fyrir góðum fréttum að vera ólétt. Að eiga von á barnabarni er þá sennilega fyrir sæmilegum fréttum, eða sennilega frekar ofsagóðum sem ég tel líklegra.

 

Ég ætlaði að slaka aðeins á í gærkvöldi, horfa á eins og eina mynd til að hreinsa hugann frá vinnunni áður en ég héldi áfram. Valdi gamanmynd á Stöð 2 um skartgripaverslun sem þjáist af skammtímaminnisleysi - en svo var þetta bara starfsmaðurinn í skartgripabúðinni og myndin svokölluð ástarvella. Svona orðaröð er svaka fín fyrir fólk sem þjáist af aulahúmor ... En þetta var hálfgerð stæling og ekki sérlega góð, á 50 first dates með Drew Barrymore og Adam Sandler - en ég tolldi samt yfir henni.

Svo er ég loks búin að flokka allar kvittanir 2021 niður á mánuði sem flýtir mikið fyrir okkur Hildu, hirðbókhaldshjálparkonu minni, um næstu helgi. Best að vera tilbúin áður en endurskoðandinn gargar eftir gögnum. Það hefði sparað mér stórfé að hafa haft endurskoðanda í gamla daga. Þá hefði ég borgað rétta skatta, ekki of háa eins og ég gerði þá. Ég var oft með eitthvað frílansdót, gaf það upp en ekki kostnað á móti svo ég borgaði árum saman of mikið. Ekki neinar milljónir, hahahaha - en kannski hefði verið gott að geta notað ögn fleiri þúsundkalla á ári. Vona bara að heilbrigðiskerfið hafi notið aukaauranna minna en ég reyndi með hugarorkunni að senda þá á sem réttu staðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 747
  • Frá upphafi: 1521263

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 590
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Kræst
  • Afmæli stráksa
  • Berdreymi ...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband