Sextán ár og enn er von

Akranes 2006Tíundi febrúar í dag, og nákvæmlega 16 ár síðan ég flutti í Himnaríki, 300 Akranesi. Seldi 56 fermetra íbúð á Hringbraut (þá 107 Rvík, nú 101) og fékk 99 fermetra með sjávarútsýni og borgað á milli sem dugði meðal annars fyrir yfirdekkingu á antíksófa og stólum, innrömmun á málverkum, ísskáp og baunavél (kaffi). Bjó á Hringbrautinni í átján ár, upp á dag og varð annar eigandi íbúðarinnar á sjötíu árum, þarna í gömlu Verkó og ég vona að gömlu hurðirnar og efri eldhússkápurinn hafi fengið að halda sér. Afrekaði meira að segja fá hina dásamlegu Völu Matt í heimsókn, Innlit-útlit á SkjáEinum, og veit ekki enn hvort ég á að vera móðguð þegar hún talaði um hversu gaman væri að koma í venjulega íbúð. Sindri Sindrason hefur ekki sýnt hinn minnsta áhuga á að koma í Himnaríki, mögulega fæla stöku þvottafjöll frá, það er sennilegt.

 

Þarna 2006 hétu heimiliskettirnir Tommi og Kubbur (kvk) en núna ráða ríkjum heiðurskettirnir Keli, Krummi og Mosi. Ég kvaddi með krókódílatárum geitungana og umferðarhávaðann og fékk í staðinn sjávarnið og máva. Verulega góð skipti. Mávar eru vanmetnir, þeir eru æði og sérlega duglegir að borða afganga á sumrin. Krummi sér um málin yfir vetrartímann. Og í stað Kjötborgar fékk ég Einarsbúð þar sem sama ljúfmennskan ríkir. Þetta voru góð skipti þótt mér þyki alltaf vænt um höfuðborgina mína samt.

 

Akranes 2015Mynd nr. 1 sýnir Akranes um svipað leyti og ég flutti þangað, mikið verk óunnið og Himnaríki enn ekki byggt, hvað þá Jaðarsbraut og íþróttamannvirkin. Langisandur var alltaf svo stór og mikill í minningunni (náði samt mynd) en sjórinn (kk) kominn svo miklu nær, allt karlkyns vill vera sem næst mér, held ég oft. Ef sest á mig fluga, er það strákur, ekki spurning.

 

Á mynd nr. 2 frá 2015 má sjá hverju ég hef áorkað í smíði húsa, göngustíga hér við sandinn og fleira, mér tókst meira að segja að færa Esjuna talsvert nær Akranesi en áður var. Himnaríki sést lengst til vinstri og fyrrnefnd tiltölulega nýkomin þá, Esja fyrir miðri mynd.

 

Mér líður afar vel hér í Himnaríki og held að sjórinn minn spili stórt hlutverk í því. Mannbætandi og heilandi að fylgjast með þessari elsku, síbreytilegri og flottri. Mín vegna mætti þó alltaf vera brim, mér finnst það langflottast. Bláfáninn mætti líka hanga uppi yfir vetrartímann líka, svo gott að fá vindáttina beint í æð ... en það er kannski óþarfa frekja, nægir alveg að fá oftar brim.

 

Nei skoEnn er gífurleg vinnuþrælkun Guðríðar í gangi, stefni á að klára verkefnið alveg á næstunni, hafði hugsað mér að blogga ekkert fyrr en því væri lokið, en sextán ára afmæli í Himnaríki kallar nú alveg á blogg, finnst mér.

 

Ég hef heldur ekki alveg afskrifað að vera komin á fast á mánudaginn kemur. Enn er von! Ég pantaði alla vega rómantískan mat fyrir tvo frá Eldum rétt fyrir okkur þrjú, ef það gengur upp, og fæ mér bara núðlur.

 

Samt hugsa ég stundum með hryllingi til þess að hitta kannski hinn fullkomna mann, ljúfan, fyndinn, skemmtilegan og auðvitað stórmyndarlegan - og svo þegar við værum gift færi hann að reyna að sannfæra mig um að jörðin væri flöt. Það væri vissulega pínku fyndið en samt ekki næstum því strax. Kannski um áttrætt. Eru stefnumót ekki einmitt til að ganga úr skugga um slíka hluti og flokka frá? Svo er heldur ekkert víst að slíkur maður vildi nokkuð með kringlóttjörðung að gera.

 

Vá, hvað okkur Skagamenn fer að vanta fleiri kaffihús fyrir stefnumót. Við erum með Kaju sem er æði og svo Grjótið sem er samt meiri matsölustaður þótt þar sé selt kaffi. Galito er með fínt kaffi og eftirrétti (köku, minnir mig). Læt svo vita hér hvernig gengur, auðvitað montar maður sig af ástamálum eins og öðru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 116
  • Sl. viku: 1094
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 887
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Kræst
  • Afmæli stráksa
  • Berdreymi ...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband