DIY í veðravíti febrúar og blóðugt barist á topp fimm

Himnaríki um helginaMamma hringdi í morgun, sérlega hress í bragði, og sú hafði fréttir að færa: 

„Veistu að þú er komin í topp fimm á blogginu aftur?“ sagði hún íbyggin. Ég var miklu neðar síðast þegar ég kíkti. Miklu.

„Þetta er ekki vinsældakeppni, mamma,“ mótmælti ég máttleysislega. Að vera Þingeyingur í aðra ættina og fá svona fréttir ... ég fann fyrir gífurlegu þakklæti fyrir að vera ein heima og enginn sæi roðann sem færðist yfir andlitið á mér, sigrihrósandi, stálhart augnaráðið og montsvipinn sem smurðist yfir munn og höku, einnig T-svæðið.

„Ekki í fimmta samt, þú ert komin í FJÓRÐA,“ hrópaði mamma svo glumdi í öllu á Eir. „En gættu þín á Trausta veðurfræðingi, nú er að koma svo brjálað veður sem hann á örugglega eftir að notfæra sér til að komast upp fyrir þig. Mikið er ég ánægð með að þú sért farin að ógna þessum körlum.“ Það kumraði í mömmu. Við kvöddumst með kærleikum og ég mun aldrei sjá eftir því að hafa kennt henni á iPad.

 

Efri myndina tók húsfélagsformaður hússins sem hýsir Himnaríki en hún er ekki bara fínasti formaður, heldur ansi góður ljósmyndari líka. (Myndir verða skýrari ef ýtt er á þær). Himnaríki er efst til hægri og ég þrái mest af öllu í heiminum (fyrir utan hnetulausa konudagsköku) að fá plexígler í svalirnar, svo ég hafi óheft útsýni alls staðar. Ef einhver fær leyfi til að byggja yfir sínar svalir ætla ég að nota tækifærið og sækja um leyfi fyrir því. Það getur ekki talist meiri útlitsbreyting en yfirbygging (sem mig langar ekki í). Sorglegt að sjá auða fánastöngina sem ætti að hafa bláfánann blaktandi svo maður sjái hvernig vindurinn blæs. 

 

Úfin og tættEftir þessar frábæru fréttir frá mömmu fannst mér ég geta allt, fór fram í stofu staðráðin í því að innsigla í eitt skipti fyrir öll litlu svalirnar sem lokast ekki nógu vel, vernda heimilið fyrir trylltu regni sem er víst væntanlegt. Þessi komandi suðaustanstormur með bleytu var ekki á áætlun hjá okkur Didda smið sem er búinn að panta þetta fína blikkdæmi til að setja neðst á litlusvalahurðina utanverða og sem á að ná vel niðurfyrir hana. Í stað þess að hringja í vælubílinn, tók ég til minna ráða. Vafði þrísamanbrotnum svörtum plastpoka utan um neðri hluta litlusvalahurðarinnar sem utan frá ætti að ná eitthvað niður fyrir hana og þroskuldinn og bjó þannig til smávegis hlífðardæmi. Ef þetta virkar ætla ég að sækja um einkaleyfi á því.

 

Verst að litlu DIY-myndböndin á Facebook eru bara um hvernig eigi að leggja stéttir, búa til grill í garðinum, setja flísar á baðherbergi og hitalagnir í gólf. Að hafa lært það nú um daginn var gagnlegt en gagnast mér ekki í kvöld. En ég á dagblöð, handklæði, svarta ruslapoka, grilláhöld og straubretti, einnig gríðarsterkt límband - svo ég er vel sett. Fyrirsögnin hér er dramatísk, veðravíti er ekki til í mínum huga, maður bara heldur sig inni. En ég ætla að berjast til síðasta blóðdropa við suma veðurfræðinga. Ég er Skagfirðingur í hina ættina! 

 

Neðri myndin sýnir vígalega húsfrú Himnaríkis monta sig af vonandi stórkostlegum viðgerðum sínum á austursvölunum. Úfin og tætt eftir veðrið og aðfarirnar en ætíð glæsileg. Regnkápan er úr Lindex, blái bolurinn úr glæsikvendabúðinni Long Tall Sally í London. Fór með hávöxnu glæsikvendi þangað 2019 (vorum í árshátíðarferð) og fann þennan fallega bol sem nær mér vissulega niður fyrir tær (ég er bara 1,70) en töff er hann. Svarti plastpokinn sem grillir í neðst til hægri er úr Einarsbúð. Myndin prentast frekar illa, einhverjar rákir undir gleraugunum sem best er að horfa fram hjá. Takið eftir því hvernig vasinn í glugganum og bolurinn minn kallast á. Svörtu skærin eru líka í samhljómi með regnkápunni sem þó er dökkblá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Borgarnesi veður vont,
vinsælt alla daga,
Trausti þar með frosinn front,
frakkur vill ei laga.

Þorsteinn Briem, 21.2.2022 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.3.): 12
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 893
  • Frá upphafi: 1520847

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 776
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Mínir menn
  • Fyrir og eftir
  • Trump trompar sig

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband