Spennandi símtal ...

Sætti mig við það sem ég get ekki breytt ...Dagurinn í dag var einn allra mesti letidagur lífs míns, ég las tvær bækur, drakk tvo kaffibolla, eldaði ágætis ER-kvöldmat fyrir tvo, helmingur etinn á morgun, blundaði í sófanum eftir mat og tók svo á móti óvæntu símtali. (ER=Eldum rétt)

-Er þetta Guðríður, áhrifavaldur á Moggabloggi? spurði ísmeygileg karlmannsrödd en þó mátti greina ógnandi undirtón í rödd hans.

-Heldur betur, og kölluð Gurrí - með einföldu, svaraði ég eldhress. Eftir ár mín í kókosbolluverksmiðjunni með Kidda kuta sem verkstjóra er ég öllu vön. Hann hikaði ekki við að hóta okkur rispum, jafnvel fingurmissi ef við kláruðum ekki 10 þúsund kókosbollur fyrir kaffi. Morgunkaffi.

-Ég hringi fyrir hönd L.S.D., hélt maðurinn áfram ógnandi. Alveg greinilega einn af þeim sem vildi hafa ý í Gurrí.

-Ha, er það ekki eiturlyf? spurði ég lífsreynd eftir að hafa alist upp á hippatímabilinu og enn öskureið yfir því að hafa hvorki komist á tónleikana með Led Zeppelin né Deep Purple vegna þess að ég var of ung, heldur varð að gera mér að góðu að hlusta bara á Sound of Music og Three Dog Night, nánast einu plöturnar á heimilinu.

-Hefurðu ekki heyrt talað um Landsamband saklausra dópsala? spurði hann gáttaður og hélt svo áfram: -Okkur líst ekki á bullskrif þín um okkar mann sem leggur sig allan fram við sölumennsku á Facebook, ekki laust við að það hafi fokið í okkur, ekki síst yfirmann Reykjavíkurdeildar BULL, og áður en þú spyrð stendur það fyrir: Bandalag ungra lurkanotenda og lemjara, svo gættu þín, ekki langt að skutlast til þín og mölva á þér hnén. Þá kemstu nú ekki í gönguferðir, gamla mín. Hann hló hryssingslega.

Gönguferðir, hnussaði ég í hljóði, það var þá missirinn - en að fara fram í eldhús og fá mér kaffi krafðist göngugetu svo ég ákvað að sýna honum í tvo heimana.

-Hmmm, hefur þú heyrt um L.A.R.F., væni minn? spurði ég og það var farið að síga í mig, maður skyldi aldrei vekja konu af fegurðarblundi og á milli bóka, þar að auki eftir bara tvo kaffibolla þann daginn.

-Er það eitthvað hönnunarmerki? hló dóninn en ég greindi samt örlítinn skjálfta í rödd hans. 

-NEI, það er Leitin að ríkri fyrirvinnu, félag sem ég hef verið í árum saman, bara vegna félagsskaparins, en það er fullt af brjáluðum desperat konum sem víla ekkert fyrir sér, við svífumst einskis. Dótturfélag okkar B.H. h/f ... sem þýðir Brotnir handleggir h/f sem þú hefur sennilega ekki heyrt um, við reynum að láta lítið fyrir okkur fara en LSH borgar okkur prósentur, svona ef þú vilt vita það. Einkennislag okkar er: Er nauðsynlegt að skjóta þá? Svo, hvað ertu að pæla?

Di, di, di, di ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 4
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 127
  • Frá upphafi: 1533183

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 106
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • DV í denn
  • DV í denn
  • DV í denn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband