Rússíbanareið eftir meint starfslok

Lætin í gærHann var aldeilis annasamur dagurinn í gær eftir að ég hafði stimplað mig út í síðasta sinn hjá Birtíngi. Síminn stoppaði ekki og óskýr skrif mín ollu því að margt fólk hélt að ég væri talsvert aldraðri en ég er og því komin á eftirlaun. Kommon, fólk. Jafnaldra Madonnu, nánast upp á dag og allir vita aldur hennar. Ég þarf víst að þræla og púla í nokkur ár til viðbótar. En það voru auðvitað gríðarleg vatnaskil í lífinu að vera ekki síamstvíburi elsku Vikunnar lengur og geta héðan í frá djammað að vild eftir hádegi í stað þess að vera föst til fjögur. Það eru næg verkefni fram undan, veit varla hvar ég á að byrja.

 

Mynd: Innan hrings = ég í gær þrátt fyrir allt.

 

Strax kl. 16.02 hófst rússíbanareiðin þegar hringt var frá S.U.K.K. (Sólarlagsheimili unglegra krassandi kósíöldunga) og ég skömmuð fyrir að hafa ekki enn sótt um, kona komin á þennan aldur, það væri 20 ára biðtími. Mér skildist að í hátölurum þar hljómaði til skiptis þungarokk og rapp og í eldhúsinu væri hræringur og þverskorin ýsa á bannlista. Hvar kaupir maður sér fölsuð skilríki?

 

Eternal Spirit-stofnunin í Sviss hringdi með spennandi tilboð, Hjálpartækjabankinn minnti á sig og ég átti gott spjall við Lush þótt erindið væri ögn móðgandi og bæri nokkurn keim af því að nú væri öllu lokið hjá mér í karlamálum. Sem er ekki rétt og ég skal sanna það á fimmtudaginn þegar ég verð búin í litun og klippingu. Ljósmyndir, eða það gerðist ekki!

 

Hugurinn reikaði óhjákvæmilega til ágústmánaðar 1996 þegar Séð og heyrt skrifaði um afmælið mitt, FERTUG OG FABJÚLUS (ég var útvarpsstjarna þá) árið sem ég varð 38 ára. Það var ótrúlegur skellur og fjórði (eða fimmti) eiginmaður minn skildi við mig út af þessu, „samband okkar var byggt á lygi,“ sagði hann og „hnuss, auðvelt að falsa nafnskírteini“. Hann var kallaður drama.

 

Hugurinn reikaði líka til 16. júní 2022 þegar 14 ára strætóbílstjórinn á leið 57 gaf mér afslátt á fargjaldi, „half price for 67 and older,“ og hló bara þegar ég skrækti brjáluð: „I am just 63!“ Alla þá sorgarsögu má lesa í bloggi nálægt þeim örlagadegi þegar minnstu munaði að ég endaði á Hólmsheiði ...

 

Veðrið hér við Langasandinn er afar gott, svo gott að ég dró fínu rúllugardínuna niður og setti viftuna í gang, sit við tölvuna í stuttermabol og ætla að skella mér í yfirlestur á frábærri bók á meðan drengurinn fer í sund. Leti og ómennsku leyfi ég mér að bíða með þar til síðar. En miðað við skjálftann sem reið yfir rétt áðan verður sennilega stutt í að ég dragi aftur frá, og íbúðin mín hækki í verði vegna útsýnis yfir gosstöðvar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 637
  • Frá upphafi: 1505990

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 514
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband