Lestrar- og jarðskjálftahelgin mikla

Beðið eftir gosi„Þér ætlið þó ekki, kæra fósturmóðir, að láta mig þurfa að neyðast til að njóta matseldar yðar í kvöld,“ sagði drengurinn kurteislega skömmu eftir hádegi í dag, rétt áður en hann fór í sund. Ég get verið móðgunargjörn en af því að hann sagði njóta, tók ég þessu vel. Svo bætti hann við: „Eigum við máske að fá okkur þverskorna ýsu og volgan hræring í eftirmat, stórkostlega matmóðir mín? Mig hefur ætíð langað til að bragða slíkan afbragðsmat sem ég hef bara heyrt af, fóstra mín góð.“

 

Mynd: Beðið eftir gosi.

 

Ég pantaði borð á Galito klukkan sex sem varð næstum því til þess að við misstum af stóra skjálftanum (5,5). Drengurinn var kyrr og fann hann, ég var á hreyfingu, að undirbúa brottför mína af heimilinu, heyrði brak og þyt og sá svo bara „gimsteinana“ á lampanum í glugganum dingla ansi hreint kröftuglega og hugsaði hlýlega til Grindvíkinga.

 

Þetta átti ekki endilega að verða brjáluð lestrarhelgi, líka smávegis vinna, en mér tókst nú samt að komast yfir tvær skrambi fínar bækur á kostnað þess að baka súkkulaðiköku. Undir yfirborðinu var ansi grípandi og spennandi, vildi helst ekki að henni hefði verið líkt við vissa bók, það var hálfgerð Höskuldarviðvörun í því. Ekta sálfræðitryllir þar sem enginn var sá sem hann sýndist og ástæða fyrir öllu ...

 

2 bækur um helginaÉg hef átt í hálfgerðu ástar- og haturssambandi við bækur Sophie Kinsella eftir að hafa lesið kaupalka-bækurnar því mér fannst hún gera lítið úr konum þar (átti að vera fyndið en mér var ekki skemmt) og ég átti ofboðslega erfitt með að samsama mig með söguhetjunni sem fór út í búð til að kaupa trefil en kom heim með þrjá af því að þriðji var ókeypis - þannig sparaði hún!?! Mér fannst eins og hún hefði fengið innblásturinn úr reykmettuðum bakherbergum karlaklúbbanna þar sem stóra samsærið var búið til, að innræta því í konur að þeim þætti svo gaman að fara í búðir, bara svo karlarnir slyppu. Ótrúlega margar konur féllu fyrir þessu en sífellt fleiri hafa þorað síðustu árin að opinbera að þeim leiddist að kaupa inn. Nýrri bækur Sophie eru betri, finnst mér, samt skín alltaf í það hjá henni að konur á framabraut verði ekki jafnhamingjusamar og hinar - það sé t.d. miklu betra að elda mat og þrífa klósett en vera sístressaður meðeigandi á lögfræðistofu. Mér fannst nýjasta bókin, Engin heimilisgyðja, samt skemmtileg. Þetta er bara nöldur í manneskju sem las alltaf margar bækur með boðskap og innrætingu þegar hún var krakki. 

Dæmi: Pollýanna (læra að gleðjast yfir hækjum í jólagjöf), Leyndarmál Winters gamla (gamall geðillskupúki endurheimti fjölskyldu sína og lífshamingju í gegnum trúuð börn sem frelsuðu hann), Blómakarfan (kona skyldi alltaf merkja körfur sem hún fléttar svo hægt sé að finna hana löngu síðar og biðjast fyrirgefningar á að hafa þjófkennt hana blásaklausa og rekið út á gaddinn með litlu dótturina). Man mest eftir Pollýönnu, hinar hef ég ekki lesið síðan ég var lítil.

 

Ég hef aldrei skilið almennilega fyrr en kl. 18 og svo aftur kl. 19 í kvöld hvað það er að vera létt á fæti. Hélt alltaf að þetta væri orðatiltæki hjá lötu fólki sem segði við yngra eða grennra fólk: Æ, þú ert svo létt á fæti, ertu til í að sækja vatnsglas fyrir mig / rétta mér fjarstýringuna.“ En þegar við stráksi gengum heim eftir fínasta mat hjá Galito í kvöld fannst mér ég nánast svífa (báðar leiðir) og tengi það hiklaust við minnkandi covid-keppinn. Eina sem ég geri samt er að borða á milli kl. 12 og 20 ... og bara eins og venjulega, hvorki meira né minna, nema sykur í lágmarki. Samt seinlegur fjandi fyrst ég hreyfi mig ekki meira, ég hefði kosið að vera alveg laus við keppinn fyrir afmælið, 12. ágúst, en ég var svo sem ekki búin að ákveða árið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 646
  • Frá upphafi: 1505999

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 523
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband