Að sjá fram í tímann - náðargáfa í ættinni

skagatraffikÆtt mín er samansett af fjölbreytilegum og skemmtilegum einstaklingum, eins og ég hef oft montað mig af. Dásamlegt fólk bæði í móður- og föðurætt og stöku sérkennilegir einstaklingar líka auðvitað sem krydda bara tilveruna. Systir pabba sá lengra en nef hennar náði og það kom meira að segja fram í útfararræðunni yfir mömmu núna 20. júlí sl. að hún hafi fengið bréf frá þessari fyrrum mágkonu sinni þegar við vorum eiginlega nýflutt til borgarinnar (1971) þar sem sagði að mamma myndi kynnast góðum manni. Nafn hans byrjaði á S-i og einnig nafnið á bílnum hans. Og viti menn, mamma og Siggi kynntust einhverjum mánuðum seinna, og hann ók um á Saab. Þriðja S-ið var þarna líka, því þau kynntust á Hótel Sögu. Kæmi mér ekkert á óvart þótt þetta hafi gerst í september, alla vega á seventís-tímabilinu.

 

Langafasystir mín í móðurætt var þekkt fyrir að lesa í garnir og spá fyrir um veður og slíkt með því að skoða þær. Ég hitti hana meira að segja einu sinni, var þá í landsprófsbekk á Sauðarkróki með einni frænkunni sem bauð mér í helgardvöl í Hegranesið og í félagsvist í sveitinni. Sigurlaug leit á þessa nýju frænku sína og sagði: „Jú, þú ert með ættar-ennið.“ 

 

En nú held ég að þessi gáfa sé farin að færast yfir á mig upp á að sjá framtíðina. Síðastliðna nótt dreymdi mig að ég hefði farið 90 ár fram í tímann. Sundabraut var komin og lá yfir stóru bryggjuna á Akranesi og hafði verið byggð af Kínverjum sem litu á Akranes sem góðan fjárfestingarkost, enda orðin höfuðborg eftir að svo margir færðu sig yfir flótann vegna pirrandi eldgosa í grennd. Það var ekki enn búið að finna upp flugbíla! Sem betur fer hafði ég vit á að spyrja nokkurra mikilvægra spurninga, um hluti sem alla langar að vita.

 

Hvað stóð í erfðaskrá Filippusar prins sem þurfti að frysta í 90 ár til að vernda bresku konungsfjölskylduna? Sko, sagði sagnfræðingurinn sem ég hitti fyrir tilviljun, kjaftasögurnar voru sannar varðandi fleiri börn sem hann vildi að nytu auðæfa hans, það voru þó barnsmæðurnar sem komu á óvart; Mary Hopkins, Lulu og Twiggy, konur sem voru þekktar á sjöunda áratug síðustu aldar. Afabarn hans, Vilhjálmur sigursæli, ríkti þó ekki lengi því hann setti kórónuna á hilluna til að geta helgað sig bogfimi og talaði í kjölfarið af sér um kórónuveiruna sem hann kvaðst vera loks laus við, enginn skildi almennilega hvað hann átti við fyrr en hálfri öld síðar. Öllum til furðu tók Harry bróðir hans við veldissprotanum en Lillibeth, dóttir hans, er nú ríkjandi drottning Litla-Bretlands. Archie, ögn eldri, kom ekki til greina - miðbörn höfðu náð völdum í heiminum og bönnuðu að farið yrði eftir aldri. Erfingjar t.d. krúnu þurfa að draga spil, sagði sagnfræðingurinn sáttur, enda ekki elsta barn.

 

Hver verður ritstjóri Morgunblaðsins 2112? Davíð Oddsson.

 

Hvað með Covid? Loksins eftir að Covid-99 gerði sig líklegt til að vaða yfir heimsbyggðina náðist í skottið á kvikindinu sem hefur stökkbreyst endalaust í áratugi og strítt ófáum Þórólfum. Það tafði líka þróun bóluefnis í takt við það hve margir sáu ofsjónum yfir gróða lyfjafyrirtækjanna (Ég drepst frekar en að láta þessa aumingja græða á mér-fólkið). Um svipað leyti misstu prófarkalesarar allan tilverurétt því það þótti ekki við hæfi að þeir stórgræddu á stafsetningarvillum annarra. Bill Gates IV. tók af skarið og fjármagnaði sigurinn yfir covid. En svo kom í ljós árið 2100 að þetta var allt saman eitt risastórt samsæri. Ekki til nafnið Bill í heiminum og kórónuveiran tengd bresku konungsfjölskyldunni og vissum markaði í Lundúnum. Portobello-markaðurinn þótti líklegur, enda hippalegur og beit ekki hinn enski hippalegi Ozzy Osborne hausinn af leðurblöku í denn? Ekkert hefur sannast enn, þrátt fyrir að Ireland Yard (Írland yfirtók Skotland 2058) hafi rannsakað málið í áratugi.

 

Hvað með hamfarahlýnun, einhver lönd sem hafa sokkið í sæ? NASA fann upp risaryksugu sem náði að sjúga upp fullt af sjó og fara með upp í geim. Dældu honum inn í fínasta svarthol sem fannst 2039 - af íslensku geimvísindafólki - á Akranesi. Ýmsir sjónaukar hafa síðan þá numið eitthvað sem gætu sýnt sístækkandi fiskalíf þar. Samherji fór á fjárlög sem þurfti því kvótaerfingjum fjölgaði þótt fiskunum fækkaði. Allir sáttir við það.

 

MYND: Ég er alltaf með gemsann á mér sem kom sér aldeilis vel í nótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Davíð Oddsson, sem er fyrir margt löngu kominn út í móa eins og Mogginn, heldur greinilega að hann sé ómissandi og kirkjugarðar heimsins geyma jú ómissandi fólk. cool

Þorsteinn Briem, 5.8.2022 kl. 20:07

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Skemmtilegur og fræðandi pistill. Mér þótti merkilegt að lesa um langafasystur þína sem las í garnir og spáði fyrir um veður þannig. Það er hefð sem er komin beint úr Ásatrúnni og öðrum heiðnum trúarbrögðum. Fólk í Ásatrúarfélaginu er einmitt með það á hreinu að sú trú dó aldrei út í rauninni heldur lifði með þjóðinni, í siðvenjum, orðtökum, mannanöfnum, þjóðtrú og örnefnum. Þetta styður það.

Ingólfur Sigurðsson, 7.8.2022 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 626
  • Frá upphafi: 1506025

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 512
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband