Hannyrðahefnd og hrekkur

Svona einmittStundum á maður ekkert endilega að reyna að bæta heiminn með því að uppræta hannyrðaglæpi. Ég hef nánast rökstuddan grun um að ég hafi gert vissum hópi skráveifu með afskiptum mínum undanfarið. Ég hef í dag X-að þessar heklsíður - sem gefur mér mánaðarhvíld frá þeim (þær birtast hjá mér þótt ég sé ekki „vinur“) en sá eina færslu, um 12 tíma gamla, með aðeins örfáum lækum og hjörtum þrátt fyrir átakanlegan textann. Kannski áttaði fólk sig eftir að hafa séð 50-100 svona færslur á einni viku ...

 

 

Eldsnemma í morgun, kl. 9.23 nákvæmlega, hringdi gemsinn og dularfullt óíslenskt númer kom á skjáinn á símanum mínum sem lét mig vita að þetta væri frá greinilega víðsjárverða útlandinu Marokkó. Þangað hef ég aldrei komið og þekki engan þaðan en þykist vita nú að gæti tengst hekli. Ég reiknaði í hvelli þversummuna af númerinu og útkoman var 3 sem er meinlaus tala en tengist einhverju skapandi, skilst mér, og hvað er meira skapandi en að hekla og prjóna? Að sjálfsögðu svaraði ég ekki. Ég er ekki fáviti.

 

Svo um þrjúleytið þar sem ég sat við tölvuna og vann heyrði ég þrusk og sá útundan mér hreyfingu, leit upp og sá að einhver í úlpu og með hvíta grímu fyrir andlitinu stóð í dyragættinni og starði illúðlega á mig. Dagar mínir taldir, hugsaði ég eitt sekúndubrot og fann fyrir þakklæti ... að hafa þó náð að upplifa hljómsveitina Trúbrot, Harry Potter og Pixies áður en ég kannaðist við grímuna. Með taugarnar þandar en engan skjálfta í rödd, sagði ég við drenginn sem hafði fengið þessa arfaslæmu hugmynd akkúrat í dag: „Ertu að reyna að drepa mig?“ Stráksi flissaði en óttaðist samt greinilega að mér hefði ekki orðið nægilega bilt við - miðað við að ég öskraði ekkert og datt ekki úr skrifborðsstólnum. Vissulega gaf ég honum þessa grímu í jólagjöf eitt árið sem gæti hafa bjargað mér frá öskrum og falli. Auðvitað er ég líka þónokkuð lífsreynd. Ég kippi mér ekki upp við neitt núorðið - nema ef vera skyldi vont kaffi, þverskorin ýsa, hræringur, sund, dauðadrukkið fólk og fleira. En nú er ég að fara að búa til plokkfisk - frá Eldum rétt. Nammi-namm. Fiskbúðinni var nær að taka ekki betur í frábæra hugmynd mína um heimsendingar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 45
  • Sl. viku: 662
  • Frá upphafi: 1506061

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 547
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband