Fjör í samkvæmislífinu og góðar veðurfréttir

kaffihús nammVerulega skemmtileg Reykjavíkurferð eftir hádegi í dag til að hitta gamla vinkonu sem ég hef ekki séð í mörg ár. Hún er orðin borgarbúi síðan þá og ég landsbyggðargella, var öfugt áður. Ég hef reyndar alltaf verið snjöll við að velja mér vinkonur ... ein var erfðaprinsessa í gosdrykkjafyrirtæki, önnur í sælgætisverksmiðju, enn önnur átti frystihús - og þetta þýddi auðvitað allar hirslur mínar fullar af frystum fiski, konfekti og gosdrykkjum ... en þessi vinkona slær öll met; hún á heilt KAFFIhús, Bókasamlagið í Skipholti! Það stendur þar sem skemmtistaðurinn Röðull var eitt sinn en fólk eins og ég, 78-kynslóðin, var notað til að passa börn þeirra sem djömmuðu þar eða í Þórskaffi á næsta horni fyrir neðan. Einhvern tíma nær í tíma var þarna Ruby Tuesday-matsölustaður en núna sem sagt komið ótrúlega flott og gott kaffihús. Verð samt að viðurkenna ákveðna fordóma hjá mér sem ríktu FYRIR heimsóknina. Ég var að hugsa um að taka með mér fernu af kaffirjóma til að geta drukkið kaffið því haframjólk var ábyggilega einhver hroðalegur hryllingur, var ég viss um.

 

 

Hún sótti mig sem sagt í Mjódd og saman fórum við á Bókakaffihúsið hennar sem er vegan. Ég sýndi algjöra hetjulund og fékkst til að smakka vöfflur með súkkulaði (flórsykur, kakó, kaffi) og veganrjóma, smakkaði líka kleinu og nýbakað crossant með suðusúkkulaði (ekki nutella) og fannst þetta allt mjög gott. Kaffið algjör dásemd og sóttur var hafra-RJÓMI út í kaffið fyrir hefðarfrúna af Skaganum sem var himinsæl með þetta allt saman. Kaffið sjálft ekki amalegt, heldur frá Kaffibrugghúsinu sem eru verulega góð meðmæli. (Sama og á Rjúkanda á Snæfellsnesi sem varð til þess að mig langaði að flytja þangað). Við sátum í sófa á efri hæðinni og horfðum niður í kaffihúsið (sjá mynd af vinkonunni að koma upp stigann, skjáskot af Snapchat) en fyrir aftan okkur voru básar og þar sat fólk sem vildi meiri rólegheit, þarna var m.a. þýskur þýðandi við vinnu sína.

 

Elsku voffiVið lögðum svo af stað til baka rétt rúmlega fjögur frá Skipholtinu að Mjódd, ákváðum að keyra Lönguhlíð og svo Miklubraut í austur alla leið að Ártúni. Enn í Lönguhlíð kl. 16.24, brottför strætó kl. 16.29, og við engar stresskerlur svo það ríkti bara æðruleysið eitt. Svo á Miklubrautinni rétt hjá gamla Tónabæ kl. 16.35 ákvað elsku hjartans vinkonan að skutla mér alla leið á Skagann á fína rafmagnsbílnum sem er svo fullkominn og flottur að ég náði ekki að opna hann í Mjódd, enginn hurðarhúnn ... bara ósýnilegur takki til að ýta á - ég veit það núna. Við ókum sem leið lá alla leið að Himnaríki þar sem allt var kæfandi heitt innandyra, óþolandi þegar haustlægðirnar komast ekki rétta leið vegna skrambans hæðanna sem ríghalda sér yfir landinu. Síminn minn sýndi 10 stiga hita um eittleytið úti á stoppistöð en ég held að það hafi verið fölsun, samsæri veðurfræðinga til að ég flytji ekki til Grænlands eða Alaska (látum Gurrí halda að það sé kaldara-samsærið), ég er eiginlega handviss um að það hafi verið 13-14 stig raunverulega. Kettirnir eru líka lamaðir af hita og sækjast í að vera fyrir framan viftuna, helst ofan á lyklaborðinu svo ég noti nú hendurnar frekar í að klappa þeim. Ef það væri nú bara einhver vindur en það verða víst 9 m/sek á morgun sem er skárra en ekkert og rigning, sagði sæti veðurfræðingurinn áðan. (jesss)

 

Ekkert lát er á dásemdum þegar kemur að samkvæmislífi Himnaríkis. Í ágúst var lágstemmt en hávært og fámennt afmæli haldið, í dag hittingurinn á Röðli og nú á laugardaginn verður hér bröns ... þrjú fullorðin (með mér og drengnum, þar af ein lystarlítil) og tvö börn. Hvar finn ég góðar hugmyndir að flottu en litlu brönsboði? Vöfflur eða kannski frekar litlar ammrískar pönnsur? Á ég hlynsíróp? Rennur hlynsíróp út? Ætli sé erfitt að gera Egg Benedict? Er sniðugt að fara bara í bakaríið og kaupa rúnnstykki og álegg? Eða í sturluð flottheitin sem mig langar mest; fá sent bland á bakka (enn heitt) með þyrlu frá einhverjum fínum stað í bænum (Galito er ekki lengur með bröns) ... en eru ekki allar þyrlur í viðgerð og þrifum eftir eldgosið? Kallabakarí er líklega málið ... Ég á freyðivín inni í ísskáp síðan Oddfellow-konurnar heimsóttu mig í vor ... stráksi er undir aldri, eins og börnin sem koma og systir mín á bíl ... alveg spurning samt.

 

Neðri myndin var tekin á Selfossi um árið (fékk hana senda í dag) og minnti mig enn og aftur á þá furðulegu staðreynd að manneskja (ég) sem elskar hunda svona heitt hefur ekki átt hund síðan 1981. Búseta á þriðju hæð er sennilega innikattavænni. 

 

Facebook var að rifja upp minningar síðan 7. sept. 2014: 

Samtal í bíl.

Hann: Hvernig finnst þér þetta lag?

Ég: Allt í lagi.

Hann (2 sek síðar): En núna?

Ég: Bara fínt.

Hann: Gallinn við þig er að þú getur ekki skipt um skoðun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 39
  • Sl. viku: 662
  • Frá upphafi: 1506061

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 547
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband