Plat og prettir og þetta "eina" sem karlar vilja

Blekking 3Allrahanda plat og prettir hafa viðgengist í gegnum tíðina og ýmsir glæpónar nýta sér Internetið til að svíkja óteljandi marga. Ég lenti nýlega í óteljandi-hópnum, þegar sakleysisleg eldri kona, Aðalbjörg að nafni, reyndi að gefa mér háa fjárhæð þar sem hún var sjálf við dauðans dyr. Við vitum flest að böggull fylgir ætíð skammrifi þegar svona skilaboð berast. Til að fá milljónirnar frá Aðalbjörgu hefði ég þurft að reiða fram einhverjar upphæðir sjálf til að liðka fyrir en sæi aldrei krónu af „gjöfinni“.

 

Ég nennti ekki að tilkynna hana, blokkaði frekar, Facebook er nefnilega ansi hreint eftirlát við ýmsa svindlara og orðljóta rasista eða transfóbíska. En ... ef þú vogar þér að segja heil-lin við fb-vinkonu þegar þú óskar henni til hamingju með afmælið, eftir að hafa fengið viðvörun fyrir að gera grín að nýnasistum, grín sem ekki skildist, þá er þér umsvifalaust fleygt út. En að láta sér detta í hug að einhver falli fyrir þessari frægu blekkingu, þegar látlaust er varað við svona svikahröppum. Íslenskan hefur vissulega skánað til muna í þessum póstum og nú hef ég alveg hætt að fá bréf frá lögmanni í útlöndum sem segir mér að gamall frændi minn, John Haraldsdóttir, sé látinn og hafi arfleitt mig að auðæfum sínum. Ég sakna þess ekki þótt það hafi stundum verið fyndið. 

 

Strax í barnæsku er byrjað á blekkingunum:

-Ef þú verður ekki þæg, verður þú send í Villingaholt. (Vissi í æsku að það gæti ekki verið til staður með þessu nafni) 

-Ef þú verður ekki þæg, gefur jólasveinninn þér ekkert í skóinn. Kartöflur voru ekki mikið notaðar til óttastjórnunar á mínu heimili. (Þetta virkaði einna best)

-Ef þú borðar of mikið poppkorn festist það inni í þér og það þarf að skera úr þér botnlangann. (Borða örsjaldan poppkorn) 

-Ef þú skrökvar verður tungan á þér svört. (Trúði þessu ekki lengi)

-Ef þú bendir upp í himininn á flugvél, mun hún hrapa. (Finnst enn hálfóþægilegt að sjá fólk gera þetta)

-Ef þú drepur járnsmið (skordýrið) hrapar flugvél. (Myndi aldrei drepa járnsmið, punktur)

-Ef þú hættir ekki að naga neglurnar muntu aldrei giftast. (Ég nagaði neglur frá 8 ára til 58 ára, fyrsta gifting mín var þegar ég var 22 ára og þeim átti bara eftir að fjölga)

 

BlekkingHvítar lygar sem fá börn til að fara snemma að sofa hálfan mánuð á ári eru algjörlega réttlætanlegar ... en sumt er óskiljanlegt. Af hverju má ekki benda á flugvél? Af hverju var það kallað að skemmta skrattanum ef maður söng við matarborðið?

 

„Karlmenn vilja bara eitt,“ sagði mamma stundum við mig þegar ég var unglingur, án þess að hirða um að útskýra það nánar. Eitthvert hræðsluáróðurslygabull, hugsaði ég. Loksins, eftir mörg hjónabönd, komst ég að því hvað hún meinti. Þetta EITT sem karlar vilja í raun er að fá að fara í búðir og versla óáreittir án þess að vera dæmdir fyrir það. Þeim hefur sumum verið innrætt að þeir eigi að láta konum það eftir ... fáránlegt. Þannig helst einhvers konar ógnarjafnvægi í hjónaböndum, eiginlega í lífinu á jörðinni.

Tek mig og Halldór fjanda sem dæmi um hið gagnstæða ... þegar við fórum saman í flotta og stóra vöruhúsið í Washington-ríki um árið. Ég missti lífsviljann eftir fimm mínútur á meðan fjandi fataði sig upp ofsaglaður. 

-Ha, tóm karfa? sagði hann felmtri slegin þegar við hittumst loks á landamærum karla- og kvennadeildar.

-Jamm, ég fann ekkert, eigum við ekki að drífa okkur!

Á næstu tveimur mínútum hraðvaldi hann, alveg fumlaust, á mig úlpu og kápu en sá hafði allan tímann verið tilgangur búðarferðarinnar. Úlpan reyndist vera nr. 22 og kápan 20. Tók ekkert eftir því þegar hann neyddi mig til að máta, og hann ekki heldur, vanalega nota ég nr. 16. Sú uppgötvun var gerð eftir heimkomu til Íslands.

 

Blekking 2Ég seldi kápuna og gaf drapplitu úlpuna eftir um það bil ár. Notaði kápuna ekkert, en úlpan kom sér afskaplega vel og ekki bara sem vörn gegn kulda. Þetta ár hafði ég getað farið með kettina innanklæða í vinnuna nokkrum sinnum og heim aftur án þess að nokkur tæki eftir búrunum, faldi líka stöku fjölskyldu þar, sem hafði ekki efni á fargjaldinu með strætó. Þvottavélin kom eitt sinn með, fór í viðgerð í bænum, heim aftur, líka undir úlpunni og enginn sá neitt athugavert.

Þessi úlpa var dýrgripur. Þótt ég liti sannarlega ekki vel út í henni og missti allan séns (með fölva í vöngum vegna litarins, ég "dey" í drapplitu, og minnti ég óneitanlega á Eric Cartman úr South Park, jafnvel Hulk, ljósbrúnn Hulk) en karlvanhylli mín stóð vissulega bara í þetta eina ár.

Þegar við sonur minn fórum í tískubúðina Nínu þar sem ég keypti árlega handa honum skyrtu í sumargjöf, settist ég fljótlega í "karlahornið" (kommon) og fletti tímaritum á meðan hann virtist skemmta sér vel við að leita að flottri skyrtu.

Ég held að þessi kenning mín sé rétt, þetta er alla vega reynsla mín og að auki sé ég karlmenn mjög oft í búðum og yfirleitt alltaf glaðlega og káta, og ef það sannar ekki mál mitt veit ég ekki hvað ætti að gera það ...

 

Það er alltaf verið að reyna að plata okkur á einn eða annan hátt! Mitt hlutverk í bloggheimum ætti auðvitað að vera að fletta ofan af blekkingum. Að minnsta kosti þegar ég finn nógu góðar afsannanir, eins og núna!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 28
  • Sl. sólarhring: 37
  • Sl. viku: 529
  • Frá upphafi: 1525908

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 479
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband