Plebbaskapur og sjónvarpsforðun

Viltu lækkaAldrei að hlusta á of háværa tónlist, þá skaðar þú heyrnina, aldrei horfa of mikið á sjónvarp, þá verða augun í þér ferköntuð, aldrei lesa við lítið ljós, þá verður þú sjónlaus, aldrei þetta og aldrei hitt, hljómaði í eyrum okkar 78-kynslóðarinnar og ég áttaði mig þann 11. september 2001 að litla systir hafði tekið mömmu helst til of hátíðlega. Þar sem ég sat stjörf við útvarpstækið í bílnum hennar og fylgdist með fréttum af flugvél sem hafði flogið á tvíburaturn, sagði hún ofurlítið pirruð: - Ertu til í að lækka? Jú, vissulega var útvarpið hátt stillt en þetta var stórfrétt! Við sáum seinni turninn falla í smástoppi í sjoppu í Borgarnesi.

Enn sé ég eftir sparnaði mínum varðandi sjónvarpsefni því um mánaðamótin ágúst, september þetta ár hafði ég sagt upp fjölvarpinu og var því ekki með aðgang að Sky eða CNN. Þetta úrskýrir kannski eyðslusemi mína núna varðandi sjónvarpsstöðvar, með aðgang að öllu nema Viaplay og Vodafone-bíódæminu (og opnað fyrir Barbie-myndina þar í dag, skrambans). Kannski er þetta ótti við að missa af einhverju, svo sterkur að þó að ég sé nánast alveg hætt að horfa á sjónvarp, er ég áskrifandi að þessu öllu saman. Mig langar svoooo mikið í Viaplay, bara út af sniðugum þætti um Norðmann sem breytir íbúðum og húsum og er svo skemmtilegur, bæði maðurinn og þátturinn. Já, og af hverju er Fine Living-stöðin hætt á fjölvarpi Símans? Löngu hætt! Þá stöð gat ég horft mikið á og skemmt mér yfir alls konar endurbótaþáttum, held að þeir hafi ekki síst átt þátt í því að ég lét vaða í að gera upp Himnaríki. Hvernig væri ef t.d. Byko, Húsasmiðjan, Bauhaus, Jysk og IKEA, já, og miklu fleiri, sameinuðust um að pressa á sjónvarpsstöðvarnar að sýna fleiri svona þætti? Ég gúglaði HGTV, ýtti á þar sem stóð þættir og fékk ... só sorrí, landið þitt hefur engan rétt til að horfa á þessa þætti, eitthvað slíkt. En á YouTube er reyndar að finna fjölda gamalla þátta með tvíburunum Scott og Jonathan, Property Brothers, My Dream House og mögulega með fleiri endurbóta-stjörnum en þeim tveimur. Ég hef horft svo mikið á þætti tvíburanna að ég þekki þá auðveldlega í sundur ... þeir eru sko eineggja. Ég er ekki að tala um klisju-vinnuskyrtuna sem Jonatan smiður klæðist yfirleitt og klisju-jakkafötin sem Scott fasteignasali er oftast í. Stöð 2 hefur sýnt t.d. My Dream Home með þeim (takk, elsku Stöð 2) og svo er auðvitað Gulli byggir mjög skemmtilegur þáttur. Einhverjir keppnisþættir á milli tvíburanna hafa verið sýndir líka en þeir voru ekki jafnskemmtilegir, fannst mér, og þessir nefndir hér að ofan.

 

Scott og JónatanEitt sinn í blaðamannafríi heimsótti ég Elfu vinkonu til Bandaríkjanna í mánuð og festist þar yfir HGTV (Home and Garden tv), sjónvarpsstöð sem sýndi eingöngu slíka þætti. Elfa og Tom unnu auðvitað bæði og þar sem ég er sjálfrisérnæg-gestur sem þarfnast ekki endalausrar athygli og skemmtunar frá gestgjöfum mínum, fannst mér frekar gaman suma dagana að hekla yfir endurbótaþáttunum. Það gaman, að þegar þau buðu mér kannski (ókei, einu sinni) að koma niður í stofu þar sem stóra sjónvarpið var og horfa á áhugaverða sænska vandamálamynd, jafnvel sannsögulega, afþakkaði ég ... vildi ekki vera þriðja hjól undir vagni í þjáningunni ... Þá var nú meira gaman að sjá Jónatan brjóta niður veggi og byggja upp með bróðurinn á kantinum sem seldi kannski flottheitin. Heitir þetta ekki að vera plebbi? Jú, ég er plebbi.

Svo voru þættirnir Fixer Upper, Love it or List it, Good Bones og fleiri frábærir. Best að tékka líka á þeim á YouTube, þar fyrirfinnst allt, djásn sem drasl. En þar eru bara fyrstu tíu mínúturnar af Max, myndinni um sjefferhundinn sem átti að horfa á sl. föstudagskvöld í bústaðnum og tæknilegar ástæður réðu því að við prófuðum YouTube með þessum ömurlega árangri.

Úti í Frakklandi 2018, horfði ég á ótal þætti með tvíburunum knáu, þar sem við sátum, ég og gestgjafinn, hámhorfðum á þá á YouTube og reyktum á okkur gat. Nú eru komin rúm þrjú ár síðan ég hætti að reykja, jesss.

 

Þetta sjónvarpsglápsleysi mitt er ekkert alslæmt endilega. Innst inni er ég viss um að það safnist upp svakalega mikið magn af stórfenglegu efni sem ég, þegar ég fæ löngun aftur til að horfa, helli mér út í af miklum krafti. Það eru nokkrir þættir, eða þáttaraðir, sem ég er spennt fyrir. Eins og The Lincoln Lawyer, lögguþáttur á RÚV, Happy Valley, sem bíður mín í Sarpinum og fleira og fleira. Einn daginn fékk ég hreinlega ógeð. Lengi vel kveikti ég á fréttunum, nú gerist það kannski einu sinni í viku, varla það, ég sem var fréttasjúk. Kannski "óverdósaði" ég, fékk mig fullsadda af eldgosum og covidum? en samt, fyrr má nú vera. Veit að stráksi saknar hljóðsins í sjónvarpinu á kvöldin og kveikir stundum, honum finnst það, held ég, eðlilegra ástand en þögnin, Storytel eða Skálmöld.

 

ViðreynslulínurMamma hafði þó mögulega rétt fyrir með eitt ... eða tvennt, ekki þó sjónvarpsforðun mína, en ég stalst oft til að lesa með götuljósið sem einu lýsinguna, þegar búið var að slökkva og ég átti að vera sofnuð, og ég er sú eina systkinanna sem er nærsýn (pabbi og mamma voru heldur ekki nærsýn) ... Kannski tilviljun, kannski ekki. Ég hef líka farið á marga háværa tónleika, bæði rokk og sinfóníu, og hlustað á tónlist heima mjög hátt stillta. Það gæti hafa gert eyrunum skaða ... en ástæðan fyrir því að ég lendi ekki á séns nema á heimatilbúnu táknmáli á djamminu, er sú að ég heyri nánast ekkert tal ef hávaði er í bakgrunni, t.d. músík. Að öðru leyti heyri ég mjög vel. Ég hefði átt að læra varalestur og ég get í raun bara giskað á það sem strákarnir sögðu við mig á Gauknum og Borginni fyrir nokkrum árum ...

-Þú ert svo svakalega fögur, viltu dansa? -HA?

-Viltu sopa? -HA?

-Má bjóða þér í glas eða viltu bara peninginn? -HA?

-Ekki dansa? Ertu lesbía? -HA?

-Eigum við að koma heim til mín og skoða frímerkið mitt? -HA?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 33
  • Sl. viku: 556
  • Frá upphafi: 1525869

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 503
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband