Hremmingar í morgunsárið

Vettvangur morgunsinsMorgunninn var ótrúlega erfiður. Stráksi gat „sofið út“ til 8.15 og þá hringdi klukkan fyrst, að vanda. Síðan átti hún að hringja á kortersfresti, til öryggis, hér er ekki sofið yfir sig. Hann elskar að fá að vera í friði (fyrir mér) frammi á morgnana, snæða sinn morgunverð í friði og fara í skólann í friði. En ef ég ætti að lýsa morgninum í einu orði kæmi friður langsíðast upp í hugann. Allt í einu, kannski klukkan 8.17, hringdi dyrabjallan, stráksi enn óklæddur, ég undir sæng að fjarstýra. Stráksi ýtti á opna-takkann á bjöllunni og ég setti nýtt stúlknamet í hraðklæðun og beið ótannburstuð með Monu Lisu-bros eftir komumanni. Sko, í gær kom Einarsbúð alveg óvart með léttmjólk (nú hlæja vinirnir sem þekkja hatur mitt á léttmjólk út í kaffi), sú létta var tekin strax til baka og ég sagði að það lægi alls ekki lífið á að fá þá bláu þungu, bara þegar þau væru næst á ferðinni í grennd, á morgun væri fínt ... jamm.

 

Mynd: Vettvangur morgunhremminga áður en búið var um.

 

GardínustaðanEkki séns að ég leyfði þessu að koma mér á fætur, næstum tveimur tímum of snemma, svo ég háttaði aftur á meðan stráksi klæddi sig í sínu herbergi. Hann fór út klukkan níu og ég andvarpaði af létti, nú yrði friður, hvíld.

Þá byrjaði gemsinn. Ég treysti mér ekki til að hafa slökkt á honum á nóttunni, maður gerir það ekki nema þjást af algjöru ábyrgðarleysi. Jarðskjálftahópurinn minn spjallaði eitthvað, það kom bling! kl. 9.03 og aftur kl. 10.11! Þá hafði klukkan mín hringt kl. 9.50, á áætluðum fótaferðartíma. Annar hópur sem ég er í, hringdi óvart (messenger-símtal) í mig kl. 11.47, (ég svaraði ekki af því að ég vissi að þetta var óvart) og svo fékk ég spurningu frá vinkonu sem vinnur í bókasafni, bling! kl. 12.53 og þá loksins dreif ég mig fram úr, frekar hissa á því hvað klukkan var! Geðprýði mín er greinilega gífurleg, þess vegna á ég enn gemsa, ekki brotajárn úti í horni.

Keli, minn heittelskaði elsti köttur, kom upp í til mín sirka tvisvar, man ekki tímasetningar, og klappaði mér á kinn, ekki laust við eina kló með svo ég setti sængina yfir höfuðið. Það er verið að dýpka eitthvað hjá höfninni með miklum látum, gott ef öskukarlarnir komu ekki líka með sínum skellum ... Er samt ótrúlega hress þrátt fyrir þessar hremmingar. Hvar er konan sem reif sig á fætur kl. 5-eitthvað á morgnana til að ná 6.20-strætó í bæinn, í heil tíu ár? Sennilega enn að jafna sig eftir það og bæta sér það upp. Heimsóknir og klapp Kela með kló átti sér eðlilegar skýringar. Hann var bara að láta mig vita að kattadallarnir væru tómir. Svo er ég ekki með almennilegar gardínur til að myrkva herbergið, sem gæti líka skýrt eitthvað, ég er að versna með að geta sofið í birtu, kannski „hressari“ eftir að ég hætti að reykja. Sjá mynd af gardínustöðunni.   

 

Fólk kemur fram við mig (gerir kröfur til mín) eins og manneskju sem er vöknuð kannski um átta, níu eða fyrr ... ég er frekar tíu-týpan, jafnvel ellefu- um helgar ef bókin kvöldið áður var spennandi. Ég lýsi eftir kostum þess að eldast ... loforðinu um að þurfa minni svefn! Hvar og hvernig gæti ég mögulega komið því inn í líf mitt? Þegar ég gerist leiðbeinandi á námskeiði, kannski tvisvar á ári í mánuð í senn, er ekkert mál að vakna upp úr klukkan sjö og hoppa og skoppa eins og leikari í kornfleksauglýsingu til hádegis.  

 

DollySvo verð ég að fá nýjan kodda. Þegar ég þaut á fætur kl. 8.17, svimaði mig svo mikið að ég varð að halda mér í kommóðuna til að detta ekki. Vöðvabólguviðbjóður, svo er kannski hægt að minnast á þyngslin framan á mér (ég er ekki að tala um bumbu, sjá mynd, nei, ekki gítar heldur eða hatt) og drauminn gamla um minnkunaraðgerð sem kostar milljón nema takist að semja við sérfræðilækna. Koddinn skiptir líka máli, ég finn ekki þann rétta. Sá á að vera þunnur og frekar harður, ekki með neinu fiðri í, svona gamaldags eins og ég svaf með í gamla daga. Hann er því miður ögn of þykkur sá sem ég keypti vongóð um leið og nýja rúmið. Sá besti er koddinn sem ég svaf á úti í Conway, WA, USA, hjá Elfu vinkonu síðast. Þess virði að fara út og sækja hann. Hún bauð mér að eiga hann, mér fannst það hálffrekt að þiggja, sagðist pottþétt geta fundið svona kodda á Íslandi ... og fann ég hann? Nei, aldeilis ekki. Hér fást bara lúxusdúnkoddar, sérstakir heilsukoddar og annað í þeim dúr.

 

Lindumorðið (bókin sem ég kláraði í gær) er rifin niður af nokkuð mörgum sem hafa lesið hana á Storytel svo ég er farin að efast um eigin smekk ... djók, hún er grínádeila jafnframt því að löggurnar leysa morðmál. Algjör synd ef koma ekki fleiri, hún var auglýst sem fyrsta bókin í flokki en ef móttökur eru ekki betri en þetta, er ekki víst að útgefandi haldi áfram. Hún fær aðallega gagnrýni fyrir mikla karlrembu aðalsöguhetjunnar og lítilsvirðingu gagnvart öllu og öllum, en þar er einmitt grínið fólgið, bara hlusta betur! Svo voru það bara „ómerkilegar löggukerlingar“ sem kláruðu málið.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 549
  • Frá upphafi: 1525862

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 497
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband