Mergjað húsfélag og enginn greindur hér

SegulómunartækiNýjasti fb-hópurinn minn, Húsfélagið Skakkagerði 99, hefur fengið mig til að endurskoða líf mitt hér í Himnaríki, það er allt of rólegt hérna, finn ég, jaðrar við sálarfrið og andlegt jafnvægi, púff. Verst að ég finn Skakkagerði 99 ekki, hvorki á ja.is né með gúgli. Þarna býr afar fjölbreytileg flóra fólks og einn íbúðinn á meira að segja segulómunartæki sem hann fékk gefins. Það finnst mér merkilegt. Sjá mynd.

 

Færslan hófst á: „Góðan dag, ég fékk gefins þetta sniðuga tæki í dag og var að velta fyrir mér að taka að mér læknisfræðilegar rannsóknir í kjallaranum á 1182. Finnst ómögulegt að þessu sé hent.“

...

Nokkrum dögum seinna auglýsti annar íbúi

„Flóamarkaðurinn sem átti að vera á suð-suð-vesturgagningum á 385. hæð nk. laugardag hefur verið frestað út af geislamengun - ný dagsetning kemur síðar - minni á að það er bannað að selja heimaslátrað og súrsaðar pítsur.“

 

Varanlegur klósettrúlluhaldariÞarna ríkir greinilega líf og fjör og það virðist vera ansi margt hugvitsfólk sem býr þarna. Grófgerður (nýtt trend?) en algjörlega nothæfur haldari undir klósettpappír er bara einn af hlutunum sem fólk hefur verið að dunda sér við og deila með öðrum íbúum hússins en slíkur haldari er eitthvað sem ég þyrfti að fá mér eftir að rúlluhaldari Himnaríkis gaf sig (eftir nokkurt fikt og jugg og juð af hendi eins íbúa hér af fimm). Sá gæti aldeilis juggað og fiktað í þessum án afleiðinga (sjá mynd). Skítt með þótt sumt sé ekki nógu fínt til að komast í Hús og híbýli eða Bo bedre, það þarf að vera hægt að nota hlutina og óttast ekki að þeir verði ónothæfir eftir þriggja ára notkun.

 

Já, og svo því sé haldið til haga, húsfélagið mitt (í Himnaríki) þar sem ég gegni ábyrgðarstöðunni riddari, er ekki síðra en þetta, svona þegar ég fer að hugsa út í það, bara öðruvísi, ekki jafnmargt í gangi og greinilega miklu meiri rólegheit. Og það er alls ekki rétt að við í stjórninni förum árlega í siglingu um Karíbahafið fyrir húsgjöldin og bjóðum þess vegna upp á sterka vodka-kokteila á húsfundum til að íbúar samþykki allt. Bara alls ekki.

---

 

CovidÍ gær voru liðin þrjú ár síðan ég var send í sóttkví í nokkra daga, eins og yfir 100 Skagamenn sem höfðu farið í ræktina sama dag og covid-smitaður einstaklingur hafði lyft lóðum þar. Svo strangt var þetta að allir, líka þeir sem voru vel á undan þeim smitaða um morguninn, urðu að fara í sóttkví og sýnatöku, þótt afar ólíklegt megi teljast að þeir hefðu hitt hann. Við vorum enn svo blaut á bak við eyrun í þessu, ekki enn farið að skima hér á Akranesi svo ég varð að fara í sýnatöku í Reykjavík. Verst að ég mátti ekki taka strætó þangað eða fá einhvern til að skutla mér. Og gekk ég frá Akranesi þessa skrilljón kílómetra (45) sem tekur níu klukkutíma (ég gúglaði) að ganga, mig átján?

 

Nei. Frábæra Ólöf Halla, gömul samstarfskona, hafði samband, bauðst til að sækja mig úr Mosó, bíða eftir mér og skutla mér svo heim. Síðar sama dag þurfti hún að fara með dóttur sína í sýnatöku svo þetta var sennilega eini sénsinn til að ég kæmist nema með sjúkrabíl. Við öll (107 manns) af Skaganum reyndumst vera ósmituð svo nú hófst biðin eftir að vita afdrif dóttur Ólafar ... og möguleika á annarri sóttkví og sýnatöku ef bílferðin með Ólöfu hefði verið smitandi. Vá, hvað þetta var furðulegur tími. Á öllu Vesturlandi voru 263 í sóttkví þennan dag en aðeins fimm greindir ... enginn hér.

Dóttir Ólafar reyndist vera ósmituð svo lífið hélt áfram eins og vanalega. Einsetukerlingarlífsmáti minn (nánast), heppni og bólusetningar hafa enn haldið mér ósmitaðri. Ég sakna stundum grímanna og daðursins við mjólkurkælinn með augnaráðinu einu saman, ó, hve augun gátu dansað ... á meðan hrukkurnar voru vel faldar.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 16
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 675
  • Frá upphafi: 1525835

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 610
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband