Streð, spreð og ótrúleg tæknigeta hægri kinnar

Breytingar á MessengerBæjarferð var farin í gær í tilefni af ókeypis strætódegi, snöggri ferð í sumarbústað í dag og bara alls konar. Fleiri farþegar en vanalega voru um borð og í Mosó, áður sætukarlastoppistöðinni, kom inn indæli fyrrum lögreglumaðurinn af Dalvegi, og konan hans, hún Ingibjörg úr BG, ég legg ekki meira á ykkur. Held að elsku lögginn minn, gamli strætóvinurinn, hafi ekki þekkt mig aftur, eða ekki viljað trufla mig þar sem ég var í símanum. Eða var ég það kannski ekki?

 

Mér datt nefnilega það snjallræði í hug að hlusta á glæpasögu á Storytel á leiðinni (Svartur september) og hélt símanum upp að eyranu, eins og ég væri að tala í hann. Einhverra hluta vegna datt kinninni á mér í hug að gera einhverjar gloríur við þann sem ég hafði síðast verið að ræða við á Messenger, m.a. um sófaborð í Húsgagnahöllinni, Hildu systur.

Í kvöld ræddum við aftur saman á Messenger og allt umhverfið var orðið breytt, það sem ég skrifaði var inni í grænum ramma. Mjög flott, alla vega í tölvunni, breytt en ekki jafnflott í gegnum gemsann. Kinnin á mér er sem sagt talsvert klárari en ég í síma- og tölvumálum. Önnur breyting, eiginlega frekar asnaleg, ef mig langar að senda systur minni þumalinn til samþykkis á einhverju, fær hún mynd af pylsu með öllu. Ég vona af öllu hjarta að ég hafi ekki sent öðru fólki eitthvað bull, ógleymanlegt þegar ég sendi nýlátnum manni hálfgert daðurtákn af algjörum klaufaskap, rak mig í eitthvað og kunni ekki að fela brotið. Stundum þegar ég ætla að skippa hratt yfir story hjá t.d. snyrtivöru-gjafa-áhrifavaldi eða venjulegri manneskju hef ég ábyggilega oft sent einhver tákn alveg óvart, hjarta eða þaðan af verra. Istagram er skárra en snappið upp á þetta að gera.   

 

Mosi í gluggaFyrir nokkrum dögum setti ég mynd af Mosa á Facebook, eins og svo oft áður. Þarna var hann að gá til veðurs, sat við opnanlega fagið og heilt hyldýpi fyrir neðan hann ... hugsjúku fb-vinir mínir héldu að hann væri alveg að fara yfir í frjálst fall ... Sumir héldu að hann langaði að strjúka frá mér, mér var bannað að hnerra svo hann dytti ekki í krókódíladíkið fyrir neðan, og Hilda systir sagðist vera búin að tilkynna þetta, dýraeftirlitið á leiðinni. Hún veit kannski ekki að gamall strætóvinur og eilífðargestur í afmælisveislum mínum er lögfræðingur hjá MAST! Kæri hún bara, hann veit hversu móðursjúk ég er varðandi þessa ketti mína og þegar Mosi datt út um eldhúsgluggann um árið, eða stökk, var það ekki ég sem galopnaði hann. Opið sem kötturinn situr vanalega ofan á nær varla einum sentimetra, glugginn svo stífur að Mosi getur ekki bifað honum, þótt hann hefði vit á að ýta á hann, sem hann hefur ekki. Kötturinn situr aldrei lengi, hann andar að sér sjávarloftinu í svona þrjár mínútur, stekkur svo niður og fær sér blund. Sjá skýringarmynd (samansetning) og innan gula hringsins á þeirri til hægri sést þessi sentimetri sem kötturinn hefur til að fleygja sér ekki út um.

 

Aktu taktuStundum gengur maður út frá einhverju vísu sem er það svo ekki. Ég lenti í því fyrr í kvöld að ákveða eitthvað sem var svo innilega rangt hjá mér. Ég ákvað að bjóða systur minni, vinkonu okkar og stráksa í hamborgara hjá Aktu taktu, við fórum austur í dag og náðum á svo góðum tíma í bæinn aftur að tími gafst fyrir slíkt ábyrgðarleysi og ná samt strætó heim til Akraness kl. 19.59.

Þrír stakir borgarar, ein máltíð, laukhringir og fjórir shake. Þetta kostaði yfir 13 þúsund krónur, sem er meira en sex máltíðir hjá Eldum rétt, þrír dagar fyrir mig og stráksa í venjulegri viku, miklu hollara og betra fæði, eldað frá grunni. Þarna hélt ég ranglega að ódýr máltíð væri á lágu verði, var t.d. alveg búin að gleyma okrinu á pítsum á Íslandi. Þjónustan var upp á tíu, allt mjög hreinlegt en staðurinn tómur sem ég skil núna af hverju var. Það er hægt að verðleggja sig út úr bisness og kannski var tómur staðurinn merki um það - en bílalúgan virtist vinsæl. 

Allt hefur vissulega hækkað, til að bankarnir græði enn meira, segja sumir, stjórnvöld gleyma greinilega að halda með okkur fólkinu sem kýs þau, en það er önnur saga. Mér flugu í hug ýmis orð en það eina prenthæfa var "ósmurt" en svona okur gerir staðina bara einnota, ég ætla aldrei aftur á Aktu taktu, alveg sama þótt þjónustan sé svona góð. Lítill shake var t.d. á tæpar þúsund krónur stykkið. Ég er enn í algjöru sjokki! Gat ekki leynt því hversu dýrt mér fannst þetta vera, og fór út eftir matinn án þess að þakka fyrir, sem er ólíkt mér en ég held svo sem að indælu krakkarnir sem vinna þarna hafi verið að afgreiða lúgufólkið.

 

Anna JónaÞað var svo sem heldur ekki ódýrt að fara á veitingahúsið Önnu Jónu niðri í bæ í gær, föstudag, en ég átti frekar von á því á svona fínum og flottum stað. Virkilega notalegt, góð þjónusta og einstaklega ljúft andrúmsloft. Vel lagt í verðið á kökum, eða um 2.000 kr. sneiðin. Stráksi gat ekki klárað sína súkkulaðiköku, hún var svo þrungin súkkulaði og þar með saðsöm, ekkert krem, bara algjör bomba. Því miður gat ég ekki smakkað hana því hún var með möndlumjöli, eins og aðrar kökur þarna, nema ostakakan. Vita kökugerðarmeistarar ekki hversu algengt hnetuofnæmi er? Hilda fékk sér súrdeigsbrauð með þeyttu smjöri (mjög gott), ég fékk mér creme brúlei, sem var sennilega það besta sem ég hef smakkað. Mig minnir að það hafi verið milt eþíópíukaffi, espressóbrennt í vélina sem gerir latte og það allt og kólumbíukaffi, miðlungsbrennt í uppáhellinguna. 

 

 

Ef ég fengi að ráða myndi ég breyta tvennu þarna ... Fyrra: Að hafa kólumbíukaffið espressóbrennt fyrir kaffidrykkina (latte og það allt). Það var svo mikil sýrni í eþíópíukaffinu, þessu fína og milda og það hefði hiklaust átt að fara í uppáhellinguna. Sem sagt svissa þessu. Ég er kannski algjör plebbi þegar kemur að latte, vil hafa afgerandi bragð, ekki svona mikla sýrni en svo er kannski fagmanneskja sem er algjörlega á öndverðum meiði. Seinna: Skipta út möndlumjöli fyrir t.d. kókoshveiti. Þá gætu fleiri keypt súkkulaðikökuna, hvað þá girnilegu sítrónukökuna. En allt var vel merkt fyrir ofnæmispésa, og yndisleg orð fremst í matseðlinum frá eiganda og stofnanda um tilurð þessa dásamlega kaffihúss á Tryggvagötunni.

 

Hilda og hundarnirJá, og við fórum í Costco. Keyptum almennilegt drykkjarvatn þar, ég þurfti að hringja myndsímtal til Búdapest til að geta fundið rétta ölkelduvatnið (frá Kirkland), og við kíktum á sófasett í Húsgagnahöllinni, Hildu vantar, og ég keypti fallega blátt garn í Jysk (jusk). Hekls Angels-klúbburinn hefur starfsemi sína í nú október og peysa verður mögulega hekluð.

Þetta var svo mikið streð þetta brölt okkur um allt, að Hilda náði skrefafjölda dagsins ÁÐUR en hún fór í gönguferð með hundana.

 

Við fórum í Mathöllina Höfða í gærkvöldi þar sem ég drakk bjór með matnum sem var ákaflega góður og frekar dýr, eins og ég bjóst við. Það voru bara til stór glös á staðnum sem ég valdi, svo ég gat ómögulega klárað bjórinn nema sitja of lengi við. En ég lyktaði þó eflaust eins og brugghús þegar ég hitti tvær fyrrum samstarfskonur fyrir utan kjörbúðina hennar Hildu nokkru seinna. Önnur dásemdin vann með mér á Vikunni (2000-2022) í nokkur ár og hin á DV (1982-1989) í eldgamla daga. Það var mikið faðmast og knúsast ... Skyldu þær halda að ég hafi dottið í drykkju eftir að ég flutti upp á Skaga? Nei, elskurnar, mér finnst gott kaffi miklu, miklu betra en nokkurt áfengi. Og svo held ég að holla bætiefnaríka ölkelduvatnið úr Costco verði nýtt uppáhalds. Bara verst hvað það eru margar flöskur í kartoninu, við stráksi gátum bara rogast með helminginn heim í kvöld.

Á heimleiðinni hlustaði ég á Storytel, nýútkomnu dásemdina Gjöf hjúskaparmiðlarans, en hafði vit á því að hafa slökkt á skjánum á símanum svo mín klára kinn gæti ekki gert neitt af sér.  

 

Myndin er af Hildu og sætu frændum mínum, þeim Herkúlesi og Golíat, í örstuttu sumarbústaðaferðinni í dag. Með því að gista ekki, náðum við okkur í einn aukadag. Á morgun verður sunnudagur, ekki mánudagur. Svona fangar maður tímann. Ótrúlegt.      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 668
  • Frá upphafi: 1525828

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 604
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband