Hvarf heftara á ögurstundu, grisjun og gaman

StorytelEiginlega skil ég ekkert í mér að rjúka á fætur upp úr klukkan átta í morgun. Oftast lúri ég lengur eftir að stráksi er farinn í skólann. Fór bara að raða bókhaldinu og hlustaði á sögu á meðan. Eftir nokkra ofurgóða lesara er ég orðin mjög kresin (flott orð) á þá og hef þjáðst svolítið í morgun. Bæði segir lesarinn REN-AULT um bíl einnar söguhetjunnar (ekki Renó), les stirðlega (segir biðja Hann um, ekki biðj´ann um) og svo hjúkrunarkonan (gömul bók) sem talar sambland af dönsku og sænsku er nánast látin skrolla og tala afskaplega bjagað. Það risu á mér hárin af hryllingi þegar hún talaði, óvirðing við Dani og Svía og líka þá sem skrolla. Hlutverk hjúkkunnar verður því óbærilega stórt í bókinni, þótt hún sé algjör aukapersóna, bara til að sýna hvað aðalsöguhetjan er nú sniðugur gaur. Ég upplifði mig sem fórnarlamb á meðan ég raðaði Einarbúðarkvittunum fyrir janúar, í febrúar var komin varanleg gæsahúð á augnlokin ... osfrv. Aðalsöguhetjan kom fram við hana eins og þjónustustúlku á hóteli, nema af meiri frekju en eðlilegt mætti teljast („Færið mér dagblöðin“). Hann daðraði við hana, uppnefndi hana þótt hún bæði hann um að hætta því, bað hennar þótt hún gæti verið móðir hans, bara til að vera sniðugur. Ég ætti kannski ekki að hlusta á gamaldags bækur framar, hvað þá með leiklestri. Fólk var allt öðruvísi á sjötta áratugnum. Svo pirrar mig að gaur sem finnur myrta konu, skuli þurfa að húkka sér bílfar til kaupmanns í grennd til að geta hringt í lögregluna. Nútímatækni er kannski búin að eyðileggja mig. En Kapítóla er samt alltaf góð þrátt fyrir gemsaleysi. Þarf samt að endurlesa hana. 

Leikarar hafa lært þá list að lesa fyrir fólk þótt sumir fari vissulega út í talsverða persónusköpun með röddinni sem getur verið ergilegt. Við sem viljum leikrit hlustum þá bara á útvarpsleikritið á Rás eitt á fimmtudagskvöldum eða, ef við eigum bíl, förum í leikhús.  

 

Bókhaldið er komið í plastmöppur eftir mánuðum. Kvittanir í röð eftir stærð, eins og Hilda vill, hún er skattasérfræðingur Himnaríkis og hlær ofboðslega yfir fáum kvittunum mínum þegar hún útbýr gögnin fyrir mig til endurskoðandans árlega. Ég er svo fegin að hún biður ekki um í stafrófsröð. Það passaði algjörlega að skipta borðstofuborðinu í níu hluta, eða fyrir níu mánuði þessa árs, og hafa samt pláss fyrir einn kaffibolla. Verst að ég finn ekki stærri heftarann á heimilinu, bara heftin sjálf, fullan kassa, svo víða eru reikningur og kvittun í tvennu lagi sem Hilda myrðir mig fyrir. Svona er að hafa ekki ákveðinn stað fyrir alla hluti heimilisins. Ég finn kannski stað og svo gleymi ég honum og finn annan stað ... en það bjargar auðvitað öllu hvað ég gaf mikið dót þarna í hreinsuninni miklu 2020 (ekki stóra heftarann samt) þegar Himnaríki var endurnýjað frá gólfi til lofts.

Svo fer að koma tími á næstu hreinsun, næstu grisjun. Ég búin að plata unga yndisdúllu á bíl til að aðstoða mig og fara með sitt af hverju í bæinn til að gefa á nytjamarkaði þar. Á meðan Búkolla vill bara nýrri hluti verð ég að fara í bæinn með dótið því þar leynist eflaust gamalt. Ekki það vistvænasta kannski en þá þarf ég ekki að henda einhverju nýtilegu og fallegu, en  markaðirnir í bænum hafa þegið allt mitt með þökkum. Fyrst það ríkir hálfgert 2007-ástand á Akranesi, eins og þau segja hjá Búkollu, skil ég þau alveg að taka ekki við gömlu. En það þýðir samt auðvitað meiri sóun og að nýtilegu dóti sé hent. Í alvöru-2007-ástandinu fór fólk þó ekki á nytjamarkaði til að spreða, það keypti sér þyrlur og byggði milljarðasumarhús. Þekki eina sem fór í svo flottan sumarbústað í eigu bankans sem hún var yfirmaður hjá, að það voru ekki bækur þar, hönnuðurinn bannaði það, bækur voru drasl og það mátti ekki drasla í svona fínheitum. Samt voru það flatskjáir alþýðunnar sem felldu landið, magnað. Nú eru það Tene-ferðirnar sem hækka vexti og margfalda þar með óverðtryggð húsnæðislán og fleira. En sjúkk, bankarnir tapa ekki, það er nú fyrir öllu. 

 

 

Köttur í einskis bóliStráksi vill engu henda svo ég verð sennilega að bera í hann fé eða hóta því að vera  með svið í matinn til að fá að grisja smávegis - hann hefur reyndar aldrei spurt um eldgamla legódótið sem fór í „geymslu“ hjá Hildu frænku ... Virkilega nýtinn sem er auðvitað fínt líka. Skil hann svo sem, ég var svona sjálf, fannst gott að eiga hluti sem kæmu sér kannski vel síðar, efni til að sauma úr ef ég lærði að sauma, bækur sem ég myndi sennilega lesa aftur seinna ... en svo fór ég í trylltan GEFA-gír og gaf eiginlega of mikið (af bókum og ætla að halda því áfram).

Áður en allt fyllist aftur, sem gæti gerst á næstu tíu árum, myndi Himnaríki hafa mjög gott af annarri grisjun. Sem betur fer hef ég verið nokkuð dugleg að gefa hluti síðustu árin; grannkona mín átti t.d. enga pönnu, ég átti tvær svipað stórar, hún fékk aðra. Vinkona mín átti kommóðu sem hún hafði ekki pláss fyrir, mig vantaði hirslu undir dót og til að setja litla sjónvarpið á inni í vinnu- og svefnherberginu mínu, hún gaf gömlu, flottu kommóðunni öruggt framhaldslíf og ég naut góðs af. Inga fær fullt af plötulopa frá mér og Rauði krossinn rest af því sem ég ætla að gefa, synd að taka mikið skápapláss undir garn sem ég mun sennilega aldrei hekla úr, á svo allt of mikið.

 

Mynd: Ég fékk teppið bláa og fína í jólagjöf frá Birtíngi eitt árið, það er svo fínt og snobbað að ég hef ekki leyft kisunum að sofa á því. Breiddi það yfir mig í gær þegar ég lagðist á hitapoka eftir eitthvað erfiði, og kettirnir röðuðu sér á það í kringum mig. Ég skellti því svo í stólinn, ofan á annað teppi sem er meira ætlað þeim, og átti bara eftir að brjóta það saman og skella í teppakörfuna (ekki efst) í stofunni en Krummi gefur engin grið þegar kemur að almennilegum teppum. Nú tími ég ekki að raska ró hans. Einhver teppi (ekki þetta) fá að fjúka í grisjuninni fram undan. Ég á of mörg.

Ég er komin í gírinn!    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 57
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 828
  • Frá upphafi: 1525819

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 743
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband