Vonandi ekki berdreymin ...

Hekls angels-veislurHannyrðaklúbburinn minn hugumstóri, Hekls Angels, hélt sinn fyrsta fund í dag eftir langa mæðu, eða síðan fyrir covid ... og það var svo gaman. Lítið heklað, mikið talað og sérlega góðar vöfflur með heimagerðri, geggjaðri jarðarberjasultu snæddar með bestu lyst. Myndin tengist móttökunum sem við Bára fengum í dag en óbeint þó.

Það var ansi hamingjusöm kerla sem kom við í Einarsbúð á leiðinni heim til að kaupa engjaþykkni með nóakroppi ... fyrir stráksa sko ... og fleiri nauðsynjar, nógu léttar til að geta borið þær upp á Kirkjubraut, á strætóstoppistöðina rétt hjá spítalanum. Í strætó áttum við stráksi nefnilega stefnumót, vel tímasett, hann að koma úr matarboði og ég þurfti sárlega aðstoð hans við að bera vörurnar upp stigana. Hlaupameiðsl mín síðan á laugardag voru ekki jafnmikil og ég hafði óttast. Til öryggis gekk ég löturhægt heim til Gunnu skömmu fyrir klukkan þrjú, það er ögn lengra en í Einarsbúð, til að hlífa áverkunum eftir mögulegt næstum hásinarslit eftir óþörf hlaup laugardagsins. Ég verð orðin sallafín eftir örfáa daga.

 

Svo er vitlausu veðri spáð á morgun, fimmtudag, og mér finnst jaðra við happdrættisvinning að þurfa ekki að fara út fyrir hússins dyr, fer bara að brjóta saman þvott og sinna alls konar húsverkjum, vei! Eftir örfáar vikur, eða um mánaðamótin, breytist þó allt og ég fer að vakna um miðjar nætur (upp úr sjö), hætta mér út í kannski hálku og stórhríð og það í boði Símenntunar Vesturlands. Algjört HÚRRA fyrir því! Afskaplega skemmtilegt og gefandi að kenna útlendingum íslensku. Ég kem úthvíld og hress í þetta strax eftir Glasgow-ferðina.

 

DraumarVonandi er ég ekki berdreymin ... eina nóttina fyrir skömmu fannst mér koma ótrúlega stór jarðskjálfti þar sem ég var stödd heima hjá mér í Himnaríki. Húsið lék á reiðiskjálfi en það brotnaði ekki ein rúða og ekkert skemmdist þrátt fyrir mikið rugg. „Það var nú gott að ekkert brotnaði,“ sagði draumspakur ættingi minn en ég veit hreinlega ekki hvað hann (reyndar hún) myndi segja við næsta draumi, fyrir örfáum dögum, en þá datt Himnaríki alveg á hliðina í risaskjálfta en engan sakaði, það var fólk hjá mér og allir rólegir yfir þessu, rúður brotnuðu ábyggilega en allir stóðu á fótunum, ég þar með talin, á meðan húsið liðaðist í sundur og fór á hliðina. (Draumspakir vilja meina að húsið manns í draumi sé maður sjálfur, líkami okkar, og þá er ég að hruni komin núna! Undirmeðvitundin að reyna að láta mig vita að ég sé í klessu án þess að átta mig á því?)

 

Það sem ég held er að ég sé enn að venjast nýja RB-rúminu og áhrifum þess á daglegt (nætur)líf mitt. Nokkrum sinnum hef ég fundið hristing sem er síðan ekki jarðskjálfti, heldur köttur að hreyfa sig, sennilega stökkva upp í til mín. Eina nóttina vaknaði ég við jarðskjálfta, mjög stóran (ég finn bara þá sem eru yfir 4 að stærð, frá Reykjanesskaga) og fór beint í símann, kíkti á vedur.is, valdi jarðhræringar og beið eftir uppfærslu Veðurstofu Íslands - sem kom svo aldrei. Þetta var bara köttur ...

NEMA Veðurstofan sé farin að slaka á kröfum til starfsfólksins? Sem er ótrúlegt. En ég trúi svo sem ýmsu eftir að Broddi Broddason hætti hjá RÚV, til dæmis því að jarðskjálftar séu þaggaðir niður af því að Broddi hætti og enginn finnist sem getur róað þjóðina eins og hann ... Það skyldi þó ekki vera? Og kettirnir mínir þá sárasaklausir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 260
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 2075
  • Frá upphafi: 1493479

Annað

  • Innlit í dag: 231
  • Innlit sl. viku: 1707
  • Gestir í dag: 221
  • IP-tölur í dag: 217

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Mia_litla
  • Eftirlaunaaldurinn
  • Hirðrafvirkinn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband