Álfar, magi með miðilshæfileika og Tommahúmor

Álfholtsskógur 1Yndislegu vinir okkar, Kamilla og Gerry, fóru með stráksa í bíltúr og stefnan var tekin á Álfholtsskóg þar sem Kamilla sagði að væru álfar. Álfar eru aðaláhugamál stráksa og á vordögum lofaði hún að bjóða honum með sér þangað, held að þessi staður sé við Akrafjallið norðaustanvert. Ég var komin í fjólubláan síðerma rúllukragabol og þykka sokka í stíl, þegar hálftími var í brottför, átti bara eftir, þegar nær drægi, að fara í þykka svarta peysu, þykku michelinman-úlpuna og margvefja síðan heimaheklaða marglita treflinum utan um hálsinn - þegar ég fékk illt í magann. Áhyggjusvipur stráksa jókst með hverri mínútunni, eða þar til ég sendi K+G skilaboð um magaverkina og að drengurinn væri á leið niður stigann, enda hann svo sem aðalboðsgesturinn.

 

Mynd: Gerry hjálpar stráksa yfir beljandi stórfljót í ævintýra-álfagöngunni. Þau komu heim með hann áður en ég gat klárað bloggið og þess vegna eru hér myndir úr ferðinni. Þáðu te og kaffi og sögðu ferðasöguna. Engir álfar sáust en það fannst fyrir þeim. Stráksi sagði hrikalega gott að ég kom ekki með, ég væri mjög heppin, þetta var víst algjör svaðilför, þau þurftu að klifra og allt. Ég hefði sennilega frosið inn að beini ef ég hefði beðið í bílnum og mögulega slasast ef ég hefði farið í gönguferðina. Honum fannst svo sem ekki leiðinlegt að fara einn með þeim. Gerry hefur haldið tvær málverkasýningar í ár og hún tekið á móti börnum á Akranesi, Ísafirði, Austfjörðum og í Reykjavík þennan tíma (ár?) sem þau hafa verið hér. Þau hafa búið og starfað víða um heim og eru nú á heimleið til Danmerkur. Ó, hvað ég mun sakna þeirra. Þau eru búin að sjá meira af Íslandi á þessum stutta tíma en ég alla mína ævi. 

 

Er álfur heima ...Ég ætlaði svo sannarlega með í þessa álfagöngu, þetta var í alvöru ekki uppgerð gönguferðahatara, upphaflega ætlunin hafði verið að ég biði í bílnum á meðan þau afplánuðu gönguna, ætlaði að taka með mér bók ... eða kannski tölta með þeim, færi eftir umhverfinu og hitastiginu, þegar maginn tók óvænt af mér völdin. Kannski vissi hann fyrir fram ... eða kannski voru þetta mótmæli hans af því að ég brá út af vananum og var ekki með Eldum rétt þessa viku, og borðaði eflaust meira snarl en vanalega. Stráksi fær virkilega hollan og góðan mat í skólanum og fannst næstum því í lagi að snarla (hann vill helst þrjár heitar máltíðir á dag) ... en maginn í mér þoldi þetta kæruleysi ekki eftir dásamlegt atlæti í bráðum tvö ár með reglulegum, hollum máltíðum.

 

Fimm mínútum eftir að stráksi settist ofsaglaður upp í bílinn sem þaut með hann í burtu, fann ég verkina hverfa. Þetta þýddi svo sem að ég gat hringt í Einarsbúð og pantað nokkrar afar nauðsynlegar vörur, eins og engjaþykkni með nóakroppi (fyrir stráksa, ég held mig við einn slíkan í viku, þegar vikuna ber upp á snjóþungan mánudag eða tungl er hálffullt og merkúr er í stjörnuhrapi).

Nú bíð ég bara spennt eftir sögum af álfum. Ég hef aldrei séð nokkuð yfirnáttúrulegt en þekki fimm konur sem hafa séð álfa. Ein þeirra var tíu ára en hinar fullorðnar þegar það gerðist. Tónlistarkennari, læknir, trillueigandi, skrifstofukona og spámiðill. Þverskurður af þjóðfélaginu. Stærrí heili, næmleiki eða bara ofsjónir, jafnvel drykkjuskapur? (Djók) Ég sagði stráksa að ef ég sæi nokkurn tíma álf myndi ég skrækja af skelfingu. Það fannst honum fyndið, hann myndi halda ró sinni, sagði hann.

Ég er að reyna að stjórna því að hann sjái ekki Exorcist II sem er víst algjör hryllingur - vissulega hryllingsmynd en hefur fengið verulega slæma dóma. Ef ég bið hann um að sjá hana ekki, langar hann á  hana - og ef ég bið hann um að fara ekki á til dæmis Oppenheimer og hann fer, mun hann aldrei fyrirgefa mér. Öfug sálfræði getur sprungið framan í mann. Vonandi er eitthvað annað bitastætt í bíó. Hann fékk vissulega engar martraðir eftir að hafa séð IT sem ég frestaði ansi lengi að leyfa honum. „Þú veist að þetta er bara tómatsósa,“ segi ég alltaf í aðvörunarskyni. „Þú meinar gerviblóð, jú, ég veit það,“ svarar hann. Sennilega er ofverndun í gangi af því að ég get ekki hryllingsmyndir (lengur) og reyni að stýra honum að hollu, uppbyggjandi, fræðandi og þroskandi efni ... Merlin og öðru spennandi og skemmtilegu.  

 

Á hlaðinuÞað varð mikið uppnám hér á hlaðinu fyrr í dag þegar bílstjóri lítils bíls ákvað að leggja FYRIR stíginn sem liggur m.a. að þyrlupallinum mínum, meðfram Langasandi. Sem betur fer kom stór bíll sem mótmælti harðlega með flautunni, sá litli færði sig því bílstjórinn var enn við bílinn svo sá stóri komst leiðar sinnar. Litla var lagt fjær (sjá mynd) og þrír einstaklingar úr honum fóru í Guðlaugu. Ég er enn með hjartslátt. Myndin var tekin ögn seinna, eða þegar annað farartæki fór þessa leið sem verður að vera opin fyrir t.d. löggubíla á fótboltaleikjum.

 

Mikill samhugur ríkir varðandi kvennaverkfallið þann 24. okt. Byrjar dagurinn nokkuð fyrr en eftir að ég er flogin af stað til Glasgow nánast um miðja nótt? Er þetta verst valda dagsetning allra tíma, þar sem ég missi líka af Vökudögum og alls konar skemmtilegu sem verður í gangi hér á Akranesi á meðan ég mæli skosk stræti og leita uppi Filippus Angantý? Svona getur farið þegar maður pantar og borgar með rosalega löngum fyrirvara ... til að fá hagstæðasta verðið.

 

Fréttir af Facebook

Fésbókin rifjaði upp níu ára gamla minningu af minni eigin síðu, sögu af elsku Tomma mínum, bílstjóra og góðum vini sem dó óvænt langt fyrir aldur fram: 

 

Aðstoðaði Tomma bílstjóra við farþegatalningu í gær.

Tommi: „Eru karlar í meirihluta?“

Gurrí: „Held ekki, átti ég að flokka eftir kynjum?“

Tommi: „Nei, alls ekki, það var bara svo mikil þögn í vagninum.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 224
  • Sl. sólarhring: 341
  • Sl. viku: 2039
  • Frá upphafi: 1493443

Annað

  • Innlit í dag: 196
  • Innlit sl. viku: 1672
  • Gestir í dag: 191
  • IP-tölur í dag: 188

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Mia_litla
  • Eftirlaunaaldurinn
  • Hirðrafvirkinn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband