Versta sælgætið, draugaráðherra og væntanlegt gos

Hvaða vindáttBláfáninn við Langasand hefur verið fjarlægður, og það í skjóli morguns þegar allt fólk með hreina samvisku sefur. Það mætti halda að ströndin væri ekki lengur bláfánaströnd en hún er það víst enn. Ég hélt að þegar við misstum strompinn (sjá myndina til vinstri) myndi bæjarstjórnin koma á móts við okkur svo við þyrftum ekki í sífellu að reka fingur út um glugga eða kíkja á vedur.is eða yr.no - og koma með annað jafngott og stompinn, eða fána. Og akkúrat þegar þörfin er mest fyrir alvöruvindáttarstaðfestingu, sem sagt yfir vetrartímann, erum við svipt þessu góða tæki. Á ég virkilega að þurfa að kjósa Miðflokkinn til að fá fána? Djók, ég var ekki að meina íslenska fánann, eða annað þjóðlegt ... kippa af harðfiski væri samt skárra en ekkert.

 

Á samsettu myndinni efst virðist vera norðvestanátt sem er frekar sjaldgæf hér, yfirleitt er það suðaustanátt og ég held að hún sé ríkjandi hér. Allt vestlægt býr til flottan sjó svo ég aðhyllist hana, fyrst ég þarf ekki á Akraborginni að halda, suðvestan var langverst upp á sjóveiki sjóveikra, held ég alveg örugglega. Annars sakna ég Akraborgarinnar gömlu, ekki þeirrar sem sigldi á milli eitt sumarið fyrir nokkrum árum því hún lagði að bryggju næstum úti á Granda, ekki nálægt miðborginni eins og áður. En maður fær ekki allt sem maður vill. Nú, til dæmis, vil ég ekki að það fari að gjósa 24. október, á kvennaverkfallsdaginn. Þá verður mögulega vesen að komast til Glasgow og nánast ómögulegt að manna kvenna Veðurstofuna með eldgosafræðingum. Ég gleymi ekki blámóðunni sem allt var að drepa fyrr á þessu ári en stöðug norðanátt ætti að bjarga okkur frá því. Hver er í góðu sambandi við veðurguðina?

 

Nýi matvælaráðherrannÝmsar athyglisverðar umræður komu upp á Facebook bæði í gær og dag. -Hvaða nammi er versta nammi sem þið vitið um? hljóðaði ein spurningin. Ýmsir smekklegir lýstu yfir hryllingi á hlaupi og svo fengu bleiku og rauðu molarnir í Makkintossi atkvæði, ein kvað þá þó vera í uppáhaldi. Mér finnst eiginlega allt makkintoss vont, nema kannski karamellurnar, svo ég kaupi það aldrei fyrir jólin eins og tíðkaðist á bernskuheimili mínu. Einna ömurlegast þótti mér að lesa, og það á opinni færslu sem viðkvæmt fólk getur séð, um að sumum fyndust rommkúlur vondar!

Nú loksins veit ég af hverju orðið smekkleysa var fundið upp. Ekki verður öllum heilsað næst þegar ég fer í Einarsbúð! Mér finnst vínkonfekt vera vont, nema fyrrnefndar rommkúlur sem eru æðislegar, einnig flaskan í Nóakonfektinu. Þess vegna held ég að fordómar geti mögulega verið ástæðan fyrir smekkleysinu, en það er svo sem ágætt að þurfa ekki að berjast blóðugum bardaga og beita mútum til að fá sínar rommkúlur fyrir jólin.

 

Myndin af nýja matvælaráðherranum tengist umræðunni um vont sælgæti aðeins óbeint. Mér finnst bara flott að fá Kristján í þetta embætti. Hann hefur hvort eð er stjórnað þessum málum meira eða minna, segir fólk ...  

 

Yehya og eldgosÍ jarðskjálfta- og eldgosahópnum mínum eru umræður um það merkasta sem er í gangi á landinu, að það verði mögulega stutt í næsta eldgos á Reykjanesskaga. Gos draga að ferðamenn, eins og við vitum. Það er náttúrlega gott að fylla hótelin yfir vetrartímann, en svo þarf líka að muna eftir því hversu erfitt er að smala túristum í vondum veðrum. 

Ég nenni eiginlega ekki fleiri eldgosum, hvað þá jarðskjálftum, ég hristist alveg nóg í eigin nýja rúmi þegar kettirnir stökkva upp í það og mig dreymir um skjálfta, eins og hefur komið fram. Hugsa samt að þetta venjist með tímanum. Hengirúm væri svo sem sniðug hugmynd á meðan skelfur ört. 

 

Myndin er rúmlega tveggja ára og það er virkt eldgos fyrir ofan öxlina á stráksa sem virðist þó vera sallarólegur. Hann fann varla jarðskjálftana í undanfara gossins eða var alveg sama. Glugginn er lokaður sem bendir til mengunar því hann er nánast alltaf lokaður nema þegar spáð er láréttri rigningu á hraðferð. Ég vona bara að yfirvöld verði tilbúin með vörslu á næstu gosstöðvum - í stað þess að níðast endalaust á sjálfboðaliðum björgunarsveitanna.

 

Jólin, jólinMér finnst skortur á byrjandi jólaskapi hjá fólki. Jólaboðinn mikli, snjórinn, veldur fólki bara ama og einn skrifaði í snjóinn á afturrúðu á bíl og sýnt var á fb: Mig langar til Bali. Oj, veit fólk ekki að þar er hryllilegur hiti allt árið? Núna er t.d. 32°C hiti á daginn og fellur niður í ekki síður óbærilegar 22°C á nóttunni. Hvílíkur skortur á stemningu hlýtur að ríkja þar ... Ekki dettur mér í hug að kvarta yfir mínum 3°C á Akranesi, nú þegar þetta hvíta, þunna sem féll í nótt er alveg horfið. Fullt af fólki í göngutúr við Langasand í dag og enginn þarf að óttast að fótbrotna í hálku. Hljólandi fólk geislar af gleði, já, það er gott að búa á Akranesi. 

 

 

JólatréMisskiljið mig samt ekki varðandi jólaskap í október, ég hlusta ekki á jólalög fyrr en í desember nema aðstæður krefjist þess, ég er viss um þau hljóma um alla Glasgow til að auka kaupgleði okkar systra eftir rúma viku. Sterkar hefðir í tengslum við jól höfða alls ekki til mín, nema ég býð Hildu og co í hangikjöt á jóladag, það er bara komið upp í vana og ég er búin að tryggja mér besta eftirrétt í heimi, rúllutertu a la Daiva ...

 

Hilda hefur aldrei það sama í matinn á aðfangadagskvöld, bara eitthvað gómsætt, það er kannski hefð í sjálfu sér en mjög fín hefð. Annar í jólum er yfirleitt í lausu lofti (oft lestur á náttfötunum, maulandi laufabrauð og drekka malt og appelsín, kannski rommkúlur líka).

Ég gerði þau mistök í fyrra að kaupa mér hvítt jólatré (sjá mynd) og gefa það græna sem var nokkurra ára gamlat. Hvítt passaði síðan ekki eins vel við stofuna mína og heldur ekki flottu jólakúlurnar frá Tinnu Royal, þær eru miklu flottari á grænu tré, finnst mér, en þetta er auðvitað smekksatriði. Nú er bara að athuga hvort sú sem fékk það græna vilji skipta og fá hvítt?

Biðst afsökunar á þessu undarlega og ótímabæra jólastuði ... veit ekki hvað kom yfir mig, kannski fyrsti snjórinn á Skaganum, þessi sem hvarf?    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 68
  • Sl. sólarhring: 455
  • Sl. viku: 1883
  • Frá upphafi: 1493287

Annað

  • Innlit í dag: 59
  • Innlit sl. viku: 1535
  • Gestir í dag: 59
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Mia_litla
  • Eftirlaunaaldurinn
  • Hirðrafvirkinn

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband