Nóa-konfektslóð og Skálmaldartengsl

Næstum öllÞær hvimleiðu og kolröngu kjaftasögur fóru í gang að ég hefði gengið yfir mig í Glasgow (10 þúsund skrefa-hryllingurinn, munið) og væri enn að ganga saman en allt gengi nú samt vel. Jú, allt gengur vel, það er hið eina rétta af þessu. Síðustu fjórar vikurnar hef ég til dæmis verið hoppandi og skoppandi sem leiðbeinandi og kynnt íslensku fyrir fólki af níu þjóðernum. Fólkið var hvert öðru dásamlegra og heilmikil tilhlökkun að mæta í vinnuna á morgnana. Tungumálin sem það talaði voru ansi mörg; þýska, franska, norska, arabíska, spænska, litháíska, lettneska, sómalska, ítalska, rúmenska, kínverska, enska, úkraínska, pólska, rússneska ... ég er ábyggilega að gleyma einhverju. Þvílíkur fjársjóður að fá þetta fólk til landsins.

 

Mynd 1 sýnir hluta hópsins í bókabúðinni síðasta daginn. Ásta sést í baksýn bæta við nýjum jólabókum ... ég elska þennan árstíma. Eins og vanalega bætir myndavélin á mig fimmtán kílóum.  

 

Fallegt sólarlag 30.11 23Strætó númer 2 kom rétt fyrir átta á morgnana norðanmegin á Garðabrautinni og ók öfugan hring, eða niður í bæ og svo þaðan upp í sveit (Bónushús) þar sem vinnan mín er. Held að leið 2 fari fjóra eða fimm hringi á dag, til að létta á leið 1 og svo er líka frístundastrætó sem ég kann ekkert á. Ég hef verið rengd nokkrum sinnum varðandi leið 2, það væri enginn strætó númer 2 á Akranesi. „Kíktu bara á akranes.is,“ sagði ég síðast nú í hádeginu, stödd í strætó 1 á leið í klipp og lit. „Ég er ekki með tölvu og kann ekki á tölvu,“ sagði konan enn vantrúuð. Sonur hennar er hirðrafvirkinn minn og ég bið hann um að sýna henni þetta. Annars eru nýju rafmagnsvagnarnir ansi fínir en sniðnir að börnum, ekki bara leiðaáætlunin. Ef ég stelst í sætin merkt eldri borgurum með staf hef ég pláss fyrir fæturna, annars ekki. Ég myndi að sjálfsögðu þjóta upp úr eb-sætinu ef einhver eb kæmi inn í vagninn. Sætin (stærðin) eru miðuð við barnsrassa, og eiginlega of þröngt fyrir tvo fullorðna að sitja hlið við hlið þótt grannir væru. Held að innanbæjarstrætó sé aðallega hugsaður til að spara skutl á börnum, því leið 2 gengur t.d. ekki á meðan frí eru í skólum. Eins gott að ekkert slíkt var í nóvember. Reyndar ... flesta morgna skutlaði elskan hún Svitlana mér í skólann. Þá var ég búin að hella upp á í vinnunni, gera kennslustofuna klára, hlusta á músík og fullt áður en hitt starfsfólkið mætti. Langfyrst. En langseinust ef ég tók strætó, þá kom ég 8.15 sem er samt korteri fyrir byrj.

 

Mynd 2: Himinninn var ansi smart í dag, eftir lit og klipp, þar sem ég stóð þarna og tók myndina var kallað í mig. Hjördís (mömmur.is) spurði hvort okkur vantaði far, stráksi hitti mig þarna eftir skóla. Ekki í fyrsta sinn sem gott fólk býður okkur far. Stráksi var þó heldur dramatískur þegar hann sagði: „Hjördís, þarna bjargaðir þú lífi okkar.“ Svo minnti hann okkur á áðan þegar hann sagði í gríni að hann vildi frekar Hjördísi sem fósturmömmu af því að hún byggi til svo flottar kökur. „Það var sko grín,“ sagði hann en efinn skein úr augum hans. Ég þarf að baka oftar.    

 

Hjartans yndin hjá Símenntun Vesturlands, Hekla og Steinar, gerðu allt, bókstaflega allt til að auðvelda mér tilveruna í kennslunni. Ég spurði Steinar einn morguninn eftir að hafa fengið tölvuaðstoð frá honum: „Segðu mér, ertu með eðlilega tölvukunnáttu eða hefurðu menntað þig sérstaklega í tölvum?“

„Uuu, bara ósköp venjulega,“ svaraði hann og þá vissi ég stöðu mína þar.

Nokkrum morgnum seinna hljóp ég inn á skrifstofu til hans og montaði mig af því að hafa getað allt sjálf ... hann nefnilega kenndi mér um leið og hann stillti allt rétt. Ef einhver hafði notað kerfið á eftir mér deginum áður, þurfti að endurstilla og það var mikið sjokk (fyrir snilling á öðrum sviðum, eins og mig). Núna get ég eiginlega næstum því titlað mig tölvunarfræð - ekki alveg -ing, það er lögverndað. Ég keypti tvo kílókassa af Nóakonfekti á fimmtudaginn fyrir viku, annan fengu hjálparhellurnar mínar hjá Símenntun á föstudeginum og hinn fór í að gefa nemendunum smakk af þessari dásemd síðasta daginn, eða á mánudaginn síðasta. Þá fengum við inni í bókasafninu á Akranesi. Móttökurnar voru svo góðar þar, gott kaffi og önnur skemmtilegheit. Mitt fólk dáðist að jólatrénu sem Dúlluhópurinn heklaði um árið, ég sýndi þeim líka Akrafjallið, heklað úr dúllum (ég gerði tvær) sem við gerðum í tilefni 150 ára afmælis safnsins. Undir lokin horfði ég á grannt starfsfólkið og svo á mig, síðan aftur á starfsfólkið og skildi um það bil 900 grömm af Nóakonfekti eftir handa því, aukakílóin fara nokkuð jafnt á þau en engin á mig sem er ansi gott. Held að þetta heiti að skilja slóðina eftir sig, konfektslóðina.

 

AlexVið kíktum næst út í bókabúð við hliðina og fólkið mitt átti varla orð yfir jólabókahefðina hjá þessari litlu þjóð. Næst heimsóttum við Omnis, frábæra raftækjabúð sem hefur nokkrum sinnum komið í veg fyrir að ég noti góðvild Davíðs frænda of mikið ... (t.d. geturðu hjálpað mér að færa gögnin úr gamla símanum?) Svo lá leiðin út í Flamingo, sýrlenska matsölustaðinn, stutt stopp þar og við enduðum hjá Hans og Grétu (flottri fatabúð) og Model (geggjuð gjafavörubúð, blóm og raftæki). Alltaf gott að vita hvar hlutirnir fást.

 

Á Ísafirði voru eitt sinn erlendir íslenskunemar dregnir á barinn og látnir panta sér á íslensku, ef það gengi þyrftu þeir ekki að borga. Ég nýtti þessa afbragðshugmynd nema við fórum í ísdeildina í Sbarro, og ég var búin að æfa þau. Það mátti líka segja: Nei, ekki svona, eða já, takk ... og allir stóðust prófið. Móttökurnar hjá Sbarro voru æði, tveir sem afgreiddu og þeim fannst þetta bara gaman. „Eru þau á fyrsta árinu?“ spurði Alla sem vinnur þarna. „Neibbs, voru að klára fyrsta mánuðinn!“ svaraði ég. Alla kallaði til þeirra: „Mikið eruð þið dugleg!“ og meinti það. Það gladdi okkur mjög, mér fannst það líka. 

 

Mynd 3: Litli fallegi nágranni minn, Alexander, kíkti í heimsókn fyrir nokkrum dögum. Stóri bróðir hans gisti hjá mér nóttina þegar Alex kom í heiminn. Sá stutti var yfirkominn af öllu því nýja sem hann sá í himnaríki en svo fór hann að brosa á fullu. Kettirnir urðu ofsaglaðir að hitta stórabróður sem tekur alltaf þegar hann kemur í heimsókn, smávegis mat úr dallinum þeirra og færir þeim, hvar sem þeir liggja í slökun. Þeir kunna að meta það - og þeir elska börn.

 

Hluti af íslenskukennslunni er að tala um samfélagið hér og að sýna þeim nytsamlegar feisbúkksíður, benda á antíkskúrinn, Búkollu, leigusíður og slíkt, en um daginn vorum við frekar háfleyg og lífslíkur Íslendinga bárust í tal. Ég komst að því í spjallinu að lífslíkur úkraínskra karlmanna eru að meðaltali 65 ár! Sá sem sagði mér það á örfá ár í að ná því sjálfur svo ég harðbannaði honum að snúa aftur til Úkraínu. Hann glotti nú bara en kommon, fólk er bara rétt síðmiðaldra 65 ára (tala af reynslu).

 

Einhverjar flensur hrjáðu okkur eins og aðra landsmenn, ég dældi í mig flensulyfi úr Ameríkunni fyrstu vikuna og líka Pepto Bismol þegar maginn var með stæla einn morguninn í síðustu viku. Fékk PB og flensulyf með elsku Anne þegar hún heimsótti mig í sumar og það kom sér aldeilis vel. En ekki eiga allir svona lagað svo einn daginn voru bara fimm eða sex nemendur mættir, allt frekar miklir töffarar svo ég skellti á tónlistartíma og spilaði m.a. ásamt íslenskum lögum, Eurovision-lög frá þeirra löndum til að kynna fyrir hinum ... og svo leyfði ég þeim að heyra HEL með Skálmöld og Sinfó. Well, þau klöppuðu eftir lagið, þeim fannst þetta svo flott, svo það er til fleira smekklegt fólk en ég! Ég gat bætt við gleði þeirra með því að segja þeim að gítarleikarinn í Skálmöld byggi á Akranesi (ef heimildir mínar eru réttar).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 28
  • Sl. sólarhring: 104
  • Sl. viku: 666
  • Frá upphafi: 1525559

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 593
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Ásgeir Sigurvinsson
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka
  • Gleðilegt sumar ... bless, hálka

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband