Partístand, misheppnað grín og vanrækta baðið ...

HilduboðSíðustu dagar hafa einkennst af veisluhöldum og samt ekki komin jól! Eins gott að ég pantaði ekki Eldum rétt fyrir þessa viku. Það þarf að halda afmæli, það þarf að útskrifast, borða úti, fagna komandi hátíð og allt þar á milli. Ég mætti stundvíslega degi of snemma til Hildu, það varð að undirbúa komu jólasveins og sitthvað fleira sem hún þurfti andlegan styrk og hjálp við ... Í sömu ferð tók ég allar jólagjafir sem ég gef, eða nánast, til að geta afhent ættingjum og vinum sunnan rörs, eins og mestu töffararnir orða það. Tók einnig stóra tösku með mér með alls kyns fíniríi, sturtusápum, sjampóum og einhverju sem hafði verið óhreyft hjá mér en kannski helmingur eftir í, í körfu á baðinu síðan árið 2020 þegar allt var tekið í gegn í Himnaríki. Nú var kominn tími til að vanrækta baðið (á efri hæðinni hjá Hildu) fengi smávegis umhyggju og ást og minni hættu á að ég notaði óvart hundasjampó í hárið á mér. Nýja glæsilega og flotta baðið niðri höfðar meira til heimilisfólks sem neitar að baða sig uppi. Bara við stráksi elskum að hafa þetta næstum því einkabaðherbergi okkar þegar við erum í bænum. Ég raðaði þessu dásemdardekurdóti samviskusamlega inn í baðskápinn á vanrækta baðinu og hlakkaði meira en nokkru sinni fyrr til að fara í sturtu að morgni afmælisdags systur minnar og Keiths Richards. Ég hefði átt að ... jæja, allsnakin og tilbúin í steypibað opnaði ég skápinn þar sem handklæðin eru geymd og sjúkk, þarna var eitthvað eitt dökkgrænt alveg á botninum. Ég setti það í seilingarfjarlægð frá sturtuklefanum. Þegar ég svo teygði mig í það eftir böðinuna reyndist þetta vera lítil handklæðamotta, verulega þykk, þó skárra en ekkert. Ég fylltist þakklæti yfir því að þetta hafi ekki verið gúmmímotta.

 

Í partíi tvö áttaði ég mig endanlega á því hversu ömurlegan húmor ég hef, hugsa að viss kona í vissri búð á Akranesi taki undir það því ég sé alltaf undir iljarnar á henni þegar ég mæti (mætti) ... en óánægju- og vanþóknunarsvipurinn á henni þegar hún þurfti að berja mig augum gerði alkabarnið mig svo taugaveiklað að ég varð helmingi leiðinlegri í tilraun minni til að létta andrúmsloftið. Stráksi var með í síðdegisboðinu, eins og í þeim öllum, og á meðan hann fór og sótti sér veitingar settist kona á stólinn hans og sneri bakinu í okkur, var að tala við fólk á næsta borði. Þegar stráksi kom til baka sagði ég létt: „Sestu hérna við hliðina á mér, því „vonda, vonda“ konan þarna tók stólinn þinn.“

Stráksi hló, til þess var leikurinn eiginlega gerður, ég nota hvert tækifæri til að þróa kímnigáfu hans þar sem hann er einhverfur, og mér hefur gengið ótrúlega vel að kenna honum að taka ekki öllum hlutum bókstaflega (hef reyndar sett skýlaust bann á vodkabrandarana hans á veitingastöðum) en þetta á auðvitað ekki að bitna á saklausum gestum. Unga konan gerði sig líklega til að standa upp og ég sagði að þetta hefði nú bara verið asnalegt grín, henni væri svo innilega velkomið að nota stólinn, stráksi gæti bara sest hinum megin við mig. Án þess að virða mig viðlits gekk hún samt á brott og ég sat eftir alveg eyðilögð. Héðan í frá verða lélegir fósturmömmubrandarar bara sagðir í mjög vernduðu umhverfi.

 

Helvítis hamborgariÞriðja partíið var með Löllu vinkonu, við stráksi skruppum út að borða með henni á Brasserí Kársnes í hádeginu í fyrradag. Mjög fínn staður og virkilega gaman. Stráksi hló þegar hann pantaði það girnilegasta (að hans mati) á matseðlinum, Grillaðan helvítis hamborgara, hann heitir það. Við erum ýmsu vön, hér á Skaganum var eitt sinn hægt að kaupa Haltu kjafti-hamborgara ... en stráksa þótti ansi hreint fyndið að blóta um leið og hann pantaði. Við Lalla ræddum allt milli himins og jarðar og að gefnu tilefni tjáði ég henni að ég væri hrifnust af spaghettíi með festist-við-ísskápinn-suðu, pínku pons meira soðið en al dente ... svona blaðrar maður leyndarmálunum nánast í ógáti og stendur ekki undir matgæðingsvæntingum bloggvinanna - og ekki nokkur einasti ítalskur sjarmör lítur við mér framar, en satt er satt. Það er vissulega millivegur frá al dente og að hálftímasuðu sem ég afplánaði í æsku, jæks. Ég rifjaði upp hvað ég varð stjörnustjörf yfir því að Lalla ætti vinkonu (Sara Lee, ég gúglaði) sem spilar á bassa með King Crimson - og var í afmælisveislu Löllu í fyrra, verulega indæl og skemmtileg! Ef ég hefði komist á King Crimson-tónleikana í París 2018 hefði hún mögulega spilað þar á bassann ... en ég sá bara plakötin upp um allt og hreifst yfir því að þetta gamla uppáhald mitt væri enn að túra. Fannst svolítið eins og ég hefði hoppað inn í tónlistarsöguna eitt andartak þarna í fyrra. Þetta var svipað og þegar frænka mín, mesti Arvo Pärt-aðdáandi sem ég þekki, sat fyrir tilviljun við hlið þessa eistneska tónskálds í flugvél en tók íslensku aðferðina á hann, lét eins og hann væri ekki þarna, alveg stjörf samt.

 

Síðasta partíið í aðdraganda jóla var geggjuð útskriftarveisla í gær, sonur-barnabarn í vinahópnum var að útskrifast sem rafvirki með ágætiseinkunn. Veitingarnar stórkostlegar, enda eiga mömmur.is helling í nýja rafvirkjanum. Ég hafði spurt smekkvísa vinkonu mína um mögulega sniðuga útskriftargjöf og hún nefndi eitthvað sem mér fannst spennandi en sá þó vesen við að finna, nema fara í mjög flotta og sértæka bókabúð, eða flotta deild í bókabúð - og efaðist samt um hæfileika mína til að velja eitthvað nógu geggjað.

 

Enginn tími var til þess á meðan ég var í borginni og þessum partíum, og stjórnendur Eymundsson senda ekki einu sinni erlendar metsölukiljur til okkar á Skagann (svo vér Skagamenn þurfum að fara í bæinn (eða sérpanta) til að halda við enskunni með hjálp Stephen King) svo mér fannst eigi líklegt að ég fyndi svona sérhæfða bók. Í afmæli Hildu var staddur dásemdardrengur, réttur maður á réttum stað, á réttum tíma, meira að segja nemi í rafvirkjun, ár í útskrift, og að auki er Skálmöld uppáhaldshljómsveitin hans!!! svo aðdáun mín á honum jókst um mörg þúsund rokkstig og var þó mikil fyrir. Ég spurði hann hreinlega, ef hann gæti valið um þetta sem vinkona mín stakk upp á (vönduð og virkilega eiguleg hönnunarbók) eða falleg orð á korti með nokkrum brakandi seðlum í, var hann aldrei í vafa: „Peningar, allan daginn,“ sagði hann.

 

Keli passar hekliðNú er runninn upp eini dagurinn sem ég hef til að taka til og skreyta, stráksi í gistingu, ég fæ hann bara lánaðan í veislur, og ég bara sit og blogga þar til verður dimmt. Það kemur í ljós seinna í dag hvort ég kann að setja saman nýja jólatréð, setja á það seríur og skreyta það svo vel fari. Held ég hafi keypt allt of stórt tré, 1,80 m. Hmmm.

 

 

Svo hélt ég að ég hefði keypt AAA-rafhlöður um daginn, en nei, þetta voru tvær mismunandi pakkningar af AA, frá sama fyrirtæki og allt.

Sjáum hvað Einarsbúð finnur handa mér, nú er hangikjöt, laufabrauð, grænar baunir og rauðkál á leiðinni og sitt af hverju fleira, m.a. AAA-batterí.

Af því að það eru að koma jól pantaði ég rommkúlur. Yfirleitt gæti ég þess að ekkert slíkt sé að finna á heimilinu til að ég borði það ekki ... en ég skreyti bara betur í rommkúluvímu. Er einhver 1944-réttur nógu góður og sparilegur á jóladag fyrir þá sem geta ekki borðað hangikjötið hjá mér? Nei, djók, en ég þarf að láta mér detta eitthvað í hug, fljóteldað, lítt flókið og rosagott - fyrir einn eða tvo.

 

Mynd af Kela: Tekin í gær, ég er að reyna að hekla barnateppi sem er stundum svolítið flókið þegar maður á kött sem er hrifinn af plötulopa og að sitja nánast í fanginu á manni og reyna að veiða hannyrðirnar þrátt fyrir að vera kominn á virðulegan aldur.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 645
  • Frá upphafi: 1525538

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 574
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Eldum rétt
  • Gamla bakaríið
  • Mosakrútt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband