Listaverk sem laða að ástmenn ... eða fæla frá

MayerlingValentínusardagurinn var haldinn hátíðlegur hjá mér og köttunum í gærkvöldi og hitann góða við bakið sem lagði frá hitapokanum úr Apóteki Vesturlands, mætti alveg kalla ástareld eins og hvað annað. Kona „á mínum aldri“ er sátt við alla hlýju sem hún getur fengið, nema þennan sem fylgir í 15°C plús og logni úti. Auð jörð, hiti við frostmark, logn. Næs.

 

 

Það er vissulega alltaf hægt að brenna sig illa á ástareldi, eins og gömul kunningjakona mín hefur nú aldeilis lent í rosalega oft. Helber óheppni auðvitað. Ég hefði átt að taka mark á henni þegar hún gagnrýndi listaverkin á veggjunum hjá mér, eins og Mayerling (sjá mynd 1). „Þú nærð þér aldrei í mann með svona myndir á veggjunum!“ sagði hún svo réttilega. Sjálf hefur hún verið einstaklega dugleg að laða að sér alls konar menn enda með eintóm krúttlegheit upp um alla veggi. Henni leist ekkert á eina uppáhaldsmyndina mína af konunni sem var að detta af skýi ... þrátt fyrir að ég segði henni að konan væri að koma sér upp á bleika skýið. Svona er nú listin margslungin og vér mannfólkið með misjafnan smekk. 

 

HugleikurÉg var alveg rosalega heppin að vinna með Aðalsteini Ingólfssyni listfræðingi í nokkur ár, á DV á níunda áratugnum. Var á konulaunum allan tímann og leigði á svívirðilega háu verði (markaðurinn hefur alltaf verið hræðilegur) EN hann benti mér  á flotta listamenn ... mátt ekki missa af-sýningum og ég keypti sitt af hverju þessi ár sem ég mun aldrei sjá eftir. Til dæmis Tímaþjófinn eftir Magnús Kjartansson (grafík), tvær litlar dásemdarmyndir (olíumálverk) eftir Jón Þór Gíslason sem ég borgaði fyrir með tveimur geymsluávísunum ... og þessa, Mayerling, sem mér finnst mjög flott. Ég sá aldrei bíómyndina Mayerling sem hlýtur að hafa verið algjört drama, miðað við listaverkið ... ég er ekki svo mikið fyrir drama svo ég hef látið ýmsar sálarflækjumyndir fram hjá mér fara, viljandi. Hef samt gaman að því að horfa á góðar myndir þótt ég detti alveg ofan í drasl-b-jólamyndir á aðventunni ... hámhorfi upp á stemninguna.

 

Svo sá ég "hræðilega" flotta teiknaða mynd eftir Hugleik Dagsson fyrir nokkrum árum og langaði mikið í hana, pantaði og fékk hana senda heim. Sé ekki eftir því. Ekki svo löngu seinna hækkuðu myndirnar hans í verði, svo ég stórgræddi. Hafði séð hana á síðunni hans og þá á ensku. Þegar ég hringdi og vildi panta hana sagði sú sem svaraði að því miður ætti hún hana bara á íslensku ... sem var auðvitað nákvæmlega það sem ég vildi, vissi ekki að hún væri til á ylhýra. Þvílík heppni. Kannski ekki mikil samkeppni. Hversu margar gullfallegar konur eiga þrjá ketti? Mér leið alveg eins og Hulli hefði teiknað hana handa mér! Og þegar ég sá jólakúluna í jólabúðinni í mollinu úti í Flórída ... með mynd af þáverandi forseta, Trump. Ég varð að eignast hana og íhugaði alvarlega að hefja söfnun á ljótum jólakúlum í kjölfarið. Tinna Royal, listakona á Akranesi skemmdi það algjörlega fyrir mér með sínum skemmtilegu jólakúlum.

 

FötÉg auglýsti á Skagasíðu á Facebook fyrr í kvöld eftir fötum á tvær litlar vinkonur mínar, foreldrarnir hafa ekki mikið á milli handanna og lítið bakland - svo ég prófaði.

Ég er í alvöru klökk eftir viðbrögðin, þvílíkar elskur hérna allt í kring. Ekki bara Skagafólk, heldur líka dásamleg kona úr Borgarnesi sem ætlar að koma með poka um helgina. Fólk bauð líka leikföng og bara alls konar. Mikið er ég þakklát - og veit líka að litlu krúttin verða alsælar.     

 

Facebook

„Er þetta fólk búið að missa vitið?“

(Við frétt um að Bláa lónið opni á morgun)

Komment: „Þau eru búin að opna viðbót, Rauða lónið, við hliðina en það er bara fyrir adrenalínfíkla, skilst mér.“

 

Einn hress setti spennandi tungubrjóta á síðu, ég stel nokkrum - muna að segja hratt:

Hnoðri úr norðri verður að veðri þó síðar verði. 

Vefðu óvafða vöðva og afvefðu vafða vöðva.

Það fer að verða verra ferðaveðrið.

Glaðlega glamraði í grillinu gamla.

Fríða og dýrið í þrívídd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 620
  • Frá upphafi: 1506065

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 510
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband