Tónlistaráföll og bestu hrísgrjónin ...

Wu-TangTónlistarveitan mín, YouTube-veitan, er farin að lauma inn lögum á listanum Ýmis lög, eins og aðallistinn minn heitir. Ég hvarf af Spotify til að styðja Neil Young sem tók allt sitt þaðan þar sem Spotify vildi halda kvenhatandi samsæriskenningahlaðvarpara hjá sér - en viðurkenni að stráksi tók yfir þá veitu, við kunnum ekki að stofna nýtt eitthvað slíkt fyrir hann. Þegar Spotify gefur út árlegan lista yfir mest hlustað hjá "mér" kem ég algjörlega af fjöllum. Þekki hvorki haus né sporð af þessari músík hans. Það er nú aldeilis annað en í denn ... ég man eftir símtali í sveitina til sonar míns sumarið 1995. Ég hafði pantað geggjað óskalag, rapplag, splunkunýtt með Wu-Tang Clan, hjá samstarfsmönnum mínum á X-inu - ég vann á neðri hæðinni, á Aðalstöðinni og þeim þótti mjög fyndið þegar næstum 37 ára gamalmennið (ég) hélt upp á músíkina þeirra. Svo hringdi ég í sveitina til Einars og leyfði honum að hlusta á þetta geggjaða lag í gegnum símann. Hann varð mjög hrifinn og hlustaði mikið á hljómsveitina næstu árin. Smekkur okkar var nokkuð svipaður en ég náði samt aldrei Gun´s Roses, hafði of flotta forvera (Zeppelin og Purple) til samanburðar og tók Fugees heldur ekki í sátt fyrr en frekar nýlega, kallaði þau alltaf Fokkís, til að stríða honum ... Svo bara allt í einu fannst mér Killing me softly með þeim ferlega flott, en ég fyllist angist og depurð ef ég heyri það í flutningi Robertu Flack. Furðulegt en satt. Skil ekkert í þolinmæði sonar míns, ég hefði ekki verið sátt ef mamma hefði hringt í mig í sveitina og spilað Child in Time í sveitasímann og verið ofsahrifin ... Það var reyndar allt syni mínum að þakka að ég vaknaði af tónlistardásvefninum mikla þetta sama ár, 1995, þegar MTV bættist við líf okkar og allt breyttist. Þvílíkar perlur þarna á tíunda áratugnum og skelfileg tilhugsun ef ég hefði misst af þeim.

 

David-GilmourEkki nóg með að veitan mín bæti lævíslega við ýmsum lögum sem eiga að falla mér í geð en gerir ekki því þetta er kannski "lag" af plötu sem á að vera samfelld, Thick as a brick, Selling England by the pound ... osfrv. Bara alls konar. Aðaltónlistarsjokkið kom í dag þegar ég las að David Gilmour, gítarleikari og söngvari í Pink Floyd, hefði sagt að sísta plata sveitarinnar væri ATOM HEART MOTHER!!! Ég hefði skilið The Wall (sem er samt meistaraverk) en ekki AHM. Þetta hlýtur að vera gervigreindin að fokka í mér. Hann á að hafa sagt að platan væri sundurlaus og hljómsveitin ekki búin að finna rétta tóninn, eitthvað slíkt. Mig grunar að ég eigi svarna óvini sem falsa tónlistarfréttir til að koma virðulegum síðmiðaldra konum úr jafnvægi, eða kannski er David farið að förlast. Smáséns á gúrkutíð samt.

 

Barbra CartlandÍ gær fékk ég góðan gest, konu sem ég tók á móti með þvílíkum kræsingum að ég fékk sykursjokk bara við að raða fínheitunum á þriggja hæða bakkann. Haldið að hún þekki ekki konu eins rokkarans í Skálmöld! Og fannst það ekkert svakalega merkilegt, ég held að hún hafi bara verið að reyna að fela montið. Ég reyndi að róa ruglið ögn niður með því að segjast hafa séð Valgeir Guðjóns (úr Stuðmönnum) í Washington DC rétt fyrir aldamót. Og til að bæta um betur sagðist ég hafa verið í sama afmæli og bassaleikarinn í King Crimson - og það á Íslandi. Og að ein vinkona mín hefði orðið að sleppa því að fara í partí með Mick Jagger í New York, vegna tannpínu! Við þetta bilaðist gesturinn og sagðist eiga vinkonu sem skrifaði glæpasögur og í einni bókinni kannaðist hún við lýsingu á sjálfri sér! Ég hnussaði, það þýddi ekkert að skipta um listgrein, ég þekkti líka skáld. Á meðan ég hugsaði örhratt um svar við þessari ósvífni sagðist ég hafa nánast hitt sjálfa Agöthu Christie, hefði alla vega verið í London 1976, sama ár og Agatha dó - og svo mundi ég allt í einu að ég þekkti manneskju (íslenska) sem tók viðtal við sjálfa Börbru Cartland sem skrifaði svo margar bækur að ef ef ein væri þýdd og gefin út á Íslandi á ári, myndi barnabarnabörnum okkar margra ekki endast aldur til að sjá fyrir endann á útkomu þeirra. Gestur minn hló hæðnislega og sagði þetta sannarlega ekki merkilegt sem sló mig svo ofboðslega út af laginu að ég gleymdi að segja henni að ég hefði tekið viðtal við sjálfa Margit Sandemo - og að ég keypti eingöngu appelsínusafa frá Sól eftir það viðtal. Konan fær aldrei að vita hvers vegna af því að hún hvarf hlæjandi á braut, hélt fyrir eyrun og sagði aftur og aftur: „Ég er ekki að hlusta“ ... og hélt ranglega að hún hefði sigrað mig, eins og þetta hefði verið einhver keppni! 

 

Svo gottttttHádegismaturinn í dag var palestínskur. Ég hafði aulað út úr mér í skólanum að mér fyndist arabískur matur góður (mínus hnetur og döðlur). Einn nemandinn mætti óvænt með smávegis smakk handa mér og almáttugur hvað þetta var gott ... þegar ég var búin að tína rúsínurnar úr hrísgrjónunum. Mögulega bestu hrísgrjón sem ég hef smakkað. Kjúklingurinn alveg rosalega góður líka. Ég hef reynt að elda arabískan mat og tekist skítsæmilega, á einhvers staðar matreiðslubók frá Rauða krossinum á Akranesi sem safnaði saman flottum uppskriftum víða að. 

 

Á Facebook

Á síðunni Gamaldags matur (masókistasíðunni minni) mátti finna áhugaverða könnun. Uppáhaldssúpan ykkar, og svo átti maður að kjósa eina súpu. Þarna var blómkáls-, síðan sveppa-, þá aspas- og kjötsúpa, svo mexíkó-, humar-, lauk-, fiskisúpa, tómat- ... og fleira slíkt. Ég kaus sveppasúpu, vel og rétt krydduð er hún ansi hreint góð og fékk líka góða kosningu, hélt að hún hefði sigrað ... eða þar til ég sá að íslensk kjötsúpa var langsamlega vinsælust! Svo mundi ég á hvaða síðu ég var. Dæs. En Halla frænka gerir reyndar svo góða kjötsúpu að ég held að ég tæki hana fram yfir flest, en könnunin minntist svo sem ekkert á frænku mína ...    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 662
  • Frá upphafi: 1506061

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 547
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband