Tinder ... nei, takk

ForsetiDagurinn í dag fer í að gera himnaríki að mínu ... þannig séð. Þið vitið eflaust, kæru bloggvinir, að unga fólkið fleygir rusli í ruslafötuna án þess að horfa á hvert það lendir, það sprautar tannkremi ofan í skúffuna fyrir neðan vaskinn á baðinu, án nokkurrar miskunnar og ákveðið máttleysi kemur yfir annars verulega myndarlega húsmóðurina sem nú er búin að taka bæði ruslaskápinn og baðskúffuna ærlega í gegn, betur en nokkru sinni. 2020-hreingerning, heitir það á þessu heimili, því skápar og skúffur komu splunkný og sérsmíðuð hingað í stóru yfirhalningunni það ár og þessi svæði virðast orðin ný. Nú þarf ég að gefa bæði kommóðu og hillur, ásamt stórri leðurpullu sem var allt of stór í stofuna hér (fékk hana gefins) og stráksi heimtaði að fá að eiga ... en ekkert pláss heldur fyrir hana í litlu íbúðinni hans. Grisjunin er hafin, allt of mikið safnast hingað á örfáum árum, en ef / þegar ég flyt ætla ég bara að hafa það sem ég vil eiga ... losa mig við hitt sem safnast bara fyrir í haugum. Vonandi fer ég í sama gribbugírinn og ég var í 2020 þegar ég gaf hátt í helminginn af öllu sem ég átti í kringum endurbæturnar ...

 

Myndin tengist færslunni ekki á nokkurn hátt, villur í texta (grjóthaltu og fleira) og ljótt orðbragð ... en fyndin samt. Já, ég er manneskjan sem fer helst ekki inn í búðir sem heita t.d. Mamma Veit Allan Skrambann út af misnotkun á hástöfum. Ótrúlega margir staðir sem láta skiltagerðarmanninn ráða ... 

 

Stráksi malar af sælu og hamingju yfir nýja heimilinu, sem gleður fósturmömmuhjartað mjög. Öll sem þar vinna eru svo góð við hann svo hann mun blómstra. Vissulega tómlegt og skrítið að hann sé fluttur en hann er auðvitað ekkert farinn úr fjölskyldunni og mun t.d. halda jólin með okkur eins lengi og hann kærir sig um. 

 

TinderHeyrði í gamalli og góðri vinkonu nýlega. Hún spurði hvort ég ætlaði ekki að skella mér á Tinder fyrst ég væri ekki lengur með fósturbarn. Hún hló að heigulsskapnum í mér þegar ég viðurkenndi fyrir henni að ég hefði aldrei skráð mig þar. (Prófaði einkamal.is í nokkrar vikur þegar ég var að verða fertug, og við það lauk æsku minni og sakleysi). Hún er ögn meiri hetja en ég og hefur alveg farið á nokkur stefnumót. Hún fór að hlæja þegar hún sagði það og sagðist ætla að kíkja í heimsókn til mín við tækifæri til að segja mér nokkrar góðar sögur af misheppnuðum stefnumótum. Þetta væri skrautlegur staður en hún ætlar samt að halda áfram að vera þar, sagði hún. Eitt sinn ákvað hún að hitta mann á veitingastað. Hann hafði verið mjög skemmtilegur á meðan þau spjölluðu saman á netinu svo hún hlakkaði til að hitta hann. Hún hvorki reykir né drekkur, svo það komi nú fram, en þegar þau voru nýsest við borðið rauk hann aftur út til að reykja. Svo drakk hann einhver ósköp af víni á milli þess sem hann fór út að reykja, sem var nokkrum sinnum á meðan þau borðuðu. Starfsfólkið horfði samúðaraugum á vinkonu mína sem sat meira og minna ein við borðið. Svo skildi hann ekkert í því að hún hafi ekki nennt að hitta hann aftur. Hann má þó eiga það að hann stakk ekki upp á við hana að skipta reikningnum í tvennt, eins og einn sem ég þekki gerði, konan sem hann fór út með, á bar, drakk bara kaffi en hann nokkra bjóra og vildi endilega að þau skiptu með sér reikningnum, sú kona hætti hreinlega að vera skotin í manninum fyrir vikið, hafði ekki átt von á svona ósvífni og nísku frá þessum glæsilega manni ... 

Svo heyrði ég af manni sem kynntist indælli konu, einstæðri móður, á Tinder og spjallaði mikið við hana á netinu. Hann var þrælspenntur fyrir henni og þau ákváðu að hittast eftir nokkurra vikna spjall. Hann ákvað að bjóða henni í rómantískan kvöldverð heima hjá sér og vandaði sig mikið við eldamennskuna. Kertaljós, rauðvín og góður matur. Hún mætti ... með börnin sín með sér, tvö eða þrjú, og sagði við þau: „Segið halló við nýja pabba ykkar.“ Maðurinn fór alveg í flækju en lét ekki á neinu bera fyrir framan börnin, fann meiri mat, lét rauðvín og kertaljós hverfa og þau borðuðu saman. Þegar þau voru farin heim talaði hann við hana og sagði að svona gæti hún ekki gert, þau væru í raun bara vinir, hefðu verið að hittast í fyrsta sinn og hún gæti ekki gert börnunum sínum þetta ... hann hefði ekki áhuga á að hitta hana aftur. Hún hundskammaði hann fyrir að gera börnum hennar þetta, þau hefðu hlakkað svo til að hitta nýja pabba ... Hún hafði víst spurt hann í fyrra spjalli þeirra hvort hann gæti hugsað sér að vera í sambandi með konu sem ætti börn, hann svaraði því til að börn væru ábyggilega ekki fyrirstaða ef hann væri ástfanginn, svona almennt, ekki börn konunnar, enda höfðu þau ekki hist þegar þetta barst í tal.

Ég vona að ég muni þessa sögu nokkuð rétt. Auðvitað er fullt af allílæ-fólki innan um en ég tek ekki sénsinn. Hugsa sér að hitta greindan, fyndinn og frábæran mann þar og svo tæki hann uppkominn börn sín með sér á stefnumót með mér ... og væri alltaf úti að reykja með þeim. Hvað myndi starfsfólkið á Galito halda?

 

Ég held frekar áfram að ná mér í menn í Einarsbúð á föstudögum á milli 18 og 18.30 við grænmetiskælinn hjá bananastandinum. Þar er oft ágætt úrval karla og erfitt að velja, en Akranes er frægt fyrir fjóra hluti, ekki bara þessa þrjá fyrstu: Fallegar konur, góðar kartöflur, æðislega fótboltamenn ... og suddalega sæta menn sem er það fjórða. Það er verið byggja á milljón hér svo piparjúnkur landsins, komið bara hingað í karladýrðina, svo er Einarsbúð alveg æðisleg að öðru leyti, ég fer varla í Costco lengur, því allt það besta þaðan fæst þar (nema gómsæta sítrónuformkakan).  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf svo skemmtilegt hjá þér.

Magnús Skúlason (IP-tala skráð) 6.4.2024 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr himnaríki

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 214
  • Sl. sólarhring: 293
  • Sl. viku: 906
  • Frá upphafi: 1505913

Annað

  • Innlit í dag: 173
  • Innlit sl. viku: 739
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Í fiski 15 ára
  • Sultarólin hert
  • Útsýni úr Kokku kaffihúsi

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband