Afmælisbörn, risalampinn og óviðeigandi tónlist

Mamma hjúkkaAfmælisdagurinn hennar mömmu er í dag, hún hefði orðið níræð. Vantaði bara tæp tvö ár upp á. Það er langlífi í ættinni okkar en mér virtist mamma ekkert mjög spennt fyrir því að verða mikið eldri. Henni fannst ekki taka því að fara til augnlæknis þótt slæm sjónin hamlaði henni frá því að ráða krossgátur og svo var hún löngu hætt að nenna að lesa blóðugu krimmana sem hún hafði svo gaman af. Hún þoldi vel blóð, enda hjúkrunarfræðingur ... Hadda tvíburasystir mömmu dó nokkrum árum á undan henni, fæddist líka ögn á undan, þær voru gjörólíkar í útliti, enda tvíeggja. Hjördís og Bryndís, og þegar Sissa vinkona þeirra slóst í hópinn voru þær alltaf kallaðar þríburarnir. Mammma ólst upp í miðborginni, á Laugaveginum, beint á móti Stjörnubíói, og þegar komu nýjar myndir í bíó, fóru þríburarnir stundum í bíó kl. 3, 5, 7 og 9, segir sagan. Eitthvað sem mamma var ófús að viðurkenna þegar við systkinin vildum fá að fara í bíó mörgum árum síðar. Ég man að hún fékk reiðhjól í fermingargjöf og amma fór upp í sveit til að redda rjóma til að hægt væri að bjóða upp á almennilegt bakkelsi í veislunni. Þetta var í kreppunni eftir seinni heimstyrjöldina.

  

Elsku TommiAnnað afmælisbarn dagsins hefði orðið 65 ára í dag, elskan hann Tommi bílstjóri sem dó langt fyrir aldur fram. Hann var afskaplega fyndinn og skemmtilegur, með sérlega góðan tónlistarsmekk og mikill sögumaður sem kunni að að ýkja til að gera sögurnar enn meira krassandi. Ég þurfti stundum að taka fyrir eyrun ...

 

Lampinn sem ég keypti í IKEA er svo voldugur og svakalegur (keypti hann vegna litarins) að hann myndi henta í einhverja risaskrifstofu með mjög hátt til lofts og vítt til veggja, á skrifborði sem hentar fimm manns eða einum forstjóra. Okkur skildist að það fylgdi eilífðarpera en svo var alls ekki, það er perustæði og þar segir Max 13W sem er nú bara kínverska í mínum eyrum. Ég missti tvisvar skrúfu þegar ég var að setja hann saman (ég hata ósamsetta hluti, hvernig átti mig að gruna?) en þrátt fyrir að hafa ekki arnarsjón fann ég þær báðar, sjúkk. Ég gat ekki sett skrímslið í minnsta herbergi himnaríkis, heldur færði til fallegan lampa sem þarf bara að snerta til að kvikni eða slökkni á honum, fellur án efa vel í kramið þótt hann sé bara silfurlitaður.

Svona er nú vont stundum að vera hætt að reykja, og hafa ekki kveikjara í vasanum til viðmiðunar - allt svo stórt í IKEA svo lampinn virtist alveg mátulegur. Rautt hættuljós kviknaði ekki þótt hann væri svakalega þungur. Einu sinni keypti ég tungusófa í Jysk, lítinn og sætan en svo varð hann næstum því skrímsli í stofunni heima hjá mér, eða þar til eftir breytingar þar sem hann passar bara ágætlega núna, en mætti ekki vera mikið stærri samt. Svo villandi og ég dett oft í pyttinn og kaupi of stórt.

 

Nú stendur yfir fótboltaleikurinn LIV - TOT, en flest í fjölskyldu minni halda með Liverpool. Sonur minn hélt með Tottenham. Aðallega út af Harry Kane en nú er Kane horfinn á braut svo ég er hætt að halda með bæði LIV og TOT. Áfram Liverpool, segi ég núna. Svo held ég líka með West Ham og ekki síst eftir að Dagný frænka, barnabarn Höddu, tvíburasystur mömmu, fór að spila með þeim.

 

Fréttir af Facebook

Á einhverri erlendu síðunni kom spurningin: Hvaða tónlist er mest óviðeigandi að spila við útfarir?

Ekki stóð á svörunum:

Hit me baby one more time 

It´s my life

Return to sender

Another one bites the dust

The witch is dead

I will survive

Congratulations

Going Underground

Highway to Hell

They are coming to take me away, aha

Staying Alive

og

Heat of the moment 

Light my fire 

 

Hérlendis myndum við byrja á: Komdu og skoðaðu í kistuna mína, og það eru án efa fleiri íslensk lög sem kæmust í þennan hóp þótt ég muni ekki eftir neinum akkúrat núna.

 

Í hópi ættingja sagði ég eitt sinn að ég myndi helst vilja lagið Hel með Skálmöld og Sinfó sem útgöngusálm í minni útför, svo fólk gæti dillað sér á leiðinni í brauðterturnar í erfidrykkjunni. Megrandi, hollt og gott. Þau tóku reyndar ansi vel í þetta, alls ekki viðeigandi en samt svo ótrúlega flott lag. Nú er það alla vega opinberað.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sögur úr skýjahöll

Höfundur

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

... ekki bara kattakerling

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 222
  • Sl. sólarhring: 271
  • Sl. viku: 885
  • Frá upphafi: 1516235

Annað

  • Innlit í dag: 177
  • Innlit sl. viku: 718
  • Gestir í dag: 171
  • IP-tölur í dag: 168

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Einarsbúð
  • Þægilegt líf í 11 mín.
  • Í Ikea

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband